Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 16:30:29 (3947)

2001-01-18 16:30:29# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[16:30]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. heyrði mig ekki segja að ein eða önnur tiltekin grein væri fallin brott. Það sem gerist í þessu máli verða menn að skoða út frá stefnu Öryrkjabandalagsins. Með stefnunni var látið reyna á tiltekið mannréttindaprinsipp á grundvelli tiltekinnar málsgreinar í þessum lögum sem varðar afmarkaðan hóp. Það fékkst staðfesting á því að skilningur Öryrkjabandalagsins var réttur, dómsorðið var skýrt, og með því skapaðist réttarástand sem bar að svara með því að greiða þessum tiltekna hópi öryrkja sem dómurinn varðaði óskerta tekjutryggingu. Ef hv. þm. er að velta fyrir sér þeim hópum sem er t.d. fjallað um í 6. og 7. mgr. þá er auðvitað rétt að engar forsendur eru til annars en að leiðrétting nái líka til þess hóps enda datt engum annað í hug en að það yrði gert með lögjöfnun, eins og t.d. sá embættismaður ríkisstjórnarinnar sem fjallaði um þetta, sagði strax í blaðaviðtali að nú mundu menn fara í það að greiða þessum öryrkjum út og líka öðrum hópum sem málið varðaði, m.a. þeim tveimur sem tekið er á í 6. og 7. mgr..