Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 15:35:21 (3931)

2001-01-18 15:35:21# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[15:35]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er óskaplega erfitt að svara spurningum þar sem forsendan er sú að við værum ekki með almannatryggingalöggjöf, heldur værum við bara með skattalög og greiddum eftir skattalögum. Ég treysti mér einfaldlega ekki til að svara slíkri spurningu þó ég hefði gaman af að diskútera það við hv. þm. við annað tækifæri, hvernig veröldin væri ef forsendurnar væru allt, allt aðrar.

En þegar við erum að tala um fjölskylduna, rétt barna til framfæris, þá erum við að tala um að báðir einstaklingar, báðir fullorðnu einstaklingarnir geti lagt sitt inn í þessa framfærslu. Og það er að hluta til það sem dómur Hæstaréttar snýr að. Skylduframfærslan er ekki lengur fyrir hendi, þ.e. maki er ekki lengur skylduframfærandi maka síns, heldur er gert ráð fyrir að hver einstaklingur hafi stjórnarskrárvarinn rétt til tekna svo hann geti verið framfærandi í fjölskyldu sinni eins og hinn aðilinn. Þetta snýst um það, þannig að þetta snýst auðvitað um fjölskylduna.

Það er liðin tíð, herra forseti, að annar aðilinn sé framfærandi og hinn sé, ef ég má nota orðið þiggjandi. Þessi breyting á lögum mun styrkja fjölskylduna að því leyti til að menn munu væntanlega treysta sér til að ganga í hjónaband eða viðhalda hjónabandi sínu eftir að þessi breyting verður, sem er annað en það ástand sem hefur verið boðið upp á í dag, fólk hefur verið að skilja til þess einmitt að reyna að fá betri aðstöðu til þess að framfæra fjölskyldu sína.