Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 16:18:05 (3935)

2001-01-18 16:18:05# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[16:18]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var alveg hárrétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Það er spurt um tiltekið álitamál og vísað til lagagreina og málsliða í lögum þar sem fjallað er um þessa tekjutryggingu. Svar og niðurstaða Hæstaréttar er skýr og það er afdráttarlaust. Þetta er staðreynd málsins.

Á hinu vil ég einnig vekja athygli að það er mjög ómerkilegt af hálfu hv. þm. Péturs H. Blöndals að reyna að gera þá sem eiga að njóta þessara lágmarksmannréttinda að hátekjufólki. Verið er að tryggja einstaklingsbundinn rétt til 51 þús. kr. á mánuði.

Atvinnulaus einstaklingur fær 67 þús. kr. á mánuði. Það þykir okkur öllum vera lágt og oft verið um það deilt hér í þingsölum. Það hefur aldrei nokkrum manni komið það til hugar að spyrja hvort sú upphæð sé lág eða há með tilliti til tekna makans. Það ætlar hins vegar hv. þm. að gera gagnvart öryrkjanum. Hann ætlar að svipta hann þeim sjálfsögðu mannréttindum að líta á hann sem einstakling. Mér finnst þetta ómerkilegt og ómaklegt.