Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 18:34:53 (3969)

2001-01-18 18:34:53# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[18:34]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Margar ræður hafa verið haldnar um þetta mikilvæga mál og má vera að einhverjum stjórnarliða finnist það að bera í bakkafullan lækinn að enn einn stjórnarandstæðingurinn komi upp til að tjá skoðanir sínar á þessu máli. Ég ætla samt sem áður að gera það þó ég vilji jafnframt láta það fylgja að þeir hv. þm. stjórnarandstöðunnar sem nú þegar hafa talað í þessari umferð hafa gert afstöðu okkar til málsins greinargóð skil. Hins vegar eru nokkur atriði sem mig langar til þess að víkja aftur að í þessari umræðu.

Fyrst er að telja dóm Hæstaréttar, úrskurðinn um grunnframfærsluna. Þetta virðist hafa vafist býsna mikið fyrir mörgum stjórnarliðunum, fylgismönnum ríkisstjórnarinnar. Hins vegar er þetta í sjálfu sér einfalt mál sem snýst um frelsi einstaklingsins, um mannlega reisn, bætta stöðu öryrkja sjálfra og stöðu þeirra innan eigin fjölskyldu. Þetta eru grundvallarmannréttindi, herra forseti, svokölluð félagsleg mannréttindi sem eru í samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, lög þess og þá alþjóðasamninga sem við erum aðilar að. Þeir liggja m.a. til grundvallar dómi Hæstaréttar eins og þingheimur veit vel.

Af þessu máli má kannski helst draga þann lærdóm að mannréttindi eru raunveruleg. Þau eru ekki bara falleg orð á pappír sem stundum hentar að grípa til og stundum ekki. Í þessu máli eru þau svo gott sem áþreifanleg, herra forseti. Ég hef reynt að skilja hvernig fylgismenn ríkisstjórnarinnar komust að þeirri niðurstöðu að hér væri um tekjujafnandi dóm að ræða eða tekjujafnandi mál. Þeir hafa þá kannski kynnt sér málatilbúnað Öryrkjabandalagsins nógu vel. Þeir hafa kannski ekki gert sér fulla grein fyrir því hvers vegna var stefnt. Ég ætla mér hins vegar ekki þá dul að reyna að skilja hvað fer fram í hugarfylgsnum annarra í þessum sal. En dómurinn snýst auðvitað um tekjutenginguna og við tekjutryggingu öryrkjans.

Það sem mikilvægast er að hafa í huga í þessu máli, herra forseti, er að hér er um einstaklingsbundin mannréttindi að ræða. Ekki er síst mikilvægt að hafa í huga að málið er þrælkvennapólitískt. Mig langar að benda hv. þm. á stutta en jafnframt góða grein í Degi í dag eftir Kristínu Halldórsdóttur, sem sat hér á þingi árum saman. Þeir sem efast um að á þessu sé kvennapólitískur vinkill ættu að lesa þessa grein og ég efast ekki um að þeir muni sjá þau tengsl við þann lestur. Það er einu sinni þannig að tekjutengingin eins og hún hefur verið framkvæmd hefur komið verst niður á konum. Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga í þessu samhengi. Þær breytingar sem orðið hafa í réttarfari okkar og á stjórnarskrá lýðveldisins hafa ekki síst miðað að því að tryggja jafnrétti og jafna stöðu þegnanna.

Það er merkilegt að þegar konur eru annars vegar þá er það enn þannig á Íslandi að telja þarf hverja einustu krónu og hvern einasta eyri. Það þurfti ekki þegar við settum lögin um fæðingarorlofið þegar feðrum var tryggður sjálfstæður réttur. Þá spurði enginn hér inni þeirrar spurningar. Mér finnst það býsna merkilegt, herra forseti, að í upphafi nýrrar aldar séu Íslendingar enn að telja krónur og aura ofan í fátækustu konur á Íslandi. Það er ekki mikil reisn yfir því.

Vinnubrögð, herra forseti, viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dóminum einkennast aðallega af ósvífni. Það orð hefur verið notað oft við þessa umræðu. Það er ekki orð sem ég tek mér oft í munn og sérstaklega ekki í þessum sal. Hvernig hefði það nú verið ef stjórnvöldum hefði dottið í hug að hafa samráð við þá sem unnu málið í Hæstarétti? Það má alveg ímynda sér að þá væri ríkisstjórnin ekki, þó svo ég hafi ekki miklar áhyggjur af afdrifum hennar, í þeim vondu málum sem hún er í í dag. Þeim datt það ekki í hug en náðu í sérlega ráðgjafa sína og settu saman sérstakan hóp. Um það hefur hins vegar svo oft verið talað að ekki þarf að fara nánar í það hér.

Síðan vil ég velta fyrir mér málflutningnum, ekki síst þeirri síbylju sem hefur skollið á okkur hér í stjórnarandstöðunni um að við og Öryrkjabandalagið, allir held ég nema Sjálfstfl. og Framsfl., hafi vakið falskar vonir öryrkja á Íslandi með umræðunni um þennan dóm. Því er haldið fram að við berum ábyrgð á því að nú haldi allir öryrkjar á Íslandi að þeir muni fá mikla hækkun. Ég held, herra forseti, að það fólk sem þiggur örorkubætur af ríkinu viti best sjálft hvort þessi dómur á við það eða ekki og viti það best sjálft hversu góðar eða slæmar tekjur það hefur. Við getum ekki kastað ryki í augu almennings hvað þetta varðar. Það hefur líka komi í ljós í málflutningi stjórnarliða að þeir hafa ekki getað nefnt eitt dæmi um svokallaðan svakalega málflutning okkar. Þessar ásakanir eru gjörsamlega úr lausu lofti gripnar.

En það er fleira úr lausu lofti gripið í þessu máli, herra forseti. Hvaðan koma 43 þús. kr. títtnefndu? Hvernig voru þær reiknaðar? Veit það einhver? Í þessari umræðu hef ég ekki heyrt, herra forseti, neinn hv. þm. svara því. Þær voru gripnar úr lausu lofti, eða hvað? Það skyldi þó ekki vera, því nú hafa sumir stjórnarliðar sakað stjórnarandstöðuna um að nýta sér þetta mál til þess að þjóna tímabundnum hagsmunum sínum, að 43 þús. kr. þjónuðu tímabundnum hagsmunum Framsfl. og Sjálfstfl. þar til annað kemur í ljós, þar til nefndin skilar? Ég veit auðvitað ekkert um það á þessari stundu en það verður fróðlegt að fylgjast með því hvað verður um krónurnar 43 þús. í framhaldinu.

Líklega leggjast þó stjórnarliðar hvergi eins lágt í málflutningi sínum og þegar þeir gera því skóna að með því að tryggja grundvallarmannréttindi ákveðins hóps öryrkja séu um leið minnkaðir möguleikar til að bæta kjör annarra í þeim hópi --- kakan stækkar ekki eins og sumir þingmenn Sjálfstfl. hafa orðað það. Samt sem áður hafa framsóknarmennirnir og sjálfstæðismennirnir sem hér hafa talað tekið svo til orða að dómur Hæstaréttar knýi ríkisstjórnina til þess að huga að öðrum þáttum almannatryggingakerfisins. Þar er líklega komið að kjarna málsins.

Þessi dómur hefur ef eitthvað er afhjúpað stefnu ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. gagnvart öryrkjum. Á þetta hefur Samfylkingin margoft bent og flutt um það þingmál sem hér eru til umfjöllunar og í nefndum. Hið merkilega við þennan dóm er að þessi afhjúpun veldur því að hvert einasta mannsbarn í samfélaginu sem hefur kynnt sér þetta sér hver sú stefna hefur verið á liðnum árum. Hvernig ríkisstjórn sem hefur verið hér í blússandi efnahagslegum uppgangi á síðustu árum hefur nýtt það fé til að greiða bætur til þeirra sem mest þurfa á þeim að halda.

Það er mjög gleðilegt, herra forseti, að dómurinn skuli verða til þess að allir Íslendingar geri sér grein fyrir því hver stefnan hefur í raun verið undanfarin ár. Stundum mætti halda að stjórnarliðar hér inni búi ekki í sama samfélagi og við hin þegar um þessi mál er talað.

Áður en ég lýk máli mínu langar mig bara til að minna hv. þm. á að það er aðeins einn stjórnmálaflokkur á Íslandi sem hefur ályktað á landsfundi sínum um að fella niður allar tekjutengingar. Það er Sjálfstfl. Það væri kannski hollt fyrir sjálfstæðismenn að hafa það í huga í ljósi málflutnings þeirra hér í dag og í gær. Hvernig rímar þetta allt saman, herra forseti?

Ljóst er að dómur Hæstaréttar í máli Öryrkjabandalags Íslands gegn ríkinu markar tímamót í sögu mannréttindabaráttu á Íslandi, ekkert minna en tímamót. Mig langar í lokin, herra forseti, að lesa hér upp nokkrar línur úr ávarpi Öryrkjabandalags Íslands á degi fatlaðra 3. des. 1998 sem birtist þá m.a. í Morgunblaðinu, með leyfi herra forseta:

,,Sú öld sem nú er senn á enda var í upphafi öld sjálfstæðisbaráttu. Síðar tóku við verkalýðsbarátta og loks kvenfrelsisbarátta. Þótt enn megi bæta um betur á öllum þessum sviðum blasir við að mannréttindi öryrkja verða eitt stærsta málefnið sem stjórnmálamenn næstu ára þurfa að takast á við, kynna sér og taka afstöðu til. Þá mun til þess verða tekið hverjir það verða sem fyrstir ganga fram fyrir skjöldu og þegar upp verður staðið munu sagnfræðingar halda því til haga hvað hver og einn gerði og hvað hann lét ógert.``