Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 19:49:27 (3981)

2001-01-18 19:49:27# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[19:49]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það má vel vera að hv. þm. sé farinn að skilja hugarheim minn og er það vel. En eitthvað fannst mér skilningurinn vera takmarkaður samt því að hv. þm. sagði að ég kynni ekki að jafna nema í aðra áttina. Ég held að maður sem kann að jafna í aðra áttina hljóti að kunna að jafna í hina áttina. Mér finnst það vera eins og maður sem gengur á leiðarenda en getur ekki snúið við og kann ekki að ganga til baka, þannig að mér finnst út í hött að vera að koma með það að ég kunni þetta ekki.

Hins vegar eru tvær leiðir til að jafna kjör öryrkja í sambúð. Það er annars vegar að hækka lágmarkið og hins vegar má líka hugsa sér að nota svigrúmið til að hækka frítekjumarkið. Það er það sem við höfum verið að gera. En að halda því hér fram eins og hv. þm. sagði að það væru aðrar bætur, hann nefndi heimilisuppbót og sérstaka heimilisuppbót sem geta orðið eitthvað rúmlega 24 þús. kr. en eiga eingöngu við um einstaklinga. Þessar bætur eiga ekkert við um fólk í hjónabandi eða sambúð þannig að það á ekki við og er ekki rétt hjá hv. þm.

Út af Gauki Jörundssyni, þá var ég ekki að draga hann á nokkurn hátt til ábyrgðar. Gaukur Jörundsson er afskaplega hæfur lögfræðingur á sviði mannréttinda og ég er alveg viss um að honum finnst það ekkert slæmt þó að það sem hann hefur sagt um þetta mál sé dregið inn í umræðuna. Það stendur. Og þó að dómur Hæstaréttar sé fallinn með öðrum hætti, þá þarf ekki að líta svo á að það sem Gaukur Jörundsson sagði á sínum tíma sé endilega rangt.