Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 11:47:20 (3884)

2001-01-18 11:47:20# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[11:47]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað fjarri mér að gera lítið úr stjórnarskrárbreytingunum 1995. Ég var sjálfur 1. flm. þess máls og ég handskrifaði sum ákvæðin. Við unnum mikið í þessu í góðri sátt, m.a. þáv. þingflokksformaður Alþb., Ragnar Arnalds, og margir fleiri sem unnu að þessu máli af fullum heilindum. Við vissum alveg nákvæmlega hvað við vorum að gera. Það þarf enginn að efast um það.

En varðandi það sem gerðist árið 1993 þá rakti ég ósköp einfaldlega að það var ekki ásetningur eða vilji þáverandi ráðherra, þáverandi ríkisstjórnar, þingmeirihlutans né þingsins að gera þarna breytingar á þeirri framkvæmd sem tíðkast hafði. Þetta segir í dóminum og það finnst mér líka mjög athyglisvert. Maður er alinn upp við að lesa um að dómstólar reyni að komast að því hver sé vilji löggjafans. Þeir segja í dóminum alveg skýrt: Það er ljóst að það var ekki vilji löggjafans að gera þessa breytingu 1993. Eigi að síður verður að gera þá kröfu að reglugerðir hafi skýra lagastoð. Það vantaði og þess vegna var þetta handvömm.