Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 14:36:58 (3913)

2001-01-18 14:36:58# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[14:36]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að það eru málefnaleg rök fyrir því að taka tillit til þess hagræðis sem felst í sambúð og það er gert nú þegar. Það er gert með því að 30% af framfærslueyrinum sem Tryggingastofnun ríkisins lætur einhleypum öryrkjum í té falla niður við það að öryrkinn fer í sambúð, þ.e. hann tapar heimilisuppbót og hann tapar sérstakri heimilisuppbót. Það er því þegar tekið tillit til þessa, herra forseti. Það er hins vegar hvergi í dómsorði Hæstaréttar og hvergi í forsendum að dómsorði sagt eitt eða neitt sem gefur til kynna að dómurinn sé þeirrar skoðunar að það megi skerða tekjutrygginguna vegna tekna maka. Það kemur hvergi fram þar. Þetta höfum við sýnt fram á aftur og aftur.

Hv. þm. er uppnæmur yfir því að ég spyr hvort það sé stefna Sjálfstfl. að fara þannig að þessum hópi sem á undir högg að sækja. Er nema von að við spyrjum? Við höfum núna bráðum í tvo daga verið að reyna að draga fram skýringar á því af hverju verið er að kroppa þennan 8 þús. kall af tekjutryggingunni. Þau svör hafa ekki enn þá fengist.