Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 12:38:13 (3897)

2001-01-18 12:38:13# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[12:38]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þrátt fyrir að stjórnarandstaðan tali alltaf um skoðanir okkar, um sannfæringu okkar, þá treysti ég því ekki að allir vinstri menn hafi sömu skoðun og þess vegna spyr ég hv. þm. sömu spurningar og ég hef spurt alla aðra: Vill hv. þm. greiða tekjutryggingu --- en mér skilst að hún vilji greiða tekjutryggingu sjö ár aftur í tímann --- án tillits til tekna maka?

Reyndar hefur ekki enn komið fram hvaða vexti stjórnarandstæðingar og kannski hv. þm. sérstaklega vilji reikna á þessar greiðslur. Ef reiknað er með núverandi tekjutryggingu, 32.566, í sjö ár er upphæðin 2 millj. 688 þús. Með vöxtum nær hún örugglega 3 millj.

Það finnst örugglega dæmi um öryrkja sem er giftur maka með háar tekjur, t.d. lækni, verkfræðingi eða forstjóra, segjum með 400 þús. kr. á mánuði, og hefur því aldrei fengið tekjutryggingu, alltaf verið skertur 100%. Nú fengi þessi fjölskylda, þessi hátekjufjölskylda 3 millj. í eingreiðslu. Finnst hv. þm. þetta stuðla að jöfnuði í þjóðfélaginu? Og telur hv. þm. að verkamanni í ASÍ eða opinberum starfsmanni í BSRB, sem ekki hafa séð svona upphæðir, finnist það auka jöfnuð í þjóðfélaginu?

Varðandi ummæli hv. þm. um atvinnuleysistryggingar og fæðingarorlof þá vil ég benda á að hvort tveggja er fjármagnað með iðgjöldum, tryggingargjaldinu, og mynda sjóð, Atvinnuleysistryggingasjóð og Fæðingarorlofssjóð. Og nákvæmlega eins er með lífeyrissjóðina þar sem menn borga ákveðið iðgjald og eignast ákveðin réttindi í staðinn. Þar er ekki tekið tillit til tekna maka. En í bótum sem greiddar eru af ríkissjóði er tekið tillit til tekna maka.