Vaxtahækkun og staðan í húsnæðismálum láglaunafólks

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 10:50:56 (3872)

2001-01-18 10:50:56# 126. lþ. 61.94 fundur 260#B vaxtahækkun og staðan í húsnæðismálum láglaunafólks# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[10:50]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það kemur fram í svari hæstv. félmrh. að stjórn Íbúðalánasjóðs hafi fengið bréf um að fresta skuli vaxtahækkuninni og þeir haldist í 3,9% þar til samkomulag um aðrar aðgerðir séu í höfn. Ef lánakjör Íbúðalánasjóðs henta ekki láglaunafólki er það merki um að aðgerða sé þörf strax og hverjar verða aðgerðirnar? Bara eitthvað svona þetta eða hitt. Það er fátt um svör hjá hæstv. félmrh. Ekkert afgerandi kemur fram í svari hans við þeim áleitnu spurningum sem til hans er beint.

Staðreyndin er sú að ástandið í Reykjavík hefur ekki verið jafnslæmt í sex ár segja þeir sem best þekkja til. Það er líka staðreynd að fjárlög yfirstandandi árs skera niður framlag til félagslega leiguhúsnæðisins. Þess utan býður ríkisstjórnin þeim sem eru á götunni upp á lán á markaðsvöxtum. Það er stefnan, það er það sem á að gera, og það er kúvending í stefnu hins opinbera því að til skamms tíma báru slík lán 1% vexti. Rökstuðningur þeirra sem aðhyllast félagslega húsnæðiskerfið og aðhyllast félagslegar lausnir hefur verið sá að allir eigi rétt á mannsæmandi húsnæði burt séð frá efnahag. Nægi efnahagur fjölskyldu ekki til að greiða fyrir leigu í mannsæmandi húsnæði þar sem hægt er að bjóða fjölskyldu upp á eitthvert öryggi, þá hefur komið til framlag frá samfélaginu af því að þeir sem hafa byggt þetta samfélag hafa viljað stunda samhjálp af því tagi. Hugmyndafræði samhjálpar hefur verið brotin á bak aftur í þessum efnum af ríkisstjórn Davíðs Oddssonar þar sem lögmál markaðarins eiga að ráða og fjölskyldum sem búa við bágan efnahag eru send þau skilaboð frá hæstv. félmrh. að hann viti ekki til að ástandið sé verra en svo að allir hafi einhvers staðar gistingu. Það er ekkert skrýtið þótt kjósendur Framsfl. flýi hann nú í hópum.

Hvatinn til að byggja húsnæði sem láglaunafólk ræður við er tekinn út úr kerfinu með markaðsvæðingunni og það ásamt öðrum teiknum sem eru á lofti gerir ekki annað en staðfesta fyrir öllum sem hafa augun opin að hér eru menn í óðaönn að undirbúa næstu húsnæðiskreppu.