Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 18:29:20 (3966)

2001-01-18 18:29:20# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[18:29]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta er alltaf sama ræðan sem hv. þm. flytur hér og endalaust sömu tölurnar sem hv. þm. tyggur upp. Það er eins og gamaldags ryðguð hljómplata sem hoppar alltaf í sama farið aftur og aftur og fer með sömu hlutina. Kannski þýðir ekkert að fást um það að þetta sé svona, þessi talsmaður Sjálfstfl. í velferðarmálum eigi aðeins þessa einu ræðu og við fáum að heyra hana eins oft og þessi mál ber á góma.

Það sem hv. þm. virðist alls ekki geta gert er að horfa á þetta mál út frá stöðu viðkomandi einstaklinga. Hann tönnlast á því að þetta séu hátekjufjölskyldur og þvílíkt hneyksli að það eigi að láta þetta hátekjulið fá þessi ósköp. En um hvað er að ræða? Það er að ræða um öryrkja sem kerfið hefur leikið þannig að þeir hafa farið niður í 18 þús. kr. á mánuði í sinn eigin sjálfstæða fjárhagslega grundvöll. Öryrkjar sem engar aðrar tekjur hafa, hafa ekki möguleika til tekjuöflunar vegna þess að þeir hafa skerta eða enga starfsorku. Og þetta snýst um mannréttindi. Það er alveg með ólíkindum að heyra hv. þm. tala um þetta eins og það skipti engu máli að mannréttindi viðkomandi einstaklinga hafi verið dæmt í Hæstarétti. Ég segi bara: Öðruvísi mér áður brá. Hvar er nú allt ropið í sjálfstæðismönnum um að þeir séu alveg sérstakir varðstöðumenn um borgaraleg réttindi og mannréttindi? Hvar er það núna? Skilur hv. þm. þetta ekki? Þetta eru stjórnarskrárvarin mannréttindi þessa fólks.