Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 17:27:48 (3955)

2001-01-18 17:27:48# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[17:27]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég kem upp til þess að mótmæla kröftuglega orðum hv. þm. Jóhanns Ársælssonar um þá gömlu mýtu að Sjálfstfl. hafi heljartök á fjölmiðlum landsins, sérstaklega ríkissjónvarpinu.

Í fyrsta lagi er það alveg makalaus árás á þá hæfu starfsmenn sem þar vinna að ætla þeim eitthvert ósjálfstæði í verkum þeirra, faglegri vinnu þeirra sem þar er. Maður hefur heyrt uppnefningar lon og don frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni: Bláskjár þetta og Bláskjár hitt. Eiga þingmenn Sjálfstfl. t.d. að fara að kalla hina merku og góðu fréttastofu útvarps rauðu línuna? Síður en svo. En síðan nefnir hv. þm. Jóhann Ársælsson eitt dæmi. Ég skal nefna annað um þessi heljartök Sjálfstfl. á fjölmiðlum á Íslandi.

Hefði Samfylkingin látið bjóða sér það að til að byrja með væri einn helsti fréttamaður Ríkisútvarps, hljóðvarps, í öryrkjamálinu, barn t.d. Péturs H. Blöndals eða Sigríðar Önnu Þórðardóttur? Hefði Samfylkingin setið róleg úti í horni og látið það yfir sig ganga? Ég held ekki. Þess vegna vísa ég svona makalausum árásum enn og aftur á meint heljartök Sjálfstfl. á fjölmiðlum algerlega á bug.