Vaxtahækkun og staðan í húsnæðismálum láglaunafólks

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 10:32:29 (3866)

2001-01-18 10:32:29# 126. lþ. 61.94 fundur 260#B vaxtahækkun og staðan í húsnæðismálum láglaunafólks# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[10:32]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það virðast engin takmörk fyrir því hvað Framsfl. lætur Sjálfstfl. teyma sig langt í að slá af alla félagslega aðstoð í húsnæðismálum fyrir láglaunafólk. Félagsmálastjórinn í Reykjavík sagði opinberlega nýverið að ástandið á leigumarkaðnum færi stöðugt versnandi, biðlistarnir lengdust sífellt og fjöldi manns búi við algerlega óviðunandi aðstæður. Orðar hún það svo að hún gæti af fullri einlægni sagt að það hefði aldrei verið eins slæmt ástand á leigumarkaðnum í Reykjavík frá því að hún hóf störf sem félagsmálastjóri fyrir sex árum.

Herra forseti. Ég minni á að á þessu tímabili sem félagsmálastjórinn nefnir hefur ríkt góðæri í landinu. Afleiðingar þess að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið fyrir tveimur árum hafa orðið mjög víðtækar og ég hygg að engar aðgerðir ríkisstjórna, þó leitað sé marga áratugi aftur í tímann, hafi haft eins afgerandi áhrif til að draga niður lífskjör láglaunafólks. Beint samhengi var á milli þess að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið og sprengingar á fasteigna- og leiguverði íbúða. Íbúðaverð hefur hækkað um 30--40% og leiguverð enn meira auk þess sem biðlistar eftir leiguíbúðum hafa lengst um helming eins og í Reykjavík. Þetta hefur síðan stuðlað að mikilli hækkun á fasteignagjöldum sem aftur hefur leitt til skerðingar á barna- og vaxtabótum.

Það er deginum ljósara að enginn einn þáttur hefur sl. missiri, utan hækkunar á bensínverði, átt eins mikinn hlut að því að keyra upp vísitölu lána og þar með að hækka höfuðstól húsnæðislána, að ekki sé talað um að magna upp verðbólguna. Vegna aðgerða og aðgerðaleysis þessarar ríkisstjórnar erum við á hraðri ferð aftur inn í fortíðina til ömurlegrar húsnæðisaðstöðu fátæks fólks eins og hún var í upphafi síðustu aldar. ,,Fólk hefur gistingu,`` sagði hæstv. félmrh. síðast þegar hann var spurður um húsnæðismál láglaunafólks á Alþingi. En hvar hefur fólk gistingu, herra forseti, sem hundruðum saman býr við neyðarástand? Margir vita ekki frá einni nótt til annarrar hvar þeir fá húsaskjól eða gistingu eins og hæstv. félmrh. kallar það.

Bara í Reykjavík eru 600--700 manns á biðlista eftir leiguhúsnæði sem hefur nánast tvöfaldast frá því að hæstv. ráðherra lagði niður félagslega íbúðakerfið. Sama er að segja um biðlista hjá Öryrkjabandalaginu sem einnig hafa tvöfaldast frá þessum tíma. Þar eru nú 440 einstaklingar og fjölskyldur á biðlista eftir leiguíbúðum og við þann lista bætast um 100 manns á ári. Sömu sögu er að segja af námsmönnum en þar eru 300--400 manns á biðlista eftir leiguíbúðum.

Herra forseti. Hvernig svarar svo hæstv. ráðherra þessari skelfilegu neyð sem ríkir hjá hundruðum fjölskyldna, einkum í Reykjavík? Jú, með því að níðast á láglaunafólki með sérstakri vaxtahækkun á húsnæðislán þeirra sem hækkað hafa úr 1% í 4,9% á tveimur árum og á viðbótarlánum úr 2,4% í 5,7%, en þessi viðbótarlán bera nú mun hærri vaxtakjör en húsbréfalánin, en viðbótarlánin áttu að vera ígildi félagslegra lána til eignaríbúða fyrir fólk sem býr við erfiðar aðstæður.

Herra forseti. Flestir þeir sem fá viðbótarlán og eru þegar með 85--90% lánað af íbúðarverðinu hafa nýtt sér að fullu vaxtabæturnar og því er hér um raunhækkun á vöxtum að ræða sem ekki verður bætt með vaxtabótum. Sama virðist gilda hjá mörgum sem fá húsaleigubætur að að óbreyttu, ef leiga hækkar vegna þessarar vaxtahækkunar, þá verða þau útgjöld heimilanna ekki bætt með húsaleigubótum. Svo grafalvarlegt er þetta ástand, herra forseti. Það eru forkastanleg vinnubrögð og eftir öðru að fyrsta verk ríkisstjórnarinnar á nýrri öld er að ráðast með miskunnarlausum hætti á lægst launaða fólkið með vaxtahækkun og verk númer tvö að skerða stjórnarskrárvarinn rétt öryrkja til lífeyrisgreiðslna. Félagasamtök og sveitarfélög halda nú að sér höndum og eru í lausu lofti af því að engin svör fást við því hvernig mæta eigi þessum gríðarlegu vaxtahækkunum og ljóst er að uppbygging á félagslegum íbúðum eða leiguíbúðum mun stöðvast verði ekkert að gert, að ekki sé talað um skelfilega slæmar húsnæðisaðstæður hátt í 2.000 fjölskyldna sem eru á biðlista.

Því er nú spurt um aðgerðir ráðherrans, herra forseti, og ég hef lagt fyrir hann fimm spurningar sem lúta að þessum vaxtahækkunum, m.a. hver sé ástæða þess að vaxtahækkunin taki gildi áður en fyrir liggja samtímis aðgerðir til mótvægis eins og stofnstyrkir til framkvæmdaraðila leiguíbúða og hækkun húsaleigu og vaxtabóta og hvort ráðherrann líti svo á að neyðarástand ríki í húsnæðismálum láglaunafólks með tilliti til langra biðlista eftir leiguíbúðum og mikils húsnæðiskostnaðar. Tvær spurningar lúta síðan að því hvort þessar vaxtahækkanir verði afturvirkar.