Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 15:37:33 (3932)

2001-01-18 15:37:33# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[15:37]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við búum við þrískiptinguu valdsins: framkvæmdarvald, löggjafarvald og dómsvald. Sú þrískipting er ekki af tilviljun, hún byggir á heimspeki, sem byggir aftur á mannréttindahugmyndum þar sem reynt er að vernda einstaklinginn fyrir ofríki ríkisins. Þess vegna er reynt að byggja ríkið upp sem þrjár einingar sem eru jafnréttháar og til varnar einstaklingnum. Dómar Hæstaréttar er gott dæmi um gildi þessa. Hann dæmir þvert á vilja framkvæmdarvaldsins og jafnvel löggjafarvaldsins. Síðan hafa menn ýmsar skoðanir á þessum dómi og ég ætla að biðja hv. þm. að virða skoðanir hvers annars og tala ekki um að menn séu að fremja stjórnarskrárbrot, nema það sé orðið sannað.

Sá dómur sem við fjöllum hér um að mestu leyti er tvískiptur. Það er í fyrsta lagi skortur á reglugerðarheimild á árunum 1994--1998, og síðan hvort ákvæði laga nr. 149/1998 brjóti í bága við stjórnarskrána. Í fyrri hlutanum gerir Hæstiréttur athugasemd við verk framkvæmdarvaldsins. Hann segir: Framkvæmdarvaldið, þ.e. heilbrrh. á þeim tíma, setti reglugerð sem ekki var lagaheimild fyrir. Hann gerði athugasemd við þá framkvæmd framkvæmdarvaldsins. Í seinni hlutanum gerir hann athugasemd við framkvæmd löggjafarvaldsins, þ.e. hv. Alþingis. Og það er Alþingi sem á að bregðast við því eða hefði átt að bregðast við því og enginn annar.

Það sem Hæstiréttur gerir með seinni hluta dómsins er að hann fer inn í hlutverk stjórnlagadómstóls sem er mjög víða til, sérstaklega í mörgum stærri löndum, sem fjallar um það hvort lagasetning löggjafarvaldsins brjóti í bága við stjórnarskrána. Við Íslendingar höfum ekki slíkan stjórnlagadómstól og Hæstiréttur fer einstaka sinnum í þetta hlutverk af því að enginn annar er til. Mér finnst alveg burt séð frá núverandi ríkisstjórn og núverandi Alþingi að Hæstiréttur eigi allur að fjalla um mál sem heyra undir stjórnlagadómstól, þvílíkt sé mikilvægi málsins, af því þá er ein stoð ríkisvaldsins að fjalla um aðra. Og þar verður Hæstiréttur að vera mjög varkár og þar finnst mér að allir dómarar Hæstaréttar, ekki bara fjölskipaður, eigi að fjalla um málið og þá algjörlega óháð þessu máli að sjálfsögðu.

Ég ætla ekki að vera margorður um fyrri hlutann, þ.e. um reglugerðaratriðið. Ég bendi þó á að þetta er atriði sem féll niður að því er virtist. Og Alþingi, löggjafinn, kippti því strax í liðinn og hann varð var við það. Það hefur því verið vilji löggjafans að hafa þetta ákvæði inni, reglugerðarheimildina. En Hæstiréttur dæmir á grundvelli formsins en ekki þess vilja sem ætla má að Alþingi hafi haft. Ég hlíti því að sjálfsögðu eins og ég hlíti dómi Hæstaréttar.

Herra forseti. Ég ber mikla og djúpa virðingu fyrir dómum Hæstaréttar og hlíti þeim án fyrirvara. Þó eru gerðir Hæstaréttar ekki hafnar yfir gagnrýni, sérstaklega þar sem dómarar eru ekki gerðir ábyrgir gerða sinna, þeir eru ekki kosnir, þeir eru æviráðnir og þeir eru ekki gerðir ábyrgir.

Ég vil benda á þrjá veikleika í rökum meiri hluta Hæstaréttar sem ég þykist hafa séð. Í fyrsta lagi: Í V. kafla rökstuðnings meiri hluta Hæstaréttar segir svo, með leyfi herra forseta:

,,Tekjur maka skipta ekki máli við greiðslu til dæmis slysatrygginga, sjúkratrygginga, atvinnuleysistrygginga og fæðingarstyrks. Verður að telja það aðalreglu íslensks réttar að réttur einstaklinga til greiðslna úr opinberum sjóðum skuli vera án tillits til tekna maka.``

Allar þær bætur sem Hæstiréttur telur hér upp eru þess eðlis að þær eru fjármagnaðar með iðgjöldum eða eru teknar erlendis frá þar sem þær eru fjármagnaðar með iðgjöldum og þær mynda sjóði, Atvinnuleysistryggingasjóð, Fæðingarorlofssjóð o.s.frv. Þess vegna má líkja þessum tryggingum við lífeyrissjóðakerfið þar sem bætur eru greiddar út eða lífeyrir er greiddur út á grundvelli iðgjalda og án tillits til tekna þess sem tekur á móti eða tekna maka. Þess vegna er þessi rökstuðningur Hæstaréttar ekki réttur. Auk þess sem mjög stórir bótaflokkar á Íslandi, meira að segja stærri en þessir, eru tekjutengdir og nefni ég þar vaxtabætur, húsaleigubætur, barnabætur, millifæranlegan persónuafslátt og allar bætur almannatrygginga meira og minna.

Annar veikleikinn sem ég hef séð í rökum meiri hluta Hæstarréttar er í lok IV. kafla en þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Löggjafarvaldið hefur með lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, komið til móts við skyldur sínar um réttindi samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar að því er öryrkja varðar sérstaklega. Önnur lagaákvæði af þessum meiði, svo sem samkvæmt lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, og VI. kafla laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, eru hins vegar heimildarákvæði, en mæla ekki fyrir um rétt öryrkja.``

Þetta er afskaplega hæpinn rökstuðningur. Þó að lög um félagslega aðstoð séu heimildarlög er vart hægt að hugsa sér þá stöðu að þær bætur yrðu teknar úr sambandi. Ég sé það ekki gerast að heimilisuppbótin eða sérstaka heimilisuppbótin væru allt í einu teknar úr sambandi. Eða þá að sveitarfélögin hættu að styrkja fólk sem á sér hvergi þak yfir höfuðið. Þetta er réttur. Enda stendur í lögum um sveitarfélög, í 12. gr., með leyfi forseta:

,,Sveitarfélag skal sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögum þessum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum.``

Sveitarfélagið skal tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og sínum, þetta er ekki heimild, þetta er skylda. Þessi rökstuðningur er því líka fallinn.

[15:45]

Síðan er það þriðji veikleikinn sem ég tel mig hafa séð, það er í V. kafla rökstuðnings meiri hluta Hæstaréttar þar sem segir svo, með leyfi herra forseta:

,,Ákvæði almannatryggingalaga um örorkulífeyri og tekjutryggingu örorkulífeyrisþega hafa, svo sem að framan er rakið, lengi verið í nokkru samræmi við ákvæði laganna um ellilífeyrisþega. Staða öryrkja getur þó verið að því leyti ólík stöðu ellilífeyrisþega að margir þeirra greiða ekki í sama mæli í lífeyrissjóð og geta því ekki öðlast sams konar réttindi úr lífeyrissjóðum.``

Hæstiréttur er sem sagt að segja að öryrkjar séu verr settir en ellilífeyrisþegar. Það á ekki við rök að styðjast. Þetta er akkúrat öfugt. Vegna framreiknings almennu lífeyrissjóðanna og flestra lífeyrissjóða, nema Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem hefur ekki viljað breyta reglum um örorkulífeyri, eru flestir öryrkjar og eiginlega allir betur settir en ellilífeyrisþegar. Þrítugur maður sem verður öryrki fær framreikning til 67 ára aldurs, hann fær 37 ár gefin hjá lífeyrissjóðunum. Hann er sem sagt kominn með 30, 40 eða 45 ár sem nær enginn ellilífeyrisþegi er kominn með og fær 1,8% af launum, 1,5% í sumum sjóðunum fyrir hvert ár. Öryrkjar eru því alla jafna betur settir en ellilífeyrisþegar á Íslandi. Þessi rökstuðningur er því rangur.

Síðan verð ég að gera athugasemd við nokkra lítilsvirðingu fyrir löggjafanum sem mér finnst birtast í eftirfarandi orðum í Hæstarétti. Hér stendur:

,,Almenni löggjafinn hefur skilgreint stefnumörkun sína varðandi þessi mannréttindi, svo sem þau horfa við öryrkjum, í 1. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, en markmið þeirra laga er sagt vera að tryggja fötluðum ...``

Hvað þýðir þetta hjá Hæstarétti?

Herra forseti. Þegar ég las dómsorð Hæstaréttar fylltist ég miklum ugg því ég skildi dóminn við fyrstu sýn eins og stjórnarandstaðan, að ekki mætti taka tillit til tekna maka, þ.e. fjölskyldu, við úthlutun bóta. Ég óttaðist í sjálfu sér ekki afleiðingarnar á því afmarkaða sviði sem dómurinn tók til. Það var í rauninni ekkert stórmál, sem sagt öryrkjar einir sér. En ég sá fyrir mér mjög miklar afleiðingar í hendingskasti um allt þjóðfélagið. Í fyrsta lagi þarf að sjálfsögðu að taka ellilífeyrisþega fyrir með sama hætti. Að sjálfsögðu. Síðan er það spurning hvort menn taka tillit til fjölskyldna námsmanna. Svo eru það að sjálfsögðu barnabætur. Vaxtabætur. Húsaleigubætur. Afleiðingarnar eru um allt þjóðfélagið. Ef ekki má bæta stöðu eins þjóðfélagsþegns sem býr við erfiðar fjölskylduaðstæður án þess að allir verði að fá það sama án tillits til tekna fjölskyldunnar, þá erum við komin í ákaflega hættulega stöðu.

Svo er önnur rökrétt afleiðing sem getur gengið enn engra. Við skulum hugsa okkur tvö börn, annað er munaðarlaust og er á barnaheimili allan sólarhringinn, vaktað af sérfræðingum, og kostar hundruð þúsunda á mánuði. Hitt barnið býr við þá félagslegu stöðu að eiga foreldra sem annast það, vinna ókeypis við framfærsluna, gefa því að borða o.s.frv. og telja það sannarlega ekki eftir sér. Ef þessi tvö börn eiga að vera jöfn samkvæmt stjórnarskránni, og það er meira að segja sérstakt ákvæði í stjórnarskránni um verndun barna, á náttúrlega barnið sem býr við þær félagslegu ástæður að eiga foreldra, að fá greitt nákvæmlega eins og hitt. Hundruð þúsunda á mánuði. Foreldrarnir eiga að geta sent bakreikninga til ríkisins fyrir bakvakt allar helgar, fyrir næturvinnu þegar barnið er veikt o.s.frv. Alveg fráleit hugsun. En rökrétt afleiðing af því sem gæti gerst ef dómurinn yrði túlkaður eins og stjórnarandstaðan túlkar hann.

Verkefni fjölskyldunnar er nefnilega mjög margþætt. Þar er unnið ókeypis allan sólarhringinn. Það þekkja sérstaklega konur sem lenda oft í því hlutverki að reka heimilið og vinna ótæpilega, ógreitt og fá engin lífeyrisréttindi. Þessi túlkun dómsins gæti því leitt til þess að kollvarpa hlutverki fjölskyldunnar.

En sem betur fer varð mér rórra þegar ég las dóminn betur og ég sá að hinn auglýsti og markaðssetti skilningur Öryrkjabandalagsins á dómnum var ekki réttur. Það má taka tillit til fjölskyldunnar. Hæstiréttur var ekki að umbylta þjóðfélaginu.

Herra forseti. Þá kem ég að meginkjarna umfjöllunar minnar um dóm Hæstaréttar. Má skerða tekjutengingu miðað við tekjur maka? Ég segi já. Rökstuðningur minn er eftirfarandi:

Í V. kafla rökstuðnings meiri hluta Hæstaréttar segir svo, með leyfi herra forseta:

,,Verður tæpast annað sagt en að réttur öryrkja til framfærslu fjölskyldu sinnar verði smár hafi hann aðeins tekjur, sem nema grunnörorkulífeyri.`` --- Það er 18 þús. kr. Þetta er smátt, segir Hæstiréttur. (Gripið fram í.) Síðan segir áfram, með leyfi herra forseta:

,,Svo sem áður greinir verður að telja að í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar felist ákveðin lágmarksréttindi, sem miðuð séu við einstakling. Þrátt fyrir svigrúm almenna löggjafans til mats á því, hvernig þessi lágmarksréttindi skuli ákvörðuð, geta dómstólar ekki vikið sér undan því að taka afstöðu til þess, hvort það mat samrýmist grundvallarreglum stjórnarskrárinnar.``

Svo segir meiri hlutinn að núverandi skipulag réttinda örorkulífeyrisþega verði ekki talið tryggja þeim lágmarksréttindi sem stjórnarskráin mælir fyrir um. Seinna í sama kafla segir svo, með leyfi herra forseta:

,,Í samræmi við það, sem að ofan greinir, er fallist á þá kröfu gagnáfrýjanda, að viðurkennt verði að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap frá 1. janúar 1999 á þann hátt`` --- ég endurtek: á þann hátt --- ,,sem gert er í 5. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993.``

Meiri hluti Hæstaréttar segir í VI. kafla rökstuðnings síns, með leyfi herra forseta:

,,Hins vegar er tekjutrygging háð umsóknum, sem rökstyðja á til dæmis með skattframtölum og skýrum upplýsingum um hagi bótaþega, sbr. 18. gr. almannatryggingalaga.`` --- Hann vísar í 18. gr. í dómsorðinu. --- ,,Í 48. gr. sömu laga`` --- ég endurtek: 48. gr. --- ,,eru jafnframt ákvæði sem huga verður að við ákvörðun lífeyris til hvers örorkulífeyrisþega um sig. Af ákvæðum þessum leiðir að af niðurstöðu máls þessa verður ekki dregin ályktun um rétt hvers einstaks lífeyrisþega ...`` Þetta segir Hæstiréttur.

Í 18. gr. almannatryggingalaga sem Hæstiréttur vísar í í forsendum sínum stendur svo, með leyfi herra forseta, í 2. málsl.:

,,Hliðsjón skal höfð af því hvort eignum bótaþega hefur verið ráðstafað með þeim hætti að það valdi synjun hækkunar.``

Hér er verið að ræða um það að fólk má ekki selja eða gefa eignir sínar til þess að losna við að tekjur af eignunum komi til frádráttar bótum. En eignirnar eru sameiginlegar hjónum. Það þýðir að ekki má selja eignir sem eru sameiginlegar með makanum til að minnka tekjur beggja hjóna. Hæstiréttur er að vísa í grein sem gerir ráð fyrir sameign hjóna. Sameiginlegum tekjum. Sameiginlegum eignum. Hæstiréttur segir hvergi að ekki megi taka tillit til tekna maka heldur að núverandi lágmarksgreiðsla sé of lág. Önnur niðurstaða hefði enda ófyrirséðar afleiðingar í för með sér í öllu þjóðfélaginu eins og ég rökstuddi áðan.

Í VI. kafla rökstuðnings meiri hluta Hæstaréttar segir, með leyfi herra forseta:

,,Í 48. gr. sömu laga`` --- ég las það rétt áðan --- ,,eru jafnframt ákvæði sem huga verður að við ákvörðun lífeyris til hvers örorkulífeyrisþega um sig.`` Hvað skyldi standa í þessari 48. gr. laganna? Þar stendur, með leyfi herra forseta, 1. málsl. 1. mgr.:

,,Bætur, aðrar en slysalífeyrir og sjúkradagpeningar, skulu aldrei úrskurðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár.``

Hæstiréttur er að segja í dómsorði sínu: Fyrningarfresturinn er tvö ár. Það segir Hæstiréttur. (Gripið fram í.) Þar höfum við það. Ekki þarf lengur að ræða um það hvað langt á að greiða aftur í tímann, Hæstiréttur segir í dómsorði sínu að fyrningarfresturinn sé tvö ár.

Herra forseti. Hæstarétti verður tíðrætt um að sambúðarfólk beri ekki ábyrgð á framfærslu hvors annars. Hann er að benda á vandamál sem ég hef margoft bent á sem er það að sambúð, þ.e. hjónaband annarrar gráðu, er óljóst fyrirbæri í íslensku réttarlandslagi. Sambúðarfólk er búið að öðlast fullt af réttindum út um allt, í lífeyrissjóðum, skattkerfinu, út um allt. Það hefur tekið á sig líka vissar skuldbindingar. En þetta er ekkert á hreinu. Það ber ekki skyldu til að framfæra sambúðarmakann. Það eignast ekki hlutdeild í eignum. Mér finnst það mjög brýnt að hæstv. Alþingi taki sér tak, því það er einu sinni löggjafarsamkundan, og semji lagabálk um sambúð og hjónabandið þannig að það sé alveg á hreinu hvaða réttindi og skyldur menn gangast undir með því að fara í sambúð, hvernig hún stofnast t.d. Er nóg að koma með tannburstann? Eitthvað? Er maður þá kominn í sambúð? (Gripið fram í.) Koma með hundinn? Eða er nóg að fara með tannburstann og þá er sambúðin búin? Þetta er svo óljóst fyrirbæri að ég held að nauðsynlegt sé að setja eitthvert form á það af því að það veitir réttindi og gefur skyldur út um allt.

Margir hafa spurt hvers vegna 43 þús. kr. en ekki 51 þús. kr. Auðvitað getur Alþingi ákveðið að veita öryrkjum 1 millj. kr. á mánuði ef því er að skipta. En það er fordæmisgildið. Í fyrsta lagi á aðrar bætur, í öðru lagi á þá sem borga skattana, að þeir séu ekki verr settir. Það sem er grundvallarhugsun í mínum huga er að sá sem greiðir bætur eigi ekki að vera verr settur en sá sem þiggur þær. Sá sem greiðir bætur á ekki að vera verr settur en sá sem þiggur þær. Þess vegna er ég í grundvallaratriðum á móti þessari breytingu sem við erum að gera á grundvelli hæstaréttardómsins, þótt ég hlíti honum að sjálfsögðu, vegna þess að þar er verið að taka skattpeninga af lágtekjufólki og borga til hátekjufólks. Sá sem greiðir bæturnar er oft og tíðum miklu verr settur en sá sem þiggur þær. Það finnst mér óréttlátt, ég bara kemst ekki fram hjá því, og ég er ekki einu sinni jafnaðarmaður.

Ég má til með að koma til móts við þá sem spurðu: Bíðum við, ef við gerum ekki neitt, hvað gerist þá? Þá gerist eftirfarandi: Þá fellur væntanlega 5. mgr. 17. gr. almannatryggingalaganna úr gildi. Í 1. mgr. er fjallað um tekjutryggingu einhleyps ellilífeyrisþega. Í 2. mgr. er fjallað um tekjutengingu hjóna þar sem annað er ellilífeyrisþegi. Í 3. mgr. er fjallað um tekjutengingu hjóna sem bæði eru ellilífeyrisþegar. Í 4. mgr. er fjallað um tekjutengingu einstaklings sem er örorkulífeyrisþegi. Í 5. mgr. er fjallað um tekjutengingu hjóna þar sem annað er örorkulífeyrisþegi. Ef sú grein félli út þá ætti þetta blessaða fólk nákvæmlega engan rétt vegna þess að það fellur ekki undir neina af hinum málsgreinunum. Það ætti bara engan rétt. Er stjórnarandstaðan að biðja um það? Er hún virkilega að biðja um að ekkert sé gert? Það mundi aldeilis spara peninga. Því það fólk sem fær tekjutengingu í dag, fulla, óskerta, fengi þá bara ekki neitt. Ég vona að ég þurfi ekki að heyra þetta aftur.

Herra forseti. Nú ætla ég að fjalla um markaðssetningu. Hvar eru fulltrúar Öryrkjabandalagsins? (Gripið fram í.) Nei, nei. Við höfum upplifað snilldarlegustu markaðssetningu síðasta árs og það er markaðssetning Öryrkjabandalagsins á túlkun sinni á hæstaréttardómnum, enda vanir menn. Hljóta þeir eflaust ÍMARK-verðlaunin næst þegar þau verða veitt. Ég vil benda á það að þeir voru að sjálfsögðu aðilar að málinu. Allt var tínt til. Auglýsingar, blaðamannafundir, fundir með forseta lýðveldisins. Það virkaði mjög vel. Fundir með verkalýðsforkólfum og stjórnarandstöðunni. Virkaði líka mjög vel. (Gripið fram í.) Mér var ekki boðið, enda móðgaður.

[16:00]

Til viðbótar við þessa stórkostlegu markaðssetningu kom eðlislæg samúð landans með öryrkjum. Árangurinn var stórglæsilegur. Þeir, sem aðilar að málinu fyrir Hæstarétti, fluttu mál sitt áfram á meðan ríkisstjórnin var eðlilega í fyrstu tvístígandi, þurfti að liggja yfir dómnum til að átta sig á honum. Þannig má segja með vísan til markaðarins að þeir hafi tekið samkeppnina í bólinu og standi uppi með pálmann í höndunum. Áhrif markaðsátaksins komu fram í því að stjórnarandstaðan tók yfir skilning þeirra á hæstaréttardómnum og gerði að sínum. Og jafnvel verkalýðshreyfingin fylgdi með en sýnilega eitthvað tregari þó. Almenningur stendur, yfir 80%, með Öryrkjabandalaginu og skilur ekkert í þvermóðsku og illsku stjórnvalda. Formaður Öryrkjabandalagsins var kjörinn maður ársins á einum fjölmiðlinum. (Gripið fram í: En hræðilegt.) Markaðsmenn vita að góð markaðssetning er mikilvægari en góð vara þegar markmiðið er að selja vöruna grimmt. Þekkt er að tekist hafi að selja ónýta eða nytlausa vöru með snjallri markaðssetningu. En þegar fólk áttar sig á því að varan er léleg koðnar salan stundum niður og markaðssetninginn getur jafnvel slegið til baka.

Herra forseti. Nú ætla ég að ræða um sigurinn. (SJS: Viltu ekki nefna dæmi um ...) Formaður og lögfræðingur Öryrkjabandalagsins dönsuðu stríðsdans, sigurdans. Var helst á þeim að skilja að hæstv. forsrh. hefði tapað, eins og hann mundi nú fara að greiða þetta sjálfur. En það var ekki hæstv. forsrh. sem tapaði. Það var ekki einu sinni hæstv. ríkisstjórn eða hv. þingmeirihluti á Alþingi. (Gripið fram í: Af hverju eruð þið þá svona reið?) Nei, það voru skattgreiðendur í landinu sem munu greiða þessar auknu bætur. Þeir töpuðu. Meginþungi þessara greiðslna til hátekjufjölskyldna lendir á u.þ.b. 100 þúsund félögum í ASÍ og félögum í BSRB sem margir hafa ekki háar heimilistekjur. Þannig er nú það, herra forseti.

Herra forseti. Sú vara sem stjórn Öryrkjabandalagsins hefur markaðsett af slíkri snilld er einstaklingshyggjan með vísan til mannréttindaákvæða. Einstaklingnum allt. Hann á sinn rétt burt séð frá þeirri félagslegu stöðu sem hann er í þó hann njóti hárra tekna og eigna maka síns í miklum lífsgæðum skal hann fá sama lífeyri og sá sem ekkert fær frá sínum maka, býr jafnvel með maka sem er öryrki. Það er réttlæti í nafni mannréttinda að heimilt sé að skattleggja lágtekjuheimilin til þess að greiða auknar bætur til hátekjuheimila. Slík hugsun gengur þvert á stefnu vinstri manna og félagshyggjufólks, eins og ég hef skilið hana hingað til, um að bæta hag þeirra sem minnst mega sín. Samt hafa þeir kokgleypt þessa stefnu. Slík er snilld markaðssetningarinnar. Ég þurfti að hlusta mörgum sinnum á stjórnarandstöðuþingmenn, félagshyggjufólkið, jafnaðarmennina, áður en ég trúði eyrum mínum. En ég er þegar búinn að leiðrétta orðabókina mína með þessa nýju jafnaðarstefnu. Nú heitir hún eitthvað allt annað en áður.

Ef við leggjum saman óskerta tekjutryggingu síðustu sjö ára, eins og stjórnarandstaðan krefst að verði greidd, sem öryrki giftur hátekjumanni hefur misst af auk t.d. dráttarvaxta eða eitthvað slíkt, þá fáum við 3 millj. kr. í eingreiðslu sem stjórnarandstaðan krefst að verði greitt án refja nú þegar. Þessar fjölskyldur, þessar hátekjufjölskyldur slá sennilega í nýjan jeppa til viðbótar við hinn. Þetta er hin nýja jafnaðarstefna og hún er komin þannig inn í mína orðabók.

Herra forseti. Verkalýðshreyfingin hefur verið dálítið til baka í þessu máli. Reyndar hafa þeir birt nokkrar auglýsingar fyrir Öryrkjabandalagið. En forkólfar hennar eru ekki eins eindrægir í stuðningi sínum, nema náttúrlega BSRB og BHM. Þar á bæ virðast menn átta sig á því, hjá verkalýðshreyfingunni, að verið sé að styrkja fjölskyldur sem oft hafa miklu hærri fjölskyldutekjur en almennir félagsmenn hreyfingarinnar hafa úr að spila. Félagsmenn verkalýðshreyfingarinnar borga þó með sköttum sínum allt ballið.

Nú er spurningin: Hefur þetta markaðsátak verið gott fyrir öryrkja og bandalag þeirra? Ég held ekki. Það er ekki gott fyrir slík samtök að fara í stríð við stjórnvöld sem þau ættu að vinna með. Kem ég að því á eftir. (Gripið fram í: Ertu að hóta?) Nei, nei, nei. Þá er hætt við að einhverjir þeirra sem lægstar hafa heimilistekjurnar, kannski 75 þús. kr. einstaklingur eða 102 þús. kr. hjón, öryrkjar, verði klumsa þegar þeir sjá Jón lækni og frúna hans sem er öryrki fá 300 þús. kr. aukalega á ári vegna frv. ríkisstjórnarinnar. Hvað þá ef þetta ríka fólk fengi 370 þús. kr. aukalega á ári ef stjórnarandstaðan réði. Þetta lágtekjufólk fær ekki neitt vegna markaðsátaks Öryrkjabandalagsins.

Ljóst er að þessi dómur mun hugsanlega hafa mikinn kostnað í för með sér annars staðar, vegna ellilífeyrisþega o.s.frv. Þá fjármuni er ekki hægt að nota til að bæta stöðu þeirra öryrkja sem verst eru staddir. Þannig er hætt við að öryrkjar almennt komist að raun um að varan sé léleg.

Herra forseti. Ég tel að samtök eins og Öryrkjabandalagið gegni veigamiklu hlutverki í samfélaginu. Þau benda á sértæk vandamál og þarfir félaga sinna og vinna með stjórnvöldum að bættu lagaumhverfi fyrir félagsmenn sína. Mikilvægt er að góður andi ríki á milli aðila, þ.e. slíkra samtaka og ríkisvaldsins og löggjafans.

Í sumar átti ég að eigin frumkvæði fund með formanni Öryrkjabandalagsins. Vildi ég kynna honum hugmyndir mínar um aukinn stuðning við þá sem verst eru staddir, sérstaklega í húsnæðismálum. Þá vildi ég kanna stöðu öryrkja frá fulltrúa þeirra frá fyrstu hendi. Sérstaklega vildi ég kanna þá mótsögn sem felst í því að mjög margir öryrkjar hafa lítinn sem engan rétt í lífeyrissjóði þó að lagaskylda hafi verið að greiða í lífeyrissjóði í 20--26 ár. Og vegna framreiknings flestra lífeyrissjóða, nema LSR eins og ég gat um hér áðan, ætti þetta fólk að vera með 60% af þeim tekjum sem það hefur greitt iðgjald af.

Lausleg könnun mín á þeirri þversögn sem hér kemur í ljós, það er alltaf talað eins og menn eigi bara rétt hjá almannatryggingum og engan rétt í lífeyrissjóði, sýnir að mjög margir hafa svikist um að greiða í lífeyrissjóð. Fólk sem hefur talað við mig hefur ekki greitt í lífeyrissjóð enda var ekkert eftirlit með aðildinni. Sumir hafa tjáð mér að þeir hafi fengið 6% iðgjald atvinnurekandans greitt út og þeir hafa notað það væntanlega ásamt eigin iðgjaldi, 4%, til eyðslu eða til að mynda eignir.

Nú er spurningin hvað eigi að gera þegar kemur að því að menn lenda í að verða öryrkjar eða fara á ellilífeyri, þeir sem ekki borguðu í lífeyrissjóð þó þeir hefðu átt að gera það. Hvað á að gera við þá miðað við hina sem borguðu 10% af launum í lífeyrissjóð alla tíð, kannski í 30, 40 ár, fjögur árslaun? Eiga þeir að fá sama? Það held ég varla.

Herra forseti. Að mínu mati þyrfti að laga nokkur vandamál sem snúa að öryrkjum. Fyrst má nefna það sérkenni íslenskra öryrkja, þ.e. kerfisins, að öryrki sem er algjörlega óvinnufær fær sama örorkulífeyri og annar sem er 70% öryrki, getur unnið 30%. Þeir fá sama örorkulífeyri. Afleiðingin er sú að bætur þess sem getur unnið 30% eru skertar ef hann fer að vinna. Það borgar sig ekki fyrir hann að vinna. Þetta er afskaplega slæmt. Og vegna þess hve það kostar mikið að borga honum 100% örorkulífeyri þá er örorkulífeyririnn lægri en annars væri. Það væri hægt að borga þeim sem er algjörlega óvinnufær hærri örorkulífeyri ef hinn fengi 70%, svo maður tali nú ekki um ef við færum skalann niður í 60%, 50% o.s.frv. Og það mætti gera ráð fyrir því að öryrki sem er með 30% starfsorku mætti vinna 30% starfshlutfall í fullri vinnu fyrir há laun þess vegna, hafi hann t.d. verið verkfræðingur eða læknir áður. Þetta er einn vandinn.

Í öðru lagi mætti ræða þann möguleika sem mikið er rætt um að hægt sé að greiða lífeyri sem styrk til fyrirtækja sem ráða öryrkja og greiddu þá öryrkjunum full laun eins og öðrum. Þetta er reyndar eitthvað að byrja og menn eru nokkuð byrjaðir að hugleiða þetta. Þetta mætti útfæra miklu meira vegna þess að vinnan gefur öryrkjunum miklu meira en bara laun eins og öllu öðru fólki. Hún gefur honum tilgang og það er félagslegt atriði. Og fyrirtækið gæti sætt sig við það að maðurinn væri með minni viðveru eða skilaði ekki sömu afköstum vegna þess að það fengi örorkulífeyrinn greiddan. Þetta er annað atriðið.

Þriðja atriði er þess eðlis að ég þori varla að tala um það. Eitt sinn minntist ég á að óregla snerti fjölskyldur sumra lífeyrisþega. Og það var túlkað þannig að ég hefði sagt að allir öryrkjar og gamalmenni væru fyllibyttur. Það sagði ég aldrei.

Nú ætla ég að tala um mál sem kannski þarf enn meira hugrekki til, þ.e. bótasvikin, bótasvik almennt. Nú ætla ég að tala mjög almennt. Almennt er viðurkennt í útlöndum hjá þeim sem hanna lífeyristryggingakerfi að örorkulífeyrir þurfi að vera hærri en ellilífeyrir. Af hverju? Vegna þess að öryrkinn stendur í framkvæmdum. Hann er að koma sér fyrir. Hann er að kaupa sér íbúð. Hann er að ala upp börn og hann stendur í umsvifum lífsins sem ellilífeyrisþeginn gerir ekki. Sá er sestur í helgan stein, lætur yfirleitt fara lítið fyrir sér. Almennt er því talið að örorkulífeyrir þurfi að vera hærri en ellilífeyrir. En það er líka almennt sagt að það sé ekki hægt vegna þess hve misnotkunin er mikil. Það er svo auðvelt að misnota örorkulífeyri. Það er ekki hægt að misnota ellilífeyri. Menn eru annaðhvort sjötugir eða þeir eru ekki sjötugir, (Gripið fram í.) eða 67 ára, hver sem mörkin eru. Þau eru mismunandi eftir lífeyrissjóðum.

Misnotkunin felst annars vegar í því að fólk sem ekki er öryrkjar er úrskurðað öryrkjar. Það er svo erfitt að skera úr um þetta. Ef ég er með bakverk, hver ætlar þá að sanna að ég sé ekki með bakverk? Þetta er fyrsta misnotkunin. Önnur misnotkunin er sú að maður sem er öryrki og fær bætur vinnur svart til að fá ekki skerðingu. Ég hef nú lent í því sjálfur að ég auglýsti eftir fólki til vinnu, erfiðrar vinnu, og þrír öryrkjar sóttu um. Kannski þeir þrír einu í landinu. En þegar ég sagðist ætla að gefa það upp og yrði að gefa það upp sem þingmaður þá drógu þeir allir umsóknina til baka. Og einn þeirra horfði meira að segja á mig og sagði: ,,Ætlar þú að breyta heiminum, Pétur?`` Ég sagði já. Það gengur seint.

Þessi bótasvik eru ekki síður skaðleg en skattsvik sem mikið er talað um. Þau eru sérstaklega skaðleg fyrir það fólk sem er raunverulegir öryrkjar því þau sverta ímynd öryrkja og skaða þá velvild sem er þeim svo nauðsynleg. Þegar almenningur fréttir af svona einstaka tilfellum --- þau eru kannski ekkert voðalega almenn --- þar sem fólk er að svíkja út bætur þá kemur það slæmri ímynd á alla öryrkja sem þurfa og eiga að eiga velvild þjóðarinnar. Þess vegna er það eitt af verkefnum samtaka eins og Öryrkjabandalagsins að vinna harkalega gegn bótasvikum.

Herra forseti. Ég tel mjög mikilvægt að lægja þá ófriðaröldu sem ríkt hefur á milli stjórnvalda og Öryrkjabandalagsins. Báðir aðilar þurfa að hafa skilning á sjónarmiðum hins. (SJS: Þetta skaltu segja Davíð.) Stjórnvöld verða að skilja og kynna sér enn betur stöðu öryrkja og Öryrkjabandalagið þarf að átta sig á því að fjármunir eru ekki ótakmarkaðir og að bæturnar eru greiddar með sköttum á fólk sem margt hvert er þjakað af skattpíningu.

Ég vona að gott samstarf takist við samtök öryrkja til að leysa ýmsan þann vanda öryrkja sem ég hef nefnt því ég tel að almenn sátt sé um það í þjóðfélaginu að gera vel við þá sem lent hafa í áföllum eins og öryrkjar margir hverjir hafa lent í.