Vaxtahækkun og staðan í húsnæðismálum láglaunafólks

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 10:49:10 (3871)

2001-01-18 10:49:10# 126. lþ. 61.94 fundur 260#B vaxtahækkun og staðan í húsnæðismálum láglaunafólks# (umræður utan dagskrár), GÖ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[10:49]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Vaxtahækkun sú sem er til umræðu kemur sér afar illa fyrir marga. Hún kemur sér sérlega illa fyrir þá sem þurfa sérstaka aðstoð vegna kaupa á íbúð að halda og hún kemur sérstaklega illa við láglaunahópa þar sem hún étur upp allar kjarabætur jafnharðan. Hún kemur sér mjög illa fyrir sveitarfélögin. Þess vegna er mjög ánægjulegt að hæstv. félmrh. ætli að setja þetta mál aðeins í salt varðandi þær leiguíbúðir því ef það yrði ekki gert þýddi það að stofnstyrkir sveitarfélaganna yrðu að hækka verulega ef tryggja ætti venjulega mánaðarleigu eins og hún er núna því annars gæti hún hækkað um allt að 16 þús. kr. á mánuði ef þetta yrði ekki dregið til baka. Þá spyr maður hvort það sé hreinlega boðlegt.

Það virkar auðvitað líka inn í húsaleigubótakerfið og við skulum ekki gleyma því að húsaleigubæturnar eru skattlagðar. Þær eru ekki lagðar að jöfnu við vaxtabætur. Þær virka inn á allar tekjutryggingar eins og barnabætur og námslán sem vaxtabætur gera ekki. Við skulum ekki heldur gleyma því að þessi vaxtahækkun hefur líka áhrif á vaxtabæturnar þannig að fólk fær ekki eins miklar vaxtabætur og annars hefði verið. Hér er því um mjög alvarlegt mál að ræða.

Ég vil líka spyrja hæstv. félmrh. að því hvort hann ætli að vinna að því í ríkisstjórn sinni að afnema skatta á húsaleigubætur. Það hefur jafnframt komið fram í nefnd og í skýrslum á hans vegum að þetta sé gróft brot á jafnræðisreglu. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. að því hvort hann ætli ekki að vinna eitthvað í því máli af því að það er orðin spurning hvaða fólk sé í fyrirrúmi nú á þessum tímum.