Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 19:51:44 (3982)

2001-01-18 19:51:44# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[19:51]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það sem mér finnst ekki mega gera er að taka umfjöllun í tveimur úrskurðum umboðsmanns Alþingis sem féllu um þetta mál með tíu ára millibili, 1998 og tíu árum fyrr, 1988, þar sem niðurstaðan er í báðum tilvikum, svo rétt ég man hana sérstaklega, sú að gagnrýnd er sú framkvæmd sem við lýði hafi verið sökum þess að hún styðjist ekki við skýra lagastoð. Með því finnst mér fjarri lagi að túlka megi það svo að í reynd felist í því einhvers konar samþykki við tekjutengingunni og skerðingunni. Að því leyti til mætti álykta að Gaukur Jörundsson hefði komist að annarri niðurstöðu en meiri hluti Hæstaréttar gerði nú. Það tel ég bara alls ekki hægt að gera.

Varðandi það að jafna bara í aðra áttina, þá hefur hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem ég ætla ekki að fara að gera hæstv. utanrrh. ábyrgan fyrir, nóg er nú samt, talað hér af miklum þrótti um að þetta sé andstætt jöfnunarsjónarmiðum að grunnréttur þessa hóps öryrkja í samfélaginu hækki upp í t.d. 51 þús. kr. Það sem við erum að benda á um leið og við fögnum því að stjórnarskrárvarin réttindi þessa hóps eru þó a.m.k. þau að þetta fólk eigi að hafa sjálfstæða afkomu sem þessu varðar. Auðvitað kemur þetta þá inn í tekjur þessara fjölskyldna og inn í heildarsamhengi kjarajöfnunaraðgerða í þjóðfélaginu. Og úrræðin til þess að tryggja síðan kjarajöfnun í gegnum skattkerfið, gegnum velferðarkerfið, fjármögnun þess og ótal margar aðrar leiðir eru ærin og næg. Sé í þeim tilvikum um að ræða hátekjufjölskyldur þar sem annar er öryrki og fær nú þessar bætur upp á 51 þús. og væri beitt aðgerðum eins og t.d. þrepaskiptum tekjuskatti sem færi stighækkandi eftir því sem skattlagðar tekjur samanlagðar ykjust, þá eru ærin úrræði til að beita tekjujöfnun í þann endann og erum við þá að jafna upp á við en ekki niður á við.