Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 12:42:36 (3899)

2001-01-18 12:42:36# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[12:42]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þetta var afskaplega merkileg yfirlýsing. Hv. þm. sagði: Það snýst ekki um það hvað mér finnst. Það snýst ekki um hvaða skoðanir ég hef eða lífsstefnu eða því um líkt. Það snýst um dóm Hæstaréttar, um einstaklingshyggjuna. Henni skal fylgt.

Hv. þm. var að segja að Hæstiréttur mótaði pólitík á Íslandi. Hv. þm. var að segja að dómur Hæstaréttar mótaði skoðanir hennar og stefnu á Alþingi. Það er ekki spurningin um hvað hv. þm. finnst eða hvaða stefnu hún hefur og hvort hún sé jafnaðarmaður eða ekki. Hv. þm. ætlar að láta Hæstarétt ákveða að greiddar verði 3 millj. til hátekjufjölskyldna í blóra við þá jafnaðarstefnu sem hv. þm. hefur fylgt hingað til. (Gripið fram í.) Hún hefur gert það.

Hv. þm. sagði í reynd: Jafnaðarstefnan er fyrir bí. Og ég spyr hv. þm. aftur: Er það jafnaðarmennska að borga 3 millj. til hátekjufjölskyldu? Þarf ég að fara að endurskoða orðabókina mína um þýðingu á orðinu ,,jafnaðarmennska`` eða þarf að stofna nýjan jafnaðarmannaflokk sem ekki fylgir þessari jafnaðarstefnu? Ég mun reyndar ekki standa fyrir því.