Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 14:42:36 (3919)

2001-01-18 14:42:36# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[14:42]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Enn einu sinni koma hv. þm. úr röðum stjórnarliða og rugla saman grundavallaratriðum í málinu. Annars vegar er um að ræða rétt öryrkjans til greiðslu úr opinberum sjóði sem byggður er á fötlun hans. Þetta er stjórnarskrárvarinn, persónubundinn, einstaklingsbundinn réttur. Hæstiréttur fer margoft yfir þetta í sínum röksemdum. Annars vegar því og hins vegar heimildarákvæðum á borð við fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sem hv. þm. nefndi hér sérstaklega máli sínu til rökstuðnings og vitnaði til hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Það má nefnilega skerða heimildarákvæðin. Og það má líka skerða viðbæturnar eins og t.d. þær sem felast í heimilisuppbótinni. Á þessu er grundvallarmunur og ég vil bara hvetja hv. þm. úr röðum stjórnarliða til að fara að átta sig á þessu grundvallaratriði svo við getum farið að tala hérna af einhverju viti um þetta mál.