Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 12:47:41 (3902)

2001-01-18 12:47:41# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[12:47]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að leiðrétta þingmanninn af því að ég tók það sérstaklega fram að ég ætlaði ekki að vera málefnaleg í ákveðnum hluta ræðu minnar, ég ætlaði þvert á móti að fara niður á ákveðið svið sem hv. formaður flokks hans hefði haldið sig á að undanförnu í þessari umræðu og vera verulega ómálefnaleg.

Svo er það sérmál hvort þingmenn skilja hver annan þegar þeir ræða saman og hvort einum finnst annar óskiljanlegur. Það getur átt við þótt sá sem stendur í ræðustólnum sé að hamast við að vera málefnalegur. Það verðum við bara að láta yfir okkur ganga.

En ég hef valið það, hæstv. forseti, að nota tvennt, að nota orð metins lögfræðings, Eiríks Tómassonar, sem hélt því fram að það væri fullkomlega unnt að greiða út 1. janúar. Það á auðvitað að lesast: Ef menn ætluðu ekki að fara að breyta fjárhæðunum, ef þeir ætluðu að meðtaka dóminn og greiða þessi 51 þúsund sem málið fjallaði um, að greiða það út, þá gætu þeir það og það var það sem ég notaði í andsvari mínu í gær um að vilji hefði verið allt sem þurfti ef menn ætluðu að greiða 51 þúsundin. Hins vegar hef ég notað orðalag hæstv. heilbrrh. um að Hæstiréttur hafi ómerkt gjörning löggjafans um skerðingu á tekjutryggingunni. (TIO: Er greinin fallin úr gildi eða ekki?) Ja, ég vil að það sé skoðað í heilbr.- og trn. (TIO: Nú?) Já, ég lít svo á (Gripið fram í.) að Hæstiréttur hafi ómerkt þennan gjörning. Ég er nákvæmlega sömu skoðunar og heilbrrh. Og hvort það eigi við heila grein, að hún falli út eða ekki, þá ætlast ég til að það sé skoðað.

En það er mat mitt, eins og Eiríks Tómassonar og eins og hæstv. heilbrrh., að unnt hefði verið að greiða út samkvæmt dómnum.