Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 20:19:19 (3990)

2001-01-18 20:19:19# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[20:19]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er lagt til að vísa til nefndar frv. sem stríðir gegn stjórnarskrá Íslands og gengur á svig við skýra niðurstöðu hæstaréttar landsins sem fékk það verkefni að skera úr um það hvort heimilt væri, með tilvísun til tiltekinna ákvæða í almannatryggingalögum, að skerða tekjutryggingu öryrkja vegna tekna maka hans eða hennar. Þessi tekjutrygging er samkvæmt gildandi lögum 32.566 kr. Samkvæmt þessu frv. er hún færð niður í 25 þús. kr. Niðurstaða Hæstaréttar Íslands er afdráttarlaus. Þessi skerðing er óheimil, enda ber að líta á þessa tekjutryggðu fjárupphæð sem einstaklingsbundinn stjórnarskrárvarinn rétt.

Hér er fjallað um mannréttindi. Við munum ekki veita brautargengi frv. sem brýtur í bága við úrskurð Hæstaréttar Íslands og hefur að engu stjórnarskrárvarin mannréttindi.