Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 15:33:36 (3930)

2001-01-18 15:33:36# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[15:33]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Nú vill svo til að barnabætur eru greiddar í gegnum skattkerfið af einhverjum ástæðum. Hvað mundi gerast ef bætur almannatrygginga væru líka greiddar í gegnum skattkerfið? Báðir aðilar njóta réttinda samkvæmt sömu grein stjórnarskrárinnar, 76. gr., annar aðilinn í 1. mgr. og börnin í 3. mgr. En þar stendur, með leyfi forseta:

,,Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.``

Þetta er nákvæmlega sami hluturinn. Af hverju má skerða það sem gert er í skattalögunum, eins og barnabæturnar, en ekki það sem gert er í almannatryggingum sem byggir á sömu grein í stjórnarskránni?

Mér hefur orðið tíðrætt um tekjur fjölskyldunnar. Nú veit ég ekki hvernig fjölskyldan er almennt á Íslandi, en mér segir svo hugur að fjölskyldur hafi almennt sameiginlegan fjárhag, séu ekki með sundurgreindan fjárhag. Það sé ekki þannig að húsbóndinn kvitti fyrir kaffið á morgnana af því konan lagði út fyrir því. Ég reikna ekki með að svo sé almennt. Og ég geri ráð fyrir að menn vilji hafa það þannig áfram að fjölskyldan sé ein fjárhagsleg eining. Hún hefur nefnilega heilmikið gildi í hugum manna. Og ef dómurinn á að leiða til þess að fjölskyldan missi þetta gildi, þá er Hæstiréttur heldur betur að gera breytingar á þjóðfélaginu, breytingar sem ég er ekki viss um að allir kæri sig um.