Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 13:31:02 (3905)

2001-01-18 13:31:02# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, GE
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[13:31]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Í upphafi míns máls vil ég byrja á því að óska hæstv. heilbrrh. góðs bata. Megi hún koma til starfa hið fyrsta.

Það er kannski ástæða til að vekja athygli á því, virðulegur forseti, að ég mun í máli mínu fljótlega beina spurningum til hæstv. utanrrh. og ég reikna með að hann verði viðstaddur eða heyri ræðu mína og spurningar. Síðan beini ég væntanlega spurningum til þeirra aðila sem hér hafa verið að spyrja stjórnarandstöðuna ákveðinna spurninga og við sjáum til hvað gerist í því.

Upphaf mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna frá 1948 hljóðar svo að það beri að viðurkenna að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda er eigi verði af honum tekin. Þetta er undirstaða frelsis, jafnréttis og friðar í heiminum. Sá dómur sem Hæstiréttur felldi 19. des. sl. var um þessi atriði, virðingu, frelsi og jafnrétti í máli Öryrkjabandalagsins gegn ríkisstjórn Íslands, vil ég segja.

En það má rifja það upp að fleiri athyglisverðir dómar féllu þennan dag. Það féll ákaflega athyglisverður dómur í svonefndu sýslumannsmáli í héraðsdómi Reykjavíkur. Einnig féll ákaflega athyglisverður dómur í máli Kjartans Gunnarssonar gegn Sigurði Guðjónssyni þennan sama dag. Þetta var ákaflega merkilegur dagur fyrir marga. Ég ætla ekki að ræða um þá dóma frekar en þetta verður eftirminnilegur dagur eftir sem áður fyrir þessa dóma sem féllu þennan dag. Kannski má segja að þetta hafi verið svartur dagur í sögu ákveðins stjórnmálaflokks.

Sú deila sem nú er til umræðu á virðulegu Alþingi, herra forseti, það sem er verið að deila hér um snýst um það hvort greiddur verður óskertur grunnlífeyrir og tekjutrygging, samtals 50.990 kr., eða hvort farin verður þessi yfirréttarleið ráðgjafa ríkisstjórnarinnar og aðeins greiddar 42.424 kr. sem tekjur til öryrkja í sambúð. Það vantar 7.566 kr. upp á að ná þeirri tölu sem grunnlífeyrir og tekjutrygging hljóða upp á, 7.566 kr. sem ríkisstjórnin hefur valið að láta greina á milli þeirra öryrkja sem þeir telja vera ríka og hinna sem þeir telja vera fátæka. Ég lít á þetta, virðulegur forseti, sem geðþóttaákvörðun. Það vill verða þannig að geðþótta\-ákvörðun er ærið oft pólitísk ákvörðun. Um þetta snýst þetta mál allt saman. Það snýst um það að ríkisstjórnin vill fá að taka í friði geðþóttaákvörðun um að greiða 42.424 kr. til öryrkja í sambúð en ekki 50.990 kr. eins og lög kveða á um.

Ég tel að það hefði verið ólíkt heilladrýgra fyrir okkur öll og ólíkt manneskjulegra að afgreiða málið þannig að skerða ekki grunngreiðslur og leysa þessa deilu á sambærilegan máta og gert er hjá nágranna- og viðmiðunarþjóðum okkar. Ég viðurkenni að þar eru skerðingar í gangi en þær skerðingar eru viðhafðar gagnvart svokölluðum heimildargreiðslum en aldrei, herra forseti, aldrei gagnvart grunngreiðslum. Þetta tel ég að mönnum hafi láðst að skoða nægjanlega vel því að það eru heimildargreiðslurnar sem eru skertar en ekki grunngreiðslurnar. Ég hef ekki sett mig á móti því og mun ekki setja mig á móti því að skerða heimildargreiðslur eftir því sem við á. En grunngreiðslurnar tel ég að eigi að haldast.

Það má svo sem auðvitað segja að miðað við nágrannaþjóðir okkar eru grunngreiðslur hér á landi allt of lágar. Það framfærir sig enginn af grunngreiðslum. Þess vegna eru heimildargreiðslur og þær eru ætlaðar einstkalingum. En það er viðurkennt að heimildargreiðslurnar falla ekki til einstaklinga í sambúð, öryrkja í sambúð. Auðvitað má velta því fyrir sér hvað einstaklingurinn þarf til ráðstöfunar. Ég tel að það eigi að fara að því sem ég hef hér áður sagt, það eigi að greiða 50.990 kr. þó það sé í rauninni mjög lág upphæð.

Við búum við það hér á Íslandi, því miður, að menn viðurkenna að lægstu laun fyrir fulla dagvinnu eru svo lág að þau nægja ekki til framfærslu. Þau eru þó 75 þús. kr. á mánuði. Það er viðurkennt að einstaklingurinn kemst ekki af með þau laun. Þá hljóta þeir hinir sömu að viðurkenna að tekjutrygging og lífeyrisgreiðsla til öryrkja er skammarlega lág þó óskert sé. Ég vil minna á að í fjölmiðlum undanfarið hefur Alþingi verið hvatt af hinum ýmsu launþegasamtökum til þess að greiða skilyrðislaust til öryrkja þær bætur sem Hæstiréttur hefur ákvarðað að skuli greiða til þeirra, að mínu mati sjö ár aftur í tímann, að lágmarki fjögur ár aftur í tímann, eins og það frv. sem við erum að fjalla um og ég tel varla vera þingtækt gerir ráð fyrir. (PHB: Með vöxtum?) Það á að greiða með vöxtum, já. (PHB: Dráttarvöxtum?) Það á að greiða með þeim vöxtum sem eru almennir í samfélaginu, þ.e. vextir, hv. þm. Pétur Blöndal, sem miðað er við þegar skattar eru ofteknir t.d. Ég sætti mig við að farin sé sú leið. En ég hvet til þess að menn skoði vandlega að það verði greitt sjö ár aftur í tímann eins og heimild er fyrir.

Ég hef velt því fyrir mér hvers vegna hæstv. ríkisstjórn hagar sér eins og sagt var um malbikshross sem kom á heiði, þ.e. fer ofan í fen og kemst ekki upp úr nema því sé velt upp úr. Þetta þekkja þeir sem hafa ferðast um heiðar og þeir sem hafa umgengist hross. Ræða hæstv. forsrh. í gær minnti mig á mann sem aldrei hefur komið á það mýrlendi sem þarf að fara varlega um eða það land sem þarf að fara varlega um og þess vegna datt mér þessi samlíking í hug, að ríkisstjórnin væri að ferðast á malbikshrossi sem ekki áttaði sig á þeim pyttum sem á veginum væru.

Þetta er pólitísk vilpa sem forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa lent í og hún er upp á 7.566 kr. á hvern einstakling og gæti í hæsta lagi numið 280 millj. kr. ef að fullu væri bætt aftur í tímann og til þessa dags eða til þessa árs.

Ég hlustaði á hæstv. utanrrh. þar sem hann fjallaði um hvort greiðslurnar væru nægjanlegar, hvort þær væru of lágar eða hvort þær væru nægjanlega háar. Ég vil segja það við hæstv. utanrrh. að það eru til nægir fjármunir í landinu og í þjóðfélaginu til þess að hver einstaklingur hafi nægjanlegt til grunnframfærslu. Þetta mál varðar, eins og hæstv. utanrrh. sagði, allt velferðarkerfið. Og ég tek undir það og það eru til fjármunir til þess að gera þetta. Það er ekki í lagi að við skulum greiða bætur, að við skulum greiða framfærslueyri sem ekki nægir til framfærslu. Að hluta til snýst þetta mál verulega um þessa hugmyndafræði.

Herra forseti. Ég má til með að rifja það upp að í umræðum um fjárlög undanfarin ár hef ég á hverju einasta ári vakið athygli á stöðu þeirra einstaklinga sem búa við skertan framfærslulífeyri. Það var undarlegt að verða var við það þegar ég var búinn að vinna best gögnin og lagði þau fyrir fréttamenn og bað ágæta fréttamenn að gera nú grein fyrir því nákvæmlega hvernig þetta væri. Þá sögðu þeir: ,,Það hefur, Gísli minn, enginn maður áhuga á þessum málum þó að þú sért að reyna að tala um þetta.`` Hvað þurfti til? Það þurfti málsókn. Það þurfti lögsókn á hendur ríkinu. Það þurfti dóm frá Hæstarétti til þess að fjölmiðlar og þjóðin tækju eftir. Og það gerist á þennan veg að þegar dómurinn er fallinn þá bregst hæstv. ríkisstjórn við á þennan máta sem allir þekkja, að vilja skerða aftur og eiga málsókn á hættu. Það er alveg ljóst að það mun verða málsókn og málið mun fara fyrir Hæstarétt og það eru allar líkur á því að ríkisstjórnin verði að sæta því að fá annan dóm á sig. Ég tel það óskynsamlegt, ekki fyrir ríkisstjórnina, heldur fyrir Alþingi allt ef málið fer á þann veg sem frv. sem við erum að fjalla hér um hljóðar upp á. Ég vona að farið verði að þeim orðum hæstv. heilbrrh. að heilbrn. skoði málið þannig og átti sig á því að það eina sem réttlætanlegt er að gera er að greiða þessar 50.990 kr.

En ef það er svo mikið prinsippmál, pólitískt prinsippmál, að hafa vald til skerðingar þá skulu þeir ákvarða 50.989 kr. Þá hafa þeir komið valdinu fram, þ.e. með því að skerða um eina krónu. Það mun ekki skaða. Þá hafa þeir pólitíska viljann sinn og geta skert um eina krónu.

Í umræðum á Alþingi á undanförnum árum hef ég fjallað um mál öryrkja og ég vil, með leyfi forseta, vitna í þá ræðu þegar ég las upp bréf tveggja einstaklinga sem hafa gengið í gegnum þá skerðingu sem við erum að fjalla hér um. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

[13:45]

,,Ég er gift kona sem varð fyrir því árið 1990 að lenda í miklum veikindum og sjúkrahúsvist. Árin 1990 til 1996 var ég mjög veikburða en vann þó sem fulltrúi hjá Pósti og síma. Að sjálfsögðu höfðu veikindin áhrif á vinnustað svo sem í minnkandi frumkvæði og afköstum. 1996 gat ég ekki meir en var lögð á skurðarborðið og vissi fyrst af mér sex vikum seinna og er óvinnufær með öllu í dag. Ástæðan fyrir þessu bréfi er sú,`` segir þessi kona, ,,að mér sárnar mest hve einstaklingurinn er lítils metinn í velferðarríkinu sem Ísland á að vera. Þar á ég við að ég sem einstaklingur er algjörlega háð eiginmanni mínum um framfærslu, hef ekkert sem ég get kallað mitt eigið og einnig þau ólög sem ríkja um það að tekjutengja bætur sem ég hef rétt á að fá vegna þess að ég sem einstaklingur hef lagt mitt af mörkum í þjóðarbúskapinn án nokkurrar aðstoðar frá eiginmanninum eða öðrum. Sú tilhugsun er óbærileg að þurfa að grípa til þess örþrifaráðs að skilja við hann til þess að öðlast sjálfstæði, þ.e. að verða einstaklingur aftur, vegna þess að við höfum það ekki af án míns framlags í sameiginlegan rekstur heimilisins. Í mínu tilfelli höfum við verið saman í 37 ár, eigum fjórar yndislegar dætur, sameiginlegt fallegt heimili sem þarfnast þess að við leggjum bæði okkar af mörkum.``

Herra forseti. Þetta er í rauninni það sem málið snýst um. Tveir heilbrigðir einstaklingar sem reka heimili sitt lenda í því að annar verður veikur og hvað gerist þá? Þá minnka heimilistekjurnar um allt að 80% og getur verið miklu meira ef einstaklingurinn er í hálaunuðu starfi. Þetta er skelfileg staðreynd og um þetta er ekki nægjanlega hugsað þegar menn eru að ákvarða það að þar sem eru tveir einstaklingar t.d. með 400 þús. kr. heimilistekjur til að reka heimilið, annar verður veikur og verður öryrki --- það gerist enginn öryrki, hann verður öryrki --- hvað er honum ætlað? 43 þús. kr. telur hæstv. ríkisstjórn og meiri hlutinn á Alþingi, meiri hluti Sjálfstfl. og Framsfl., að sé eðlilegt að ætla þeim einstaklingi sem dettur úr 200 þús. kr. tekjum niður í 43 þús. kr. til framfærslu á móti eiginmanninum eða eiginkonunni. Þetta er skelfilegt og er óverjandi og er til hreinnar skammar.

Virðulegi forseti. Ég mun aldrei þreytast á því að klifa á þessum málum sama hvernig viðbrögðin verða bæði hér hjá einstaklingum og öðrum á Alþingi.

Ég vil fá að vitna, með leyfi forseta, í annað bréf sem ég las við umræðu um fjárlög fyrir 1999 og það var svona:

,,Ég undirrituð er 75--100% öryrki og er gift manni sem hefur góð laun. Örorkubætur mínar eru 15.123 kr. á mánuði og rúmar 4 þús. kr. í bensínstyrk.

Það er ótrúlegt að þetta skuli vera til en er því miður satt. Ef ég væri heilbrigð væri ég vinnandi utan heimilisins eins og ég var þegar ég lenti í bílslysi sem varð til þess að ég varð öryrki. Þá hefði ég kaup eins og aðrir en mér væri ekki greitt eftir tekjum maka. Það er verið að sekta okkur öryrkja fyrir að gifta okkur þar sem tekjutrygging til öryrkja byrjar að skerðast strax þegar laun maka fara yfir 40 þús. kr. á mánuði.`` --- Ég vek athygli á því að þetta bréf var lesið upp fyrir einu og hálfu ári. --- ,,Slík laun eru varla til þar sem að atvinnuleysisbætur eru 60 þús. kr. á mánuði. Þar er ekki spurt hvort maður sé giftur né hver laun makans eru.``

Þetta tel ég að sé ástæða fyrir okkur á Alþingi að skoða og meta hvers vegna sú upphæð sem ég gat hér um í upphafi, 42.424 kr., er ákvörðuð. Ég spyr endalaust hv. alþm. sem hafa talað í þessu máli: Hvers vegna varð þessi upphæð fyrir valinu? Hvers vegna varð þessi upphæð fyrir valinu? Ekki er hægt að finna nein rök fyrir þessu önnur en pólitíska geðþóttaákvörðun, virðulegur forseti. Ekki er hægt að finna annað. Ekki er farið að hæstaréttardómnum.

Ástæða er til þess, herra forseti, að vitna í ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands frá 21. október á sl. ári. Þar er sagt, með leyfi forseta, að það verði að:

,,Hækka tryggingabætur verulega til að íslensk þjóð geti skammlaust borið sig saman við þær lýðræðisþjóðir sem sambærilegar eru henni að þjóðartekjum.``

Í þessari ályktun er bara farið fram á sambærilegar tryggingabætur og aðrar þjóðir.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir þetta mál. Ég hef farið yfir hvernig þetta er á Norðurlöndum, hvernig þetta er í sambærilegum þjóðlöndum að þar er grunnlífeyrir ekki skertur. Aðeins heimildarbætur eru skertar og ég skora á menn að fara rækilega í það mál. Ég hef hringt til Danmerkur til að ræða við viðkomandi aðila þar um þetta mál og ég fékk staðfestingu á að ég hefði rétt fyrir mér varðandi grunnlífeyrinn en heimildarbætur eru skertar og við höfum ekki hér, stjórnarandstaðan, lagst gegn því að það gæti átt sér stað.

Annað atriði í þessari ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Draga verulega úr þeim harðneskjulegu tekjutengingum sem öryrkjum er gert að búa við --- tekjutengingum sem eiga ríkan þátt í að brjóta niður einstaklinga og fjölskyldur. Hverfa algjörlega frá tengingu við tekjur maka.``

Það á að hverfa algjörlega frá tengingu við tekjur maka, segir í þessari ályktun. Það er ekki það sem við höfum verið að flytja eins og ég er margbúinn að segja í þessari umræðu.

Það má velta fyrir sér dómi Hæstaréttar og það hefur margsinnis verið gert. Það sem menn hnjóta um og hafa verið að togast á um er það sem stendur í V. kafla að þar er fallist á kröfu Öryrkjabandalags Íslands og viðurkennt að ekki hafi verið heimilt að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap frá 1. jan. 1999 á ,,á þann hátt`` sem gert er í 5. mgr. 17. gr. Þetta atriði er það sem menn hafa verið að togast á um frá því að umræðan hófst.

Ég held að það sé ekki til sóma fyrir neinn af okkur sem hér störfum að vera að togast á um þessa hluti. Það er ömurlegt að segja það en það liggur við að maður þurfi að standa í sömu sporum og það fólk sem hefur lent í því að verða örorkulífeyrisþegi til að skilja stöðu þeirra. Það er ótrúlegt að hlusta á fólk sem er með hærri laun í stjórnarlaun, fyrir að sitja kannski einn stjórnarfund á mánuði, en það sem lagt er til að öryrkjum verði greitt á mánuði til framfærslu. Það er skelfilegt að menn skuli yfir höfuð geta hugsað þá hugsun til enda að það sem menn eru að fá fyrir að sitja einn fund á mánuði, kannski í fjóra til fimm tíma, sé eðlilegt fyrir annan til framfærslu. Þó að það sé kannski afstætt að draga þetta fram þá er þetta svona. Það eru fjölmargir í þessu samfélagi sem þiggja í stjórnarlaun ótrúlega háar upphæðir.

Virðulegi forseti. Einnig má minna á að mikill fjöldi öryrkja hefur aldrei átt möguleika á því að ávinna sér rétt í lífeyrissjóði eða þá svo lítinn að það skiptir engu máli í afkomunni. Það má líka benda á það að sérstök heimilisuppbót öryrkja þurrkast út krónu fyrir krónu við minnstu tekjur úr lífeyrissjóði þannig að það eru alls staðar skerðingar í gangi. Þetta gildir gagnvart einstaklingum eða öryrkjum í sambúð, þetta gildir yfir það allt saman.

Herra forseti. Örorkulífeyririnn er 18.424 kr. Tekjutryggingin eru 32.566 kr. Þetta gerir samtals 50.990 kr. og það er þetta sem verið er að skerða með því frv. sem fyrir er lagt. Það sem liggur að baki, virðulegi forseti, er auðvitað það sem maður verður að velta fyrir sér hvað er, það er að hæstv. forsrh. segir að um pólitískt slys hafi verið að ræða. Hæstv. forsrh. telur að Hæstiréttur hafi í þeim dómi sem við erum að tala um lagt pólitískar línur og að dómurinn hafi verið slys. Hvers konar slys, virðulegi forseti?

Í umræðu á okkar dögum um stjórnskipunarrétt á ekki að líta svo á að túlkun dómstóla á stjórnarskrá feli í sér pólitísk afskipti af löggjafarvaldinu en hæstv. forsrh. telur að Hæstiréttur hafi lagt pólitískt mat á þessa ákvörðun með því að það er túlkað sem greiða eigi 50.990 kr. Það samræmist ekki pólitískum geðþótta ýmissa einstaklinga og ég tala nú ekki um meiri hlutann hér er á þingi.

Lágmarksgreiðsla til öryrkja getur í hæsta lagi verið 73.546 kr., til einstaklings sem er ekki í sambúð. Þetta er lægri upphæð en unnt er að komast sómasamlega af með. Einstaklingur í sambúð á að fá samkvæmt vilja meiri hlutans og ríkisstjórnarinnar 42.424 kr. Þetta segi ég ítrekað að sé til skammar.

Það er ætlunin með þessu frv. að skerða enn þá lífeyri vegna tekna maka. Skerðing vegna eigin tekna hjóna eða öryrkja í hjónabandi verður meiri en hjá einstaklingi. Með þessu frv. er verið að sveigja að niðurstöðu sem leiðir til þess að ekki þurfi að greiða ellilífeyrisþegum sambærilegar bætur þegar þeir, ég segi þegar þeir, munu fara í mál við ríkið. Það liggur alveg ljóst fyrir að það mun gerast. Ég tel einnig að það liggi ljóst fyrir að það muni gerast að einstaklingar sem orðið hafa fyrir stórskaða vegna þeirra skerðinga sem nú hefur fallið dómur um, þeir einstaklingar sem hafa tapað eignum, þeir einstaklingar sem hafa valið þann kost að fara út í skilnað með hörmulegum afleiðingum, munu reyna að finna sér rétt til að sækja á ríkið. Við þessu var varað þegar síðustu skerðingarákvæði voru sett inn.

[14:00]

Herra forseti. Þó að ég hafi mikið efni um að fjalla, sérstaklega þar sem ég hef áður fjallað um í ræðum mínum og greint niður hvernig skerðingarnar eru framkvæmdar hjá öryrkjum og hver afkoman er hjá öryrkjum og hjá ýmsum stéttum í landinu sem búa við lakastan kostinn, þá ætla ég ekki að gera það frekar nú, það mun verða rætt við 2. umr. nákvæmlega hvernig þetta er. Mér er það alveg ljóst að af þeim 8.700 öryrkjum sem í landinu eru, þá eru 2.000--3.000 einstaklingar sem búa við ákaflega bágan kost og það verður að lagfæra stöðu þeirra. Ég er með, virðulegur forseti, þetta nákvæmlega niðurgreint hér á blaði hversu margir eru í hverjum hópi og hver staða þeirra er, hvað þeir fá greitt og hvernig þeim er ætlað að komast af.

Ég tel að afleiðingin af þessari lögleiðingu ef af verður verði sú að áframhaldandi málarekstur verði á hendur ríkisvaldinu, ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Ég mun ekki greiða þessu frv. samþykki mitt þegar til þess kemur, nema úr verði bætt frá því sem nú er varðandi tekjur einstaklinga í sambúð.

Herra forseti. Það sem er mikilvægast í allri þessari málaumfjöllun er að ekki verður aftur snúið. Dómurinn sem við erum að fjalla um hefur aukið og vakið skilning hjá almenningi á því að unnt er að sækja rétt sinn fyrir dómstólum og að ríkisstjórn og Alþingi fara ekki með alvald á milli kosninga.

Virðulegur forseti. Það sem ég hef orðið var við er að þjóðin, sem veltir þessum málum ekki mikið fyrir sér, er særð sári, er særð vegna þess að verið er að veitast að lítilmagnanum í samfélaginu og ég gleðst yfir því að þessi dómur skuli hafa fallið og það öryrkjum í vil vegna þessa máls.

Ég segi að lokum, herra forseti: Dómurinn gefur fyrirheit um betra og réttlátara líf og betra samfélag og ég segi að með þessum dómi er stefnt að lýðræðislegu og félagslegu réttarríki. Þetta eru lokaorð mín, virðulegur forseti, að sinni en ef ástæða gefst til við 2. umr. þá er mikið eftir órætt, bæði um dóminn og síðan almennt um kjör lítilmagnans í samfélaginu.