Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 19:58:31 (3985)

2001-01-18 19:58:31# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[19:58]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef tekið eftir því að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson talar aftur og aftur um það sem hann kallar lagatæknileg atriði. Eru lögin í landinu bara eitthvert tæknilegt atriði? Er þetta lögfræðingur sem talar þannig um lögin?

Ég hef litið svo á að það bæri að fara að lögum og það er það sem við erum að gera. Við erum að fara að lögum um þetta mál. Það er aðalatriðið. Ég tel að við eigum að fara að réttum lögum og það erum við að gera. Ef menn vilja gera eitthvað meira, þá er það pólitík og ef Alþingi vill gera eitthvað meira, þá getur Alþingi að sjálfsögðu tekið þá pólitísku ákvörðun að rétt sé að fara lengra aftur í tímann vegna þess að um mannréttindabrot sé að ræða eins og hér er nefnt. Og er það mannréttindabrot þá ekki miklu lengra aftur í tímann? Breyttust mannréttindi á Íslandi svona mikið við stjórnarskrána 1995? Ég kannast ekki við það. Ég var í því að undirbúa þetta frv. og ég kannast ekki við að einhver feiknaleg umræða hafi verið, einhverjar gífurlegar breytingar á mannréttindum á Íslandi. Ef menn vilja taka þá pólitísku ákvörðun að fara lengra aftur í tímann, af hverju þá þrjú ár til viðbótar? Það skil ég ekki. Ef lögin segja fjögur ár, þá er hitt pólitísk ákvörðun og ég tel að pólitíkin hafi verið ákveðin 1993 með þessu frv. sem reyndist svona vitlaust og vanhugsað og eitthvað hefur þurft að laga, en það eigi ekki að vera einhver endapunktur í því hvað menn vilji þá bæta það sem menn kalla mannréttindi langt aftur.