Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 17:04:58 (3954)

2001-01-18 17:04:58# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[17:04]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hér hefur margt verið sagt og sumt oft. Ég ætla mér samt að bæta í þetta fáeinum orðum. Fyrst langar mig til þess að fara yfir það hvernig ég lít á dómsorðið og þá setningu sem hv. stjórnarliðar hafa haft hér uppi hvað eftir annað, þ.e. þeir hengja sig á það að í röksemdum Hæstaréttar standi ,,á þann hátt sem gert er``.

Í dómsorðinu segir að viðurkennt sé að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega. Það er alveg skýrt og ákveðið og það stendur þarna og þar er ekki sagt ,,á þann hátt sem gert er``. Ef Hæstiréttur hefði talið að þetta viðhengi sem hv. þingmenn hafa sífellt verið að vitna til ætti að fylgja þá geri ég ráð fyrir því að það væri þarna. Ef Hæstiréttur hefði hins vegar meint að það ættu að vera möguleikar á að skerða þetta einhvern veginn öðruvísi, sem stjórnarliðar í raun halda fram, þ.e. að Hæstiréttur sé að meina að það megi skerða þetta einhvern veginn öðruvísi en það hafi bara ekki verið gert með réttum hætti, þá er ég því algjörlega ósammála og tel að Hæstiréttur hafi fyrst og fremst verið að dæma um það á grundvelli jafnræðisreglu að ekki mætti skerða þessar bætur. Þetta er grunnréttur sem öryrkjar eiga sem Hæstiréttur telur að sé mannréttindi og þessi grunnréttindi má ekki skerða með broti á jafnræðisreglu eins og hefur verið gert og er gert með þeirri tillögu sem liggur hérna fyrir, vegna þess að með henni er verið að mismuna þeim sem hlut eiga að máli með því að skerða suma en aðra ekki.

Ég ætla ekki að lengja mitt mál með þessu. Þetta er bara mín skoðun og ég vil að hún komi hér fram. Ég vitna einungis í eina setningu þar sem verið er að tala um að uppfylla skilyrði 65. gr. stjórnarskrárinnar um að hver einstaklingur njóti samkvæmt því jafnréttis við aðra sem réttar njóta. Þetta tel ég vera setningu sem megi fullkomlega halda fram að Hæstiréttur sé að vísa til, samanber það sem ég var að segja áðan, þ.e. jafnræði þeirra sem hlut eiga að máli.

Á öðrum stað segir Hæstiréttur að það sé bannað að færa grunnframfærslu ríkisins yfir á maka öryrkjans. Það hefur breyst frá því sem áður var. Það liggur núna fyrir og á þeim grunni er gengið frá málum.

Hæstv. heilbrrh. sagði að hún deildi ekki við Hæstarétt og forstjóri Tryggingastofnunar sagði á sínum tíma að til stæði að fara að reikna út á grundvelli dómsins og ég geri ráð fyrir því að tryggingaráð hafi staðið að baki forstjóranum í því og það er lögformlega á valdi tryggingaráðs og ekki bara á valdi heldur skylda þess að sjá til þess að Tryggingastofnun fari að lögum. Það er sérstaklega tekið fram í sambandi við hlutverk tryggingaráðs.

Hæstv. ráðherra sagði líka að það ætti að virða dóminn að fullu. Ég tel satt að segja að hæstv. ráðherra hafi meint það fullkomlega þegar það var sagt. Hæstv. utanrrh. sagði aftur á móti í einhverjum fjölmiðli að hann hefði ekki treyst sér til þess að ræða málið að fullu fyrr en hann hefði látið skoða það og sagði að það væri ekki einfalt eða auðskilið og það væri eitthvert flóknasta mál sem hann hefði komið að og hæstv. forsrh. viðhafði svipuð orð. Þeir fengu sem sagt snillinga til þess að fara yfir málið. Hæstv. heilbrrh. sagði síðan að það hefði verið að sinni tillögu.

Nú spyr ég því ekki veit ég það, en einhvern veginn hefur mér skilist það í gegnum tíðina að þegar hæstv. ráðherrar skipa starfshóp þá sé venjan a.m.k. sú að formaður starfshópsins sé fulltrúi þess ráðherra sem skipar hópinn eða leggur hann til. En það vildi svo einkennilega til að formaður þessa starfshóps var fulltrúi Sjálfstfl. en ekki Framsfl. Það læðist að mér sá grunur að fleiri fingur hafi komið að því að finna út þennan starfshóp en hæstv. tryggingaráðherra.

Ég tel reyndar og mig rekur ekki minni til þess að farið hafi verið með nokkurn ráðherra í gegnum tíðina eins og þarna er gert því að það er náttúrlega verið að niðurlægja hæstv. heilbr.- og trmrh. með ömurlegum hætti. Það var ekki hægt að misskilja það sem hæstv. ráðherra sagði í upphafi en hún er rekin til baka og hlýtur slíka meðferð sem hér ber raun vitni. Ég get nú ekki sagt annað en að þar hafi höggvið þeir sem hlífa skyldu því að hæstv. heilbrrh. hefur reynst ríkisstjórninni þörf við að koma fram þeirri stefnu sem rekin hefur verið í gegnum árin.

Síðan sagði hæstv. utanrrh. að tillögur starfshópsins hefðu verið hafðar til hliðsjónar þegar verið var að ákveða hvernig þetta frv. ætti að líta út. Það finnst mér stórundarlegt og einkennilegt vegna þess að tillagan um lagafrv. er í skýrslu þessa starfshóps og ég sé ekki að stafkrók hafi verið breytt frá því sem í skýrslunni er og yfir í það þingmál sem hér liggur fyrir þannig að það hefur nú ekki aldeilis bara verið haft til hliðsjónar.

Ég verð að segja að mér finnst geðleysi stjórnarþingmanna með ólíkindum og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því, því ekki hafa það margir tekið til máls hér, að þeir séu allir á þeirri skoðun að það eigi að fara þá leið sem liggur fyrir í þessu þingmáli. Ég trúi því ekki. Mér finnst að það hljóti að koma á daginn að einhverjir hafi þó uppburð í sér til þess að láta ekki draga sig út í að fara þá leið sem hér stendur til að gera. Mér finnst ótrúlegt að meiri hluti sé fyrir þessu. Þetta er þannig mál. Ég held að menn hljóti að skoða samvisku sína vel í stjórnarliðinu um það hvort þeir eru tilbúnir til þess að standa að því að fara þessa vafasömu leið.

Það er t.d. alveg nýtt að menn séu tilbúnir að forsvara það að láta lög virka aftur í tímann. Ekki er deilt um það að Hæstiréttur hafi dæmt þetta sem mannréttindabrot og fyrningarleiðin sem hér er lögð til er líka býsna umdeilanleg. Ég ætla ekki að fara yfir það. Það hefur verið gert hér áður.

Hæstv. forsrh. hélt merkilega ræðu að mér fannst og hann minnti okkur á ýmislegt úr fortíðinni. Hann minnti okkur t.d. á Valdimarsmálið og benti á að menn hefðu lesið það með fleiri en einum hætti líka og síðan hafi fallið annar dómur í Hæstarétti. Hæstv. forsrh. var að hælast yfir því að honum hafi áður tekist að reka mál ofan í Hæstarétt. Og það læðist að mér sá grunur að hæstv. forsrh. a.m.k. ali með sér þær vonir að hægt sé að fá eitthvað annað út úr Hæstarétti en þennan dóm ef á þurfi að halda síðar og að við það sé átt.

Ég verð að segja líka að mér finnst að þingmálið sem hér liggur fyrir til umræðu sé eins og svolítið blandað einhvers konar hefndarhug. Það er ekki einleikið hvernig menn taka þarna á málum. Nú ætla ég að koma að atriði sem ekki hefur verið rætt, a.m.k. í þeim ræðum sem ég hef hlustað á hér.

[17:15]

Hvernig stendur á því að mönnum dettur í hug að setja þetta 2/3 skerðingarákvæði hvað varðar þær 25 þús. kr. sem hæstv. ríkisstjórn vill náðarsamlegast láta af hendi til að hækka grunnframfærslu örorkulífeyrisþega? Þessar 25 þús. kr. eru skertar svo naglalega að ég veit ekki til að það sé til önnur eins skerðing því að ef einhver öryrki hefur gegnum tíðina haft einhverjar tekjur, við skulum segja 30 þús. kr., þá eru teknar 20 þús. kr. af 25 þús. kr. Hvað er verið að segja við svona öryrkja? Það er verið að segja við hann: Vertu ekki að þessu basli, góði minn. Hættu þessu strax. Sú viðbót sem var verið að viðurkenna hérna náðarsamlegast að viðkomandi ætti að fá er bara tekin til baka af fyrstu 40 þús. kr. sem hann þénar gersamlega og svo bratt að ef hann þénar 30 þús. kr., þá eru farnar 20 þús. Þannig er skerðingin. Í hvernig skapi var það fólk sem samdi þetta og bjó til þá hugmynd sem er þarna sett á blað? Mér finnst þetta með miklum eindæmum.

Ég tel reyndar að ýmislegt muni fylgja í kjölfarið. Auðvitað verður umræða um ýmsa aðra hluti og ég ætla ekki að taka hana upp að öðru leyti en því að ég tel að ástæða sé til að vekja athygli á því að aldraðir munu auðvitað koma í kjölfarið á þessum dómum. Það getur ekki öðruvísi farið. Auðvelt er að rökstyðja það. Ef svo ætti ekki að vera þá þyrftu menn að breyta lögum um öryrkja og sjá til þess a.m.k. að þeir væru þá öryrkjar fram á dauðadag vegna þess að útilokað er að halda því fram að öryrki sem verður 67 ára gamall hætti að vera öryrki og það hætti að vera mannréttindabrot að skerða hann því hann fari þá á ellilífeyri og sé ekki lengur öryrki. Það gengur ekki. Það sjá allir menn. Ég held reyndar að það sé engin leið í málinu öðruvísi en að líta á þetta með sambærilegum hætti.

Það er eitt sem mig langaði til að fara yfir og það er að ítrekað hefur lítið komið fram í máli hæstv. ráðherra og hv. stjórnarliða að það verði að setja lög vegna þess að stjórnarandstaðan hélt því fram að ekki hefði þurft að setja lög til þess að greiða út þessar bætur um áramótin. Ég er alveg sannfærður um að það er réttur skilningur, það þurfti ekki lög til þess.

Ég ætla ekki að halda því fram að ekki geti verið möguleiki á því að það þurfi lög eða skynsamlegt sé að setja lög til að greiða það sem þarf að greiða aftur í tímann. Það finnst mér að menn geti skoðað og engin ástæða til að hengja sig í þá hluti sérstaklega. En hvað þarf til að sanna að ekki þurfi að setja lög til þess að greiða út 51 þús. kr.? Mér finnst ekki þurfa annað en benda á frv. sem hér er til umfjöllunar vegna þess að í því er ekki neitt ekki eitt einasta ákvæði, engin heimild af neinu tagi sem Tryggingastofnun hefði þurft á að halda, einungis verið að setja ný skerðingarákvæði. Ef þau væru ekki til staðar þá þyrfti að greiða öllum þessar 51 þús. kr. Mér finnst þetta alveg nægileg sönnun fyrir mig. Hún sannfærir mig um að ekki þurfi að setja nein lög. Ríkisstjórnin hefur staðfest það með því að leggja þetta frv. fram með þessum hætti og engin önnur ákvæði skulu vera í því en skerðingarákvæði.

Ég ætla ekki að lengja mikið umræður um hvað maður vildi heldur gera en fara að þessum dómi eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur gert í allan dag mönnum til skemmtunar. En ég vil bara benda á í því sambandi að auðvitað er hér verið að bregðast við dómi Hæstaréttar en það er ekki bara verið að því. Þetta mál snýst um viðurkenningu á réttindum og ekkert annað. Réttindin voru til staðar að dómi Hæstaréttar og búið er að dæma í málinu. Verið var að afnema skerðingu og það er ekki þannig að verið sé að bæta tekjur öryrkja með einhverjum nýjum ákvæðum. Í raun og veru er verið að afnema skerðingu sem þetta fólk varð fyrir aftur í tímann frá réttindum sem aðrir sambærilegir höfðu og þeir áttu að hafa samkvæmt dómi Hæstaréttar. Hvernig í ósköpunum er hægt að fara út um víðan völl með einhverri röksemdafærslu um hvernig megi nota peningana í eitthvað annað? Þetta er nánast ekki til þess að vera með miklar umræður um.

Það hefur verið á ferðinni mikið óréttlæti hvað þessi mál varðar í langan tíma og margir öryrkjar hafa þurft að sæta því að verða fyrir mikilli skerðingu og orðið að vera á framfæri þeirra sem þeir búa með og sá réttur hefur verið tekinn frá þeim sem þjóðfélagið hefur ætlað öryrkjum með almennum hætti. Hann er skertur og ég held að menn eigi að horfast í augu við þetta. Menn eiga ekki að vera að leita leiða til þess að fara fram hjá þessu. Það er spurning sem hv. Alþingi á að svara og í raun og veru hefur margoft komið fram svar við þeirri spurningu frá hæstv. heilbrrh. hve háar þessar bætur þurfa að vera. Hæstv. heilbrrh. hefur margsagt að þær þurfi að verða miklu hærri og það er spurning sem á að svara á hv. Alþingi. Ef það er niðurstaðan að menn séu sammála, hæstv. heilbrrh. og hæstv. forsrh. og aðrir aðilar, það eigi að koma fram frv. á næstunni til að hækka þessar bætur. Um hvað snýst þá deilan núna? Hún snýst ekki um neitt annað en það hvort eigi eftir að sú hækkun er komin þá líka að vera hægt að borga mismunandi bætur til öryrkja á þessum grundvelli og ég tel að hér hafi verið skorið úr því að það er ekki hægt. Menn verða að fara aðrar leiðir til tekjujöfnunar þjóðfélaginu en að skerða grunnréttindi öryrkja.

Hæstv. forseti. Það er svo sem margt sem hægt væri að tala um í sambandi við þetta mál. En ég ætla að ljúka mínu máli á dálítið dapurlegum kafla sem fjallar í raun og veru um hvernig mér finnst stjórnvöld í landinu vera farin að haga sér. Ég held að ýmsir af þeim sem eru við völd í landinu séu búnir að vera of lengi við stjórnvöld. Þeir hafa fyllst valdhroka þegar eitthvað gengur gegn þeim. Þegar þeir hafa lent í því að verða undir í dómum Hæstaréttar tala þeir jafnvel um að breyta stjórnarskránni af því að hún passar ekki við hugmyndir þeirra og þegar þar til bærir aðilar hafa kveðið upp úrskurði þá eru úrskurðirnir vitlausir. Svona hefur þetta nú gengið í þó nokkrum tilfellum sem hægt væri að telja upp en ég ætla að hlífa hv. þm. við því því að þessi umræða er orðin býsna löng en allt ber þetta að sama brunni. Menn virðast vera farnir að líta á sig sem einhvers konar óskeikul yfirvöld og það er ömurlegt að sitja undir því hvernig menn ganga fram. Það hefur sýnt sig að hæstv. forsrh. hefur t.d. beitt þrýstingi á Hæstarétt. Það muna allir. Það hefur komið mjög skýrt í ljós hvernig Sjálfstfl. hefur undanfarin mörg ár raðað fólki í fjölmiðla sem hann ræður yfir í krafti pólitískrar stöðu sinnar. Það hefur verið býsna sérkennilegt og mér hefur fundist allt að því grátbroslegt að hlusta t.d. á ríkisfjölmiðilinn sjónvarpið segja frá atburðum í Tékklandi undanfarna daga þar sem fréttamenn tóku sjónvarpsstöð og komu því til leiðar á nokkrum tíma að sá sem þar hafði verið skipaður með nákvæmlega sama hætti forstjóri eins og nú er gert á Íslandi sagði af sér og gafst upp í starfi sínu vegna mótmæla. Þetta er hluti af þróun sem ég sé fyrir mér að má ekki ganga lengra. Menn verða að fara að bregðast við. Hér hefur Sjálfstfl. heljartök á öllu fjölmiðlakerfinu í landinu og hann notar þau út í æsar og ég tel að það þurfi bara að fara að tala um þetta upphátt. Vel kann að vera að einhver haldi því fram að ekki sé málefnalegt að gera það. En það er hluti af því sem hefur verið að gerast og viðbrögð hæstv. forsrh. við dómum og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómum og úrskurðum að undanförnu eru á þá leið að þar eru á ferðinni menn sem sjá ekki bjálkann í eigin auga. Þeir eru ekki tilbúnir til þess að hlíta dómum. Það verður að fara og finna einhverjar leiðir fram hjá þeim og ekki má skerða valdið sem þeir telja sig hafa og eiga að hafa.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég el í brjósti mér þá von að hv. stjórnarliðar fari vandlega yfir málið og skoði samvisku sína og vegna þess að þeir hafa ekki margir talað í umræðunni þó hæstv. forsrh. héldi því fram að hér mundu verða raðir af stjórnarliðum til þess að berjast í umræðunni og fara vandlega yfir hlutina þá hefur það bara ekki gerst. Ég el þess vegna með mér þá von að þeir muni kannski ekki allir saman styðja það sem hér hefur verið lagt á borð þingmanna.