Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 11:57:33 (3893)

2001-01-18 11:57:33# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[11:57]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvað þingmaðurinn er að segja. Hann segir: Jú, ég flutti þetta frv. sem heilbrrh. og í því féllu niður reglugerðarheimildir. Það er rétt. Ég hafði rétt fyrir mér í því, segir hann. Ég veit ekki til þess að framkvæmdinni hafi neitt verð breytt þó að ekki hafi verið búið að gefa út reglugerð fyrr en um mitt ár 1995. Hún hélt áfram óbreytt hjá þessum hæstv. ráðherra og eftirmanni hans áður en núverandi ráðherra kom í ráðuneytið og gaf út reglugerð sem þá lá fyrir tilbúin til undirritunar.

Ég er ekki að ásaka hv. þm. fyrir að hafa ekki staðið sig í stykkinu varðandi þetta atriði. Hann ber hins vegar ábyrgð á þeirri handvömm sem varð við afgreiðslu þessa máls. Ég ber ábyrgð á því líka, ég greiddi þessu máli atkvæði og tók ekki eftir handvömminni frekar en aðrir hér. Við sitjum uppi með það sameiginlega að gefin var út reglugerð sem ekki hafði lagastoð og framkvæmdin á þessu árabili var ólögleg. Um það verður ekki deilt. Þannig var þetta og hvorki ætlun hv. þm., mín né þingsins þegar þessi ákvörðun var tekin og það er staðfest í hæstaréttardóminum. Þetta þarf að liggja hérna fyrir.