Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 12:44:16 (3900)

2001-01-18 12:44:16# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[12:44]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta er auðvitað eins fullkominn útúrsnúningur og hugsast getur. Þingmaðurinn var að spyrja hvort mér fyndist að réttlátt væri borga 2 eða 3 millj. Hv. þm. var ekkert að spyrja mig almennt út í stefnu mína eða flokks míns Hún er alveg klár. Jafnaðarmenn vilja jafna kjör. Jafnaðarmenn vilja nota til þess ýmis tæki, þar á meðal skattalög og ýmis lög um félagslega aðstoð.

En jafnaðarmenn telja það líka að ef löggjafi, hver svo sem þar stjórnar, hefur hegðað sér þannig að einstaklingar eða hópar þurfa að fara fyrir dómstóla og þeim er dæmdur réttur, þá eigi sá sem valdið hefur þann eina möguleika að greiða það. Og það er alveg óþarfi að snúa út úr fyrir mér um jöfnuð eða stefnu í velferðarmálum. Ég hef þvert á móti bent á það að í þessari umræðu og af hálfu stjórnarmeirihlutans og þeirra sérstaklega sem hafa komið fram í fjölmiðum fyrir Sjálfstfl. þá hefur algjörlega skort að tala um það sem lýtur að velferðarmálum, mannréttindahugsuninni eða jafnréttissjónarmiðinu. Það þýðir ekkert að koma hér og tala um dóminn og heimfæra hvort hann verði greiddur eða ekki greiddur upp á jafnaðarstefnu eða hvernig maður ætlar að jafna kjör.

Það er svo sannarlega vilji jafnaðarmanna að nota skattalög og öll önnur lög til þess, en jafnframt að tryggja einstaklingnum mannlega reisn og lágmarksframfærslurétt.