Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 15:29:30 (3928)

2001-01-18 15:29:30# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[15:29]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég virði ætíð skoðanir og sannfæringu hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur og met rök hennar mikils. Aldrei mundi ég því líkja spurningum hennar við barnaleiki eins og frúna í Hamborg. Til þess virði ég hana of mikið.

Þó að það pirri hv. þm. þá ætla ég að spyrja hana sömu spurningar og aðra félagshyggjumenn en þó með dálítið öðru sniði.

Nú leiðir þessi dómur til þess að mati hv. þm. með vísan í rétt einstaklingsins að ekki megi taka tillit til tekna fjölskyldu við úthlutun bóta til hans. Þannig beri að greiða óskertar bætur til hátekjufjölskyldu, eingreiðslu 1,5 millj. samkvæmt frv. í einstökum tilvikum, 3 millj. samkvæmt hugmyndum stjórnarandstæðinga sem jafnar sannarlega ekki kjör fjölskyldna, heldur veldur auknum ójöfnuði. Þá kemur spurningin: Getur verið að jafnaðarstefnan hafi beðið skipbrot við dóm Hæstaréttar? Ekki megi gera vel við þá sem búa við slæmar félagslegar aðstæður nema gera vel við alla?

Svo er ég með spurningu sem á við öll þjóðfélög. Segjum að dómstólar komist að því að það sem þarf til að framfleyta sér og fjölskyldu sinni hækki upp fyrir það sem þjóðfélagið ræður við eða að geta þjóðfélagsins minnki undir þau mörk sem menn hafa talið vera nauðsynleg til að framfleyta sér. Yrði þá að skatta alla jafna eða hvernig sér hv. þm. þá fræðilegu spurningu fyrir sér?