Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 19:45:08 (3979)

2001-01-18 19:45:08# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[19:45]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst afskaplega hvimleitt þegar hv. þm. talar um það aftur og aftur að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hafi veist að kjörum þessa fólks. Hver hefur komið þannig fram? Hver hefur talað þannig hér á Alþingi? Ég kannast ekki við það. Það er einhver hugarburður hjá hv. þm. sem virðist líta á alla sem styðja ríkisstjórnina sem óvini þessa fólks. Það er undarlegt hugarfar.

Það er ljóst að nauðsynlegt er að bæta kjör þessa fólks og það hefur verið gert á undanförnum árum. Ég minni á að á sl. árum hefur tvívegis verið dregið úr tekjuskerðingu öryrkja sem búa í hjónabandi. Það var ekki gert öll árin þar á undan, ekki neitt og þegar flokkur hennar, hún að vísu studdi Framsfl. á þeim árum, kannski þess vegna, ég veit það ekki, en þegar sá flokkur var í ríkisstjórn sem hún styður núna var engu breytt, ekki stafkrók. Því eru þetta undarlegar ræður sem haldnar eru yfir þeim sem styðja núverandi ríkisstjórn, að við viljum ekkert lagfæra og séum ekkert að gera. Það er hreinlega rangt og þetta veit hv. þm. og ætti að sjá sóma sinn í að tala öðruvísi um þá sem berjast fyrir því að bæta þessi kjör, ekki síst hæstv. heilbrrh. sem hv. þm. hefur gert sér far um að tala um sem ráðherra sem vilji ekki bæta kjör þessa fólks, sem er alrangt.