Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 18:03:42 (3962)

2001-01-18 18:03:42# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[18:03]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Þá liggur það fyrir að hv. þm. er enn þeirrar skoðunar að tengja eigi saman tekjur öryrkja og maka hans, eins og hann var árið 1993. Það liggur fyrir, herra forseti, bæði í því sem fram kom í þeirri ræðu og hann ítrekar hér að hann standi við það í einu og öllu.

Ég vil minna hv. þm. á að kjör öryrkja nú eru í raun betri en þau voru þá, þegar hann hafði tök á að hlutast til um þau. Frítekjumarkið er um 60% hærra og núv. heilbrrh. hefur stigið tvö skref til að draga úr tekjutengingunum. Það gerði hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson ekki meðan hann var heilbrrh. og birti þar með stefnu sína í þeim málum.

Ég undrast ummæli þingmannsins gagnvart Hæstarétti. Hann ýjar að því að dómar Hæstaréttar taki mið af því hvernig í þá er skipað. Hann ýjar að því að skipan hæstaréttardómara sé að einhverju leyti óeðlileg og taki mið af öðrum sjónarmiðum en eigi að gera. Ég spyr þá þingmanninn: Telur hann að dómar sem fallið hafa beri þess merki að skipan í Hæstarétt á undanförnum árum hafi verið óeðlileg? Hvaða dóma hefur þingmaðurinn til marks um það?