Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 11:48:36 (3885)

2001-01-18 11:48:36# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[11:48]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þó að hæstv. ráðherra sé þeirrar skoðunar og reki þessa sagnfræði þá má hann ekki láta sem sátt hafi verið um skerðinguna úti í þjóðfélaginu. Svo var ekki og reyndar ekki heldur hér inni á þingi. Ég hef t.d. fyrir mitt leyti um langt árabil iðulega komið inn á að ég telji þessa tengingu, þessa miklu skerðingu á örorkubótum vegna tekna maka, ekki ganga og ég get látið fletta upp í mörgum ræðum því til stuðnings ef með þarf.

Ég vil svo að lokum gera athugasemd við að eins og margir fleiri stjórnarliðar hér í umræðunni reynir hæstv. ráðherra ítrekað að segja að Hæstiréttur eða meiri hluti Hæstaréttar telji í lagi að skerða tekjutrygginguna. Það stendur hvergi í reifun né í dómsorði, hvergi. Og það er rangt að láta að því liggja að hægt sé að sækja sér stuðning í þá túlkun í nokkru sem hér er á blaði. Það er ekki rétt. Hæstv. ráðherra reyndi að lagfæra orðalag sitt hér áðan eftir að hann reyndi að halda hinu fram.