Vaxtahækkun og staðan í húsnæðismálum láglaunafólks

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 10:57:49 (3875)

2001-01-18 10:57:49# 126. lþ. 61.94 fundur 260#B vaxtahækkun og staðan í húsnæðismálum láglaunafólks# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[10:57]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér hefur verið rakin bág staða félagslega leiguíbúðakerfisins. Biðlistar eru langir og alger óvissa um hvert framhaldið þar verður.

Félagslega eignaríbúðakerfið var einnig hluti af hinni opinberu húsnæðisstefnu. Íbúðir voru byggðar fyrir lágtekjufólk víða um land með þátttöku opinberra sjóða, samtökum vinnumarkaðarins og sveitarfélaga. Nú er einnig þessi þáttur húsnæðiskerfisins í fullkomnu uppnámi. Sveitarfélögin ein eru skilin eftir með kaupskyldu á þessum íbúðum og bitnar það mjög hart á fjárhag margra þeirra í þeirri miklu búseturöskun sem við nú upplifum hér á landi.

Herra forseti. Ég skora á hæstv. félmrh. að taka á vanda félagslega eignaríbúðakerfisins heildstætt á landsvísu en ekki með því að ríkið bjóðist til þess að yfirtaka bestu eignir sveitarfélaganna upp í skuldir vegna þess. Ég skora einnig, herra forseti, á samtök sveitarfélaga að krefjast heildstæðra aðgerða um land allt á þessum vanda sveitarfélaganna en ekki líða það að ríkið taki þar sveitarfélag fyrir sveitarfélag og kippi af þeim eignum upp í þessar skuldir. Það er afar mikilvægt, herra forseti, að bæði félagslega leiguíbúðakerfið og félagslega eignaríbúðakerfið sé eðlilegur og farsæll þáttur í húsnæðisstefnu landsins.