Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 16:25:35 (3942)

2001-01-18 16:25:35# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[16:25]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það var ágætt að hv. þm. mundi eftir lífeyrissjóðunum því ef fólk er vinnandi þá er það nefnilega mjög vel sett yfirleitt, nema þeir sem ekki eru byrjaðir að vinna svo sem eins og námsmenn. Þeir voru reyndar einu sinni í Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda, af einhverjum ástæðum var það tekið í burt, að greitt var fyrir þá í Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Það er spurning um að taka það upp aftur.

En ég vil benda á að örorkulíkur eru afskaplega litlar á þeim aldri. Þær eru mestar upp úr fertugu, þegar fólk er orðið fertugt. Þannig að þau dæmi sem fólk er að tala hér um eru tómt mengi. Yfirleitt fær fólk, ef það hefur borgað í lífeyrissjóð samkvæmt lögum, og það er skylda síðan 1974, hv. þm., að borga í lífeyrissjóð, ekki 1987. Frá 1974 er lagaskylda að borga í lífeyrissjóð. Og síðan eiga allir öryrkjar sem voru vinnandi að fá mjög myndarlegan örorkulífeyri úr lífeyrissjóði.