Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 16:29:21 (3946)

2001-01-18 16:29:21# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[16:29]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki alla daga að hugsa um áróðursstöðu hvorki mína né Sjálfstfl. Ég fylgi sannfæringu minni og ef kjósendum líkar hún, þá kjósa þeir mig, annars kjósa þeir einhvern annan sem þeim líkar betur. Svo einfalt er það.

Varðandi hæstaréttardóminn og 5. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar. Ef farið er beint eftir hæstaréttardómnum og þessi grein lýst ógild, þá fær þetta fólk ekki neitt eins og ég lýsti hérna áðan. Ef öll 5. mgr. fellur burt, þá er engin tekjutrygging fyrir þá öryrkja sem eru í sambúð með öðrum því að allar greinarnar fjalla um annars vegar einhleypan, síðan hjón með ellilífeyri, síðan hjón bæði með ellilífeyri, svo einhleypan öryrkja og öryrkja í sambúð, vinnandi. Ef sú grein fellur niður, 5. mgr., þá má ekki greiða þessu fólki neitt. Er það það sem hv. þm. er að meina, er það það sem Hæstiréttur meinti? Það held ég ekki.