Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 23:29:56 (3850)

2001-01-17 23:29:56# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[23:29]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Dómsniðurstaða Hæstaréttar í því máli sem hér er til umræðu snýst fyrst og fremst um það að hverjum einstaklingi séu tryggð ákveðin lágmarksréttindi sem miðuð eru við einstaklinga. Túlkun Hæstaréttar á 65. og 76. gr. stjórnarskrárinnar er grundvallaratriði í þessu máli og snýst um rétt til handa örorkulífeyrisþegum í hjúskap til lágmarkslífeyris sem óheimilt er að skerða vegna tekna maka.

[23:30]

Formaður nefndarinnar um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, hæstv. núv. fjmrh., orðaði það afar skýrt þegar hann mælti fyrir mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar árið 1995, en hann sagði að um væri að ræða mikilvægasta mál þingsins til lengri tíma litið, enda lyti það að grundvallarréttindum borgaranna í landinu og mikilsverðum réttarbótum á því hvernig mannréttindi væru best tryggð.

Orðrétt sagði hæstv. núv. fjmrh., Geir Haarde, með leyfi forseta, þegar hann mælti fyrir þessum stjórnarskrárákvæðum:

,,Með því að binda þessar grundvallarreglur skýrlega í stjórnarskipunarlög og veita þeim þannig sérstaklega ríka vernd er verið að viðurkenna þær varanlega sem hornstein íslensks lýðræðisþjóðfélags.``

Miðað við þessi orð var túlkun forsrh. varðandi mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar í sjónvarpsþætti fyrir áramót afar sérkennileg, þegar hann sagði, með leyfi forseta.

,,Ég greiddi atkvæði með þessum stjórnarskrárbreytingum. Fjármálaráðherra undirbjó þær sérstaklega. Hvorugum okkar datt í hug að þessar breytingar yrðu túlkaðar með þessum mjög svo sérstæða hætti að okkar mati.``

Herra forseti. Það er alveg ljóst að stjórnarherrarnir verða að skilja að það eru liðnir tímar að fólk sem ekki á fyrir nauðþurftum vegna sjúkdóma, fötlunar eða erfiðra aðstæðna eigi að þurfa að ganga með betlistaf í hendi fyrir stjórnvöld. Framfærslulöggjöfin frá 1947 var numin úr gildi fyrir meira en tíu árum og við tók félagsþjónusta sveitarfélaga en með henni var hafnað ölmusuhugtakinu og innleidd ný sýn sem var sjálfsagður réttur fólksins til samhjálpar vegna sjúkdóma, fötlunar, fjárhagsaðstoðar og félagslegrar þjónustu en því viðhorfi hafnað að t.d. fjárhagsaðstoð sveitarfélaga væri bara ætluð einhverjum afmörkuðum hópi eða fátæklingum, eins og sumir kölluðu það, sem hefðu orðið undir í lífsbaráttunni. Þeirri sýn hefur löngu verið hafnað og nú getur fólk leitað réttar sín á grundvelli mannréttinda og að fólki sé gert mögulegt að lifa lífinu með eðlilegri reisn.

Vendipunktur varðandi þau mál sem um er deilt, þ.e. heimild löggjafans til að skerða ekki lífeyri vegna tekna maka, eru tvímælalaust þessi nýju stjórnarskrárákvæði um mannréttindi frá 1995 þar sem verið var að binda í stjórnarskipunarlög með afar skýrum hætti jafnræði og mannréttindi og með því að viðurkenna þessa undirstöðuþætti sem varanlegan hornstein íslensks lýðræðisþjóðfélags, þannig að mannréttindi eigi að fylgja öllum frá vöggu til grafar og koma í veg fyrir að stjórnvöld geti ráðskast með fólk að eigin geðþótta og skammtað þeim mannréttindi eins og ríkisstjórnin hefur gert þrátt fyrir þessi nýju ákvæði í stjórnarskránni.

Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari orðaði þetta afar skýrt í sératkvæði sínu um mál öryrkjanna fyrir héraðsdómi, en þar sagði hún, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. stjórnarskipunarlög frá 1995, skal öllum sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra tilvika. Ákvæði þessi eiga rót í alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland hefur undirgengist.``

Um úrlausnarefnið, það að skerða lífeyri vegna tekna maka, sagði dómarinn eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Það að flytja lögbundinn rétt öryrkja samkvæmt 76. gr. stjórnarskrár yfir á maka öryrkja og gera öryrkja algjörlega háðan maka sínum fjárhagslega gengur gegn yfirlýsingum og réttindum fatlaðra og er brot á ákvæði stjórnarskrár um jafnrétti og stjórnarskrárverndaðan rétt til aðstoðar vegna örorku, enda telst það að geta gengið í hjúskap, að vissum skilyrðum fullnægðum, hluti almennra mannréttinda og eðlilegs lífs.``

Herra forseti. Það er einnig ástæða til, eins og hér hefur verið gert á þessum degi, að velta fyrir sér gagnkvæmri framfærsluskyldu hjóna. Ef menn vilja bera því við þá felst væntanlega í hjúskaparlögum bæði réttur og einnig skylda til að axla ábyrgðina, þ.e. framfærsluskylduna. Og það er ekki bara einhliða framfærsluskylda annars aðilans, ef menn vilja ganga út frá því hugtaki, heldur gagnkvæm framfærsluskylda og maður spyr hvort ekki eigi að gera öryrkjanum kleift að uppfylla þessa framfærsluskyldu ef hann gengur í hjónaband með því að skerða svo framlag hans og lágmarksframfærslumöguleika að hann geti ekki uppfyllt skilyrði hjúskaparlaga.

Herra forseti. Fyrir nokkrum dögum var afar athyglisverð grein frá ungri stúlku sem hafði skrifað lokaritgerð til embættisprófs í lögfræði vorið 1998 þar sem hún fjallaði einmitt um það mál sem hér er til umfjöllunar. Þar kom hún inn á það að framfærsluskyldan virkar ekki aðeins í aðra áttina heldur í báðar áttir, sem þýðir að hinn makinn, ófatlaði, á líka framfærslurétt á hendur hinum fatlaða og í hjúskaparlögunum kemur ekkert fram um það að heimilt sé að skerða lífeyristekjur né aðrar tekjur einstaklinga vegna tekna maka.

Síðan segir í þessari grein, með leyfi forseta:

,,Annað mál er svo hvernig yfirvöld skattleggi tekjur hjóna, sem ekki má rugla saman við skerðingu almannatryggingabóta.`` --- Þetta er auðvitað grundvallaratriði. Tekjur annarra einstaklinga eru ekki tengdar launum makans.

Og áfram segir, með leyfi forseta:

,,Með öðrum orðum getur vinnuveitandi ekki miðað laun einstaklings sem er í vinnu hjá honum við þau laun er maki hans hefur. Lífeyristekjur/bætur frá Tryggingastofnun ríkisins eru skattlagðar á sama hátt og aðrar tekjur, um sama frítekjumark er að ræða og ættu lífeyristekjur því að lúta sömu lögmálum og tekjur almennt. Eðlilegt og rökrétt er að öryrkinn (launþeginn) haldi tekjum sínum þótt hann gangi í hjónaband. Ekki er vitað til þess að neinn annar hópur í þjóðfélaginu missi fjárhagslegt sjálfstæði sitt við það eitt að ganga í hjónaband nema að vera kynni námsmenn, en það er efni í aðra grein.``

Mér finnst þetta afar athyglisvert hjá þessum lögfræðingi, Láru Helgu Sveinsdóttur, sem greinilega hefur kynnt sér þetta mál mjög gaumgæfilega, enda skrifaði hún lokaritgerð til embættisprófs í lögfræði um þetta efni.

Herra forseti. Hver eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þessum dómi? Um það hefur aðallega verið fjallað hér í dag. Þegar maður ræðir um viðbrögð ríkisstjórnarinnar þá er maður líka að velta fyrir sér viðbrögðum ríkisstjórnarinnar til mannréttindaákvæða og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Það sem hefur verið mjög athyglisvert á þessum degi, herra forseti, er ræða hæstv. forsrh. Ég varð næsta orðlaus að hlýða á hæstv. forsrh. sem hefur sagt í fjölmiðlum að hann þurfi mjög að ræða þetta mál hér á þinginu, hér þurfi að fara fram málefnaleg umræða um málið. En hvað gerði hæstv. forsrh. síðan þegar þing kom saman? Það stóð út úr hæstv. forsrh. buna af samfelldum fúkyrðaflaum í allar áttir, skætingur og fúkyrði, skrumskæling á því sem stjórnarandstaðan hefur haft til málanna að leggja. Það var ekki eitt einasta orð sem var málefnalegt í ræðu forsrh. í þessu efni. Það er auðvitað umhugsunar virði og veldur vissulega vonbrigðum að ekki sé hægt, herra forseti, að tala á málefnalegum nótum við sjálfan forsrh. Íslands um þetta alvarlega mál.

Herra forseti. Ég er með útskrift af þessari ræðu og ég fór yfir hana aftur. Og það sem stendur upp úr ræðunni er að ekki er farið einu orði inn á frv. sem hér er um deilt, ekki einu orði. Ekki er með einu orði rökstutt af hverju ríkisstjórnin telji rétt að hafa þessa viðmiðun og skerðingu sem hún er með í frv.

Í ræðu hæstv. forsrh. má lesa að menn séu í óprúttnum leik. Þeir séu bara að gjamma og ósiðlegar árásir séu í garð andstæðinga á Alþingi, og að þeir taki alltaf sterkast til orða sem flumbra mest. Svona er ræðan út í gegn. Hún er út í gegn, herra forseti, á þessum nótum, og það sé trikk af hálfu stjórnarandstöðunnar að vera með þennan málflutning sem hún er með, þetta sé svindl og svínarí. Þetta er sjálfur forsrh. íslensku þjóðarinnar sem talar svo um þetta alvarlega mál sem hér er til umræðu.

Forsrh. hefur ekki verið viðstaddur hér, a.m.k. síðla þessa dags eða á þessu kvöldi, til að hlýða á þann málflutning sem hér fer fram. Mér finnst það ekki boðlegt, herra forseti, af hálfu forsrh. að haga sér á þann hátt í þessu alvarlega máli, að gera enga tilraun til að rökstyðja niðurstöðu ríkisstjórnarinnar í málinu þó að hæstv. utanrrh., sem hér er staddur, hafi að vísu reynt að gera það eins og fram hefur komið í máli hans, þó að auðvitað sé langt í frá að hann hafi sannfært okkur í stjórnarandstöðunni um niðurstöðu ríkisstjórnarinnar í þessu efni.

Herra forseti. Ég held að það sé alveg rétt sem prófessor Sigurður Líndal segir, að ríkisstjórnin virðist vera langt frá því að vera í takt við tímann í þessu máli, og hann orðaði það einmitt þannig að ummæli forsrh. um dóminn væru ekki í tengslum við íslenskan veruleika en dómurinn endurspeglaði ný viðhorf í túlkun mannréttinda, eins og ég hef hér sagt, og væri það í samræmi við þau nýju viðhorf sem rutt hafi sér til rúms í túlkun mannréttinda hjá dómstólum á Vesturlöndum. Lagaprófessorinn telur að ekki sé einsýnt --- og það finnst mér nú mjög athyglisvert --- að Hæstiréttur hefði fellt sama dóm ef lög um almannatryggingar hefðu komið til kasta hans fyrir breytingar á stjórnarskránni 1995. Fram til ársins 1995 voru ákvæði stjórnarskrár um rétt til bóta úr almennum sjóðum á þann veg að sá sem væri á skylduframfæri annars manns ætti ekki rétt á bótum. Í einum fjölmiðli nýverið var einmitt greint frá því að samkvæmt þessum bókstaf stjórnarskrárinnar ættu öryrkjar í hjúskap í raun ekki rétt á bótum úr almennum sjóðum þar sem fólk í hjúskap er skyldað til þess samkvæmt lögum að framfleyta maka sínum.

En árið 1995 var ákvæðum stjórnarskrárinnar breytt og þetta skilyrði um að bætur væru háðar því að bótaþegi gæti ekki snúið sér til skylduframfæranda fellt burt, og það grundvallaratriði var viðurkennt að rétturinn væri bundinn við einstaklinginn.

Það er sem sagt aðalregla íslensks réttar, eins og segir í dómnum, að réttur einstaklinga til greiðslu úr opinberum sjóðum skuli vera án tillits til tekna maka og þar er vitnað til jafnræðisreglunnar, 65. gr., mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar, 76. gr., og stefnumörkunar sem liggur að baki jafnréttislögum.

Nokkuð hefur verið rætt um og bar þau á góma hér í dag orð hæstv. forsrh. um að niðurstaða Hæstaréttar og ákvörðun hans væri pólitísk, og er auðvitað mjög sérkennilegt að hæstv. forsrh. skuli viðhafa slíkt. Ég vil vitna í hvað Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögumaður segir um það efni. Hann segir í grein sem hann ritaði nýlega að í fræðilegum umræðum á okkar dögum um stjórnskipunarrétt sé ekki litið svo á að í túlkun dómstóla á stjórnarskrá felist pólitísk afskipti af löggjafarvaldinu. Litið er svo á, og það er reyndar óumdeilt meðal fræðimanna á sviði stjórnskipunarréttar og mannréttindalaga, að dómstólum sé skylt að haga túlkun sinni á stjórnarskrá þannig að gætt sé þeirrar verndar mannréttinda sem þar er að finna, skýrðra í ljósi alþjóðlegra skuldbindinga svo og að gæta þess að minnihlutahópum sé ekki mismunað.

Það eru fleiri sem taka undir það að ekki sé litið svo á að í túlkun dómstóla á stjórnarskrá felist pólitísk afskipti af löggjafarvaldinu og þetta er auðvitað grundvallaratriði.

[23:45]

Ég vil vitna einnig í Sigurð Líndal lagaprófessor en hann segir um þetta efni:

,,Æðstu dómstólar ríkjanna hafa brugðist við og löggjafinn um leið.`` Þá er hann að tala um áherslur á mannréttindi að þau hafi verið vaxandi og mannréttindadómstóllinn hafi ráðið miklu um þróunina og hann segir, með leyfi forseta:

,,Æðstu dómstólar ríkjanna hafa brugðist við og löggjafinn um leið. Þarna hefur því orðið víxlverkan sem hefur valdið mjög örri þróun. Ég held að hún hafi beinst í þá átt að gefa þessum almennt orðuðu yfirlýsingum, eins og er í stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum, efnislegt inntak. Eins og að allir eigi rétt á tiltekinni framfærslu eins og segir í greininni sem Hæstiréttur vísar til: ,,Öllum sem þess þurfa skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli ...`` Hæstiréttur telur að þessi regla feli í sér að mönnum séu tryggð einhver tiltekin lágmarkskjör, sem yrðu þá væntanlega miðuð við það sem tíðkast í hlutaðeigandi samfélagi.``

Það sem prófessorinn segir hér er einmitt athyglisvert: ,,... tiltekin lágmarkskjör, sem yrðu þá væntanlega miðuð við það sem tíðkast í hlutaðeigandi samfélagi.`` Það er auðvitað langt frá því að ríkisstjórnin hafi gert það með því mati sem hún leggur á þennan dóm og niðurstöðu hans.

Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin túlkar þennan dóm eins þröngt og nokkur kostur er. Það er auðvitað ekki í eina skiptið eins og rifjað hefur verið upp af síðasta ræðumanni. Allir muna þau hörðu viðbrögð sem ráðherrarnir, ekki síst hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh., höfðu við kvótadómnum þar sem niðurstaðan varð hæstv. forsrh. og ríkisstjórn hans ekki að skapi. Viðbrögð hæstv. ráðherra minna mjög á fyrri viðbrögð. Þetta er mjög alvarlegt og hættulegt viðhorf sem grefur undan lýðræðinu, ekki síst grefur það undan dómstólunum í landinu og trúverðugleika þeirra. Ég held að það sé einkum, herra forseti, afstaða stjórnarliðanna og ekki síst ráðherranna og þá er ég náttúrlega helst að tala um hæstv. forsrh. sem leyfir sér að kalla niðurstöðuna slys og pólitísk afskipti dómstólanna. Það eru ekki síst þessi orð sem grafa undan dómstólunum í landinu og trúverðugleika þeirra.

Herra forseti. Ég held að slík viðhorf ógni þeirri réttarvernd sem fólk hefur hjá dómstólunum og því aðhaldi sem í raun og sanni á að hafa þar gagnvart stjórnvöldum. Ég held að mannréttindakafla stjórnarskrárinnar sé einmitt ætlað að koma í veg fyrir misnotkun stjórnvalda á því valdi sem þau hafa og tryggja að mannréttindi, ekki síst minnihlutahópa, séu höfð í heiðri en ekki fótumtroðin.

Einnig má velta fyrir sér áhrifum slíkra viðhorfa gagnvart þrískiptingu valdsins og hvort vegna yfirgangs framkvæmdarvaldsins séu valdmörkin orðin svo óljós að við séum raunverulega á hraðri ferð inn í fortíðina til, eins og hefur verið orðað af lagaprófessor: ,,... til einveldistímans áður en við fengum stjórnarskrána og þá stjórnarskipan sem okkar lýðræði byggir á.``

Herra forseti. Það er sem sagt fráleitt, eins og ég hef rökstutt að Hæstiréttur sé að seilast inn á verksvið löggjafarvaldsins með dómsniðurstöðu sinni. Það hlýtur að vera grundvallaratriði að Hæstiréttur gæti þess í dómum sínum að stjórnarskrá landsins sé fylgt og að við göngum ekki gegn alþjóðasamþykktum, ekki síst mannréttindayfirlýsingum sem við erum aðilar að. Það er alveg ljóst í mínum huga að sú niðurstaða sem hér er fengin, allar þær viðvaranir sem stjórnarandstaðan setti fram 1998 þegar þetta mannréttindabrot var lögfest og ríkisstjórnin knúði það í gegn, þrátt fyrir allar viðvaranir. Margir þingmenn vöruðu við því að hér væri um brot á stjórnarskránni að ræða, brot á alþjóðasamþykktum. Einhvers staðar heyrði ég að það hefðu verið átta þingmenn sem þrjátíu sinnum hefðu varað við þessu á þeim stutta tíma sem málið var til umræðu í þinginu á tveim til þremur dögum. Þrátt fyrir það var þetta lögfest og ríkisstjórnin knúði það fram á mjög stuttum tíma. Það kallar auðvitað á það sem við í Samfylkingunni höfum lagt til að samþykkt verði frv. sem flutt var undir forustu hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur um að hér verði stofnað til lagaráðs til að fara einmitt yfir það hvort frv. standist stjórnarskrána.

Herra forseti. Ég held því að þessi dómur sé raunverulega frumraunin sem nýtt stjórnarskrárákvæði gengur í gegnum og því sé mikið í húfi hvernig þessu máli lyktar.

Hæstv. heilbrrh. sagði á Alþingi 1998, þegar hún var að tala um lögbindingu á greiðslu lífeyrisbóta við tekjur maka, að það mál snerist ekki fyrst og fremst um lögfræði heldur um réttlæti. Í ljósi þessara orða er afar sérkennilegt hvernig hæstv. heilbrrh. hefur litið á réttlætið og samþykkir raunverulega með hæstv. ríkisstjórn að sveigja og beygja dómsniðurstöðuna að vilja sínum og túlkar dóminn eins þröngt og kostur er öryrkjunum í óhag. Það sem er mjög athyglisvert er það framfærslumark sem hæstv. ríkisstjórn kýs að miða við. Það er t.d. afar athyglisvert að skoða dómsniðurstöðu hjá þeirri nefnd sem forsrh. skipaði til þeirra verka. Nefndin skrumskælir að mínu viti mjög dómsniðurstöðuna með því hreinlega að segja að tæpar 51 þús. kr., sem öryrki í hjónabandi fær, sé of mikið og því búa þeir raunverulega sjálfir til það framfærslumark sem þeim þykir hæfilegt fyrir öryrkjann og segja að um 43 þús. kr. á mánuði sé hæfilegt og er það afar sérkennilegt. Það hefur komið fram hjá formanni lögfræðinganefndarinnar, að þar sé um mat að ræða, raunverulega mat, ekki byggt á neinu öðru en mati þeirra lögfræðinga sem sátu í þessari nefnd. Þeir sitja þarna yfir því og meta það að 51 þús. kr. sé of hátt fyrir öryrkjann, það þurfi að lækka það eitthvað eins og niður í 43 þús. kr. Lækka sem sagt þær 51 þús. kr. sem öryrkinn hefur um 8 þús. kr.

Ég spyr af því að hæstv. utanrrh. er viðstaddur umræðuna: Við hvað er raunverulega miðað? Það er sama hvernig maður leitar að því í þjóðfélaginu, maður finnur ekki framfærslumark eins og hér er miðað við, af því að dómurinn er að tryggja öryrkjum lágmarksframfærslu, lágmarksrétt. Lágmarkslaunin í þjóðfélaginu eru nú orðin sem betur fer yfir 81 þús. kr. og er þó til skammar hvað þau eru lág. Ef við skoðum fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, t.d. hjá Reykjavíkurborg eru einstaklingar sem hafa engar aðrar tekjur þó með 60 þús. kr. í fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, hjón eru með 108 þús. kr., 54 þús. kr. á hvort hjóna, er það ekki, herra forseti? Þar munar um 11% eða 6 þús. kr. milli þess sem einstaklingur fær í framfærslustyrk frá Reykjavíkurborg og hvað hvort hjóna um sig fær. En það hefur margoft komið fram að ef öryrki gengur í hjónaband skerðast tekjur hans úr 73 þús. kr. niður í 51 þús. kr. og nú ætlar ríkisstjórnin að ganga enn lengra og fara niður í 43 þús. kr. 30% munur milli einstaklings og hjóna var sem sagt ekki nóg og nú á munurinn að vera 40%.

Atvinnuleysistryggingar, eins og hér hefur komið fram, eru ekki háðar tekjum maka og eru 67 þús. kr. Það næsta sem hægt er að komast er að hér sé miðað við fátæktarmörkin eins og þau voru skilgreind innan landa OECD í mjög nýlegri rannsókn sem þar var gerð á þessum málum.

Það er sem sagt þannig að ef öryrkjar ganga í hjónaband er búið að svipta þá heimilisuppbót og sérstakri heimilisuppbót vegna þess hagræðis þeir hafa af því að búa með öðrum og þar með uppfylla það ákvæði sem hefur marg\-ítrekað verið vitnað í hér í dag að er í dómsforsendum að það sé hugsanlega réttlætanlegt, eða hvernig það er nú orðað, að hafa þarna einhvern mun milli hjóna og einstaklinga. Það er greinilega ekkert tillit tekið til þess af hálfu stjórnarflokkanna, sem ákveða öryrkjanum þetta framfærslumark, að öryrkinn hafi veruleg útgjöld vegna fötlunar sinnar, honum eiga að duga 43 þús. kr. samkvæmt þeim framfærslumælikvarða sem hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstjórn hefur fundið út eða lögfræðinganefndin. Auðvitað er nauðsynlegt, annaðhvort hér eða í nefndinni, að farið sé yfir hvaða forsendur og mælikvarða þeir nota til að sýna fram á hvað sé nægjanlegt fyrir nauðþurftum öryrkjans sem hefur stjórnarskrárvarinn rétt, herra forseti, til lágmarksframfærslu sem er óheimilt að skerða vegna tekna maka, dómi sem segir að öryrkjar hafi mannréttindi sem einstaklingur en ekki sem hluti af öðrum einstakling þannig að öryrkinn hafi möguleika á að lifa með fullri reisn.

Það er alveg ljóst að ekki hefur verið tekið með í reikninginn að öryrkjar hafa mikinn kostnað af fötlun sinni og að makar öryrkja þurfa oft og iðulega að leggja á sig mikla yfirvinnu vegna lágra tekna öryrkjans.

Stærstur hluti öryrkja er undir skilgreindum fátæktarmörkum sem notuð hafa verið bæði hér á landi og annars staðar í Evrópu og var sú viðmiðun t.d. notuð í rannsókn OECD landanna um tekjuskiptingu. Það var árið 1999, ef ég man rétt. Það er auðvitað líka rétt að halda til haga að tekjur maka skipta ekki máli vegna slysatrygginga, sjúkratrygginga, atvinnuleysistrygginga og fæðingarstyrks enda segir í dómsniðurstöðu Hæstaréttar að það sé aðalregla íslensks réttar að réttur einstaklinga til greiðslna úr opinberum sjóði skuli vera án tillits til tekna maka.

Það er alveg hægt að halda því til haga hér líka að engum datt í hug að tengja t.d. fæðingarorlofsgreiðslu við tekjur maka, þar fá allir óháð tekjum maka. Hálaunaforstjórar geta t.d. fengið á einungis þremur mánuðum meira en öryrki getur að hámarki fengið í fulla og óskerta tekjutryggingu á heilum áratug. Það er m.a. á grundvelli jafnréttislaga sem engum datt í hug að tekjutengja þar sem alveg eins og ekki síður á við um öryrkjann enda eru það að stærstum hluta til konur sem lenda í þeirri skerðingu vegna tekna maka. Ég man t.d. ekki eftir að Morgunblaðið hafi verið að leggja á sig að birta hvað þeir hæstlaunuðu gætu fengið í fæðingarorlof, vitanlega ótekjutengt, en það var mikið gert í því fyrir helgi að slá upp töflu um tekjur maka öryrkjanna, allt til þess að gera þetta mál tortryggilegt.

Herra forseti. Ekki hefur síst vakið athygli í þeirri umræðu sem hefur farið fram hér í dag og á undanförnum dögum hvernig ríkisstjórnin hefur allt í einu uppgötvað að stór hluti öryrkja býr við mikla fátækt í þessu þjóðfélagi. Núna segja ráðherrar allt í einu að það þurfi að bæta kjör öryrkja. Ég spyr: Af hverju þarf endilega að bíða, herra forseti, og hæstv. utanrrh. ætti þá að svara því, af hverju þarf að bíða með það að bæta almennt kjör öryrkja fram í miðjan apríl? Af hverju er ekki hægt að gera það strax? Sú nefnd sem vísað er til er búin að starfa frá því í september og ég veit að öryrkjar hafa verið að bíða eftir því að hún skilaði niðurstöðu sinni. Nú þarf allt í einu að bíða fram í miðjan apríl. Þó að ríkisstjórnin sé að uppgötva að margir öryrkjar búi við fátækt erum við aftur og aftur búin að minnast á það á þingi hvað eftir annað síðustu fimm ár. Það fyrsta sem ríkisstjórnin gerði þegar hún komst til valda á árinu 1995 eftir að við höfðum samþykkt mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar var að slíta tengsl launa og lífeyris. Það er eiginlega meginástæðan fyrir því hvað kjör öryrkja hafa verið skert mikið miðað við kjör annarra í þjóðfélaginu.

[24:00]

Það væri hægt að rifja upp fyrir hæstv. ráðherrum að ekki er langt síðan að haldin var hér ráðstefna um kjör öryrkja, það var fyrir einu eða tveimur árum, og þar kom fram að 1.100--1.300 öryrkjar hafi árlega á undanförnum árum þurft að leita neyðaraðstoðar hjá Hjálparstofnun kirkjunnar, og jafnvel þó að þessar tölur kæmu fram gerði ríkisstjórnin lítið til þess að bæta kjör þeirra. Samnorræn skýrsla þar sem gerður var samanburður á raunverulegum greiðslum til örorkulífeyrisþega hér á landi og annars staðar á Norðurlöndunum sýnir að hvergi eru greiddar eins lágar bætur og á Íslandi en þær er að jafnaði um tvöfalt lægri hér á landi. Útgjöld á Íslandi vegna bótagreiðslna eru meira en helmingi lægri á hvern íbúa hér á landi samanborið við hin Norðurlöndin.

Heildarútgjöld Tryggingastofnunar vegna grunnlífeyris og tekjutryggingar sem eru meginbótaflokkarnir eru að meðaltali um 34 þús. kr. á hvern öryrkja.

Herra forseti. Á árunum 1995--1999 hækkuðu lágmarkslaun í landinu um 52% en örorkulífeyrir og tekjutrygging einungis um 17,4% af því að slitið var á tengsl launa og lífeyris af hálfu þessarar ríkisstjórnar skömmu eftir að mannréttindaákvæðin í stjórnarskránni voru samþykkt 1995. Við þetta hafa öryrkjar mátt búa. Og hversu oft sem við í stjórnarandstöðunni höfum vakið athygli á þessu, herra forseti, hefur það ekki fengið neinn hljómgrunn hjá ráðherrum sem nú allt í einu þegar þessi dómur kemur, sem er að taka á máli sem lengi hefur viðgengist, þ.e. mannréttindabroti gagnvart öryrkjum, vakna upp við það að til sé hópur fátækra öryrkja hér á landi.

Við höfum einnig haldið því til haga, herra forseti, að tekjuafgangur fjárlaga er m.a. fenginn með því að hlunnfara öryrkjana. Því hefur verið haldið fram af hálfu samtaka aldraðra t.d. að bæta þurfi lífeyrisgreiðslur um 3--4 milljarða á ári til að lífeyrisþegar héldu sama hlut og þeir höfðu miðað við dagvinnulaun verkamanna eins og þau voru 1991. Afleiðingarnar af því að slíta tengsl launa og lífeyris eru að frá 1995 hefur grunnlífeyrir og tekjutrygging einungis hækkað um 25% meðan launavísitalan hefur hækkað um 41,5%. Ég veit ekki hvort hæstv. ríkisstjórn hefur gert sér grein fyrir því.

Þessi ríkisstjórn hefur líka staðið fyrir gífurlegri hækkun á lyfja- og húsnæðiskostnaði, skerðingu á skattleysismörkum, hækkun skatta fyrir jól núna um 2,5 milljarða, sem bitnar líka á láglaunafólki og öryrkjum sem allt í einu eftir 1995 fóru að greiða skatta, öryrkjar með mjög lágar tekjur. Við þekkjum atlöguna að húsnæðismálum láglaunafólks, við þekkjum hvernig þeir afnámu hagstæð bifreiðakaupalán sem öryrkjum stóð til boða með 1% vöxtum og við þekkjum mikla hækkun á lyfjakostnaði, t.d. frá sl. sumri um 37%.

Og síðan, herra forseti, miðar ríkisstjórnin kjör öryrkja ávallt við það sem lægst gerist. Hún samþykkti árið 1998, eftir að hafa kippt úr sambandi tengingu lífeyris við laun en þá var lögum breytt 1. jan. 1998, að bætur almannatrygginga skyldu taka mið af launaþróun þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Hæstv. forsrh., sem mælti fyrir þessu í bandormi, sagði þá, með leyfi forseta:

,,Þannig er lagt til að ákvörðun bótanna taki mið af almennri þróun launa á fjárlagaárinu og leggi þá sömu forsendur og fjárlagafrv. því til grundvallar en jafnframt er lagt til að bótaþegum verði veitt trygging fyrir því að fjárhæð þeirra geti aldrei farið niður fyrir það mark sem vísitala neysluverðs segir til um ef laun skyldu þróast með öðrum hætti en verðlag.``

Herra forseti. Þegar forsrh. mælti fyrir þessu frv. þá sagði hann að ákvæðið þýddi það að taka ætti mið af þróun launa og þróun neysluvísitölu ef hún væri hærri. En það hefur aldrei gerst, herra forseti, á þessu tímabili að miðað hafi verið við launavísitölu sem allan þennan tíma hefur verið miklu hærri en neysluvísitalan. Við getum t.d. nefnt að meðaltalshækkun vísitölu neysluverðs árið 1998 var 1,7% en meðaltalshækkun launavísitölu á sama tíma var 9,4%. Á árunum 1998--2000, á tveimur árum, hafa lífeyrisgreiðslur hækkað um 11% á þessu tímabili en launavísitalan mun meira eða um 17%.

Herra forseti. Ef farið væri með þetta ákvæði fyrir dómstólana þá er ég ekki viss um að það stæðist að standa að málum eins og ríkisstjórnin hefur gert gagnvart þessu ákvæði, að miða við neysluvísitölu en ekki við launavísitölu. Og það hefur heldur betur skert kjör öryrkjanna. Ég spyr hæstv. utanrrh. um þetta ákvæði, hvort ekki hafi verið meiningin hjá ríkisstjórninni að miða þarna við þróun launa eins og lagaákvæðið segir til um en ekki að miða við neysluvísitölu sem hefur skert kjör öryrkja verulega. (ÖJ: Það fer eftir því hvernig liggur á þeim.)

Ekki hefur vantað tillögur, herra forseti, frá stjórnarandstöðunni varðandi kjör öryrkja almennt. En það hefur verið fellt, margfellt af stjórnarliðum, bæði frv. um að tekjur maka skerði ekki lífeyri, um að bætur almannatrygginga miðist við launavísitölu, um sérstaka afkomutryggingu sem var flutt hér fyrir jólin sem brtt. við fjárlagafrv. að láta 3--5 milljarða til að bæta kjör öryrkja. Svo leyfa þessir herrar sér, herra forseti, að segja að við séum ekkert að hugsa um kjör öryrkja almennt, við séum fyrst og fremst að hugsa um þennan sérstaka hóp öryrkja sem hefur verið með lífeyri sinn tengdan við tekjur maka. Já, vissulega erum við að hugsa um hann núna enda erum við núna fyrst og fremst að fjalla um dóm Hæstaréttar. En það sem þessi dómur hefur þó áorkað, a.m.k. á meðan þetta gengur yfir í þingsölum, er að hann hefur a.m.k. í orði kveðnu kjör öryrkja almennt uppi á borði þó að maður viti lítið um hverjar efndirnar verða. Alla vega er það svo að öryrkjar þurfa greinilega almennt að bíða í einhvern tíma til viðbótar til að fá niðurstöðu í það mál.

Herra forseti. Það hefur minna farið fyrir því að ræða um hvernig greiða á það sem hægt er að segja að sé ólögmæt taka fjármuna í sjö ár og þetta er ekkert annað, herra forseti, en ólögmæt taka fjármuna sem átt hefur sér stað frá 1994. Og það er með ólíkindum að ríkisstjórnin skuli aðeins ætla að greiða þetta fjögur ár aftur í tímann. Þetta hefur ekki haft lagastoð eins og við þekkjum frá 1994--1999 og þess vegna er það óskiljanlegt að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki ætla að greiða öll þessi sjö ár heldur skera af þrjú ár og greiða í tvö af þessum fjórum árum skertar bætur. Það standa öll rök til þess, herra forseti, að greidd séu full sjö ár og ég trúi ekki öðru en þegar heilbr.- og trn. fer að fjalla um þetta frv. komist hún að þeirri niðurstöðu að þetta er mjög ósanngjörn útfærsla hjá hæstv. ríkisstjórn, hvort sem litið er til þess hvernig hún ætlar að standa að því að greiða þessa ólögmætu töku á fjármunum sjö ár aftur í tímann, sem hún ætlar einungis að greiða í fjögur ár, eða hvernig hún beitir fyrir sig frv. hér einungis til þess að geta greitt öryrkjum skertar bætur þegar, eins og margsinnis hefur verið sýnt fram á hér á þessum klukkutímum sem þessi umræða hefur staðið yfir, að ekki þurfti lög til þess að greiða öryrkjum réttmætar bætur eins og dómsniðurstaða Hæstaréttar kveður ótvírætt á um.