Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 17:59:21 (3960)

2001-01-18 17:59:21# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[17:59]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Margt fróðlegt kom fram í ræðu hv. þm., fyrrv. heilbrrh., sem lýsti sjónarmiðum sínum til þessa máls einnig í ræðu sinni árið 1993. Áður en ég vík að því vil ég forvitnast um það hjá honum hvað hann átti í raun við með ummælum sínum um skipan í Hæstarétt. Mér er ekki ljóst hvaða meining fólst í ummælum hans en það mátti skilja þau svo að hann væri að ýja að því að skipan dómara í Hæstarétt, miðað við núverandi fyrirkomulag, væri óeðlileg. En vegna þess að ummælin voru óljós þykir mér rétt að inna þingmanninn eftir því hvað hann átti í raun við.

En mig langaði að spyrja hv. þm. að því hvort hann hafi fallið frá þeirri skoðun sinni að það beri að tekjutengja bætur. Ég vil vitna í ræðu sem hv. þm. flutti í desember 1993 sem heilbrrh. þegar fjallað var um það mál sem hann hafði flutt og eru nú lög um almannatryggingar. Þingmaðurinn sagði, með leyfi forseta:

,,Í fyrsta lagi hafa menn bent á ákveðin réttlætisrök í því og spurt þeirrar áleitnu spurningar hvort það sé skylda samfélagsins að greiða bætur óháð efnum og aðstæðum bótaþegans. Svarið hefur að mínu mati verið í vaxandi mæli nei. Það eigi þvert á móti að líta til félagslegrar og fjárhagslegrar stöðu njótenda, þ.e. bótaþegans. Hinu er auðvitað heldur ekki að leyna að þegar að kreppir í samfélaginu og enn þá minna verður til skipta hjá ríkissjóði sem öðrum þá hafa menn auðvitað horft með meiri gaumgæfni á þessa leið.``

Þarna er þingmaðurinn að vísa til að þegar kreppir að í þjóðfélaginu sé réttlætanlegt að skerða þessar bætur. Ég get ekki skilið ummæli hans öðruvísi.