Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 14:47:46 (3924)

2001-01-18 14:47:46# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[14:47]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Við vitum það sem höfum aðeins leitt hugann að þessum málum að það er ákaflega erfitt að bera saman almannatryggingalöggjöfinna milli landa, einfaldlega vegna þess að hún er svo mismunandi uppbyggð. Þáttur lífeyrisgreiðslna og annars þess háttar er mjög mismunandi eftir löndum.

Ég hef fyrir framan mig ljósrit úr bók Stefáns Ólafssonar þar sem segir m.a. að beiting skerðingarreglna í almannatryggingakerfinu vegna lífeyris öryrkja, vegna tekna maka, sé fátíð. Með öðrum orðum sé hún til staðar í öðrum löndum þó hún kunni að vera fátíð.

Ég hef líka upplýsingar frá Norrænu tölfræðihandbókinni sem segja að það sé viss skerðing vegna tekna maka vegna þessa grunnlífeyris eða tekjutryggingar. Þessar upplýsingar verður að leiða fram og þær verða væntanlega leiddar fram í heilbr.- og trn. en meðan ég hef þessar upplýsingar undir höndum hlýt ég að standa við þær.