Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 11:41:17 (3879)

2001-01-18 11:41:17# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[11:41]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það verður að byrja á að mótmæla því harkalega að hæstv. fjmrh. komi hingað og haldi því beinlínis fram að dómur Hæstaréttar heimili að skerða tekjutryggingu með tekjum maka. Það er alveg fullkomlega röng staðhæfing og það er ekkert sem hægt er að finna í dómnum sem staðfestir þetta.

En, herra forseti, jafnömurlegt þótti mér að hlýða á hæstv. ráðherra lýsa því að breytingarnar á stjórnarskránni 1995 hefðu í rauninni ekki verið til eins eða neins. Það hefði bara verið allt í plati. Menn hefðu í reynd ekki verið að gera þar neitt annað en bara það eitt að færa 19. aldar orðalag til samræmis við okkar eigin öld.

En hvað var það sem menn gerðu þarna? Eitt af því sem menn gerðu með þessum breytingum var að afnema skilyrði um að menn mættu ekki eiga sér skylduframfærendur til að eiga rétt til bóta úr opinberum sjóðum. Og ef það, herra forseti, er 19. aldar fyrirkomulag að slíkur réttur sé háður því að viðkomandi eigi ekki skylduframfærendur, af hverju getur þá ráðherrann stutt slíkt fyrirkomulag í almannatryggingalögum?