Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 10:43:58 (3999)

2001-01-22 10:43:58# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[10:43]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. ,,Leysa úr álitaefnum``, segir hv. þm. Það er vonandi ekki álitamál enn að kjör öryrkja eru afar bágborin og kjör lífeyrisþega yfir höfuð. Það er því bara fyrirsláttur að bíða þurfi fram í miðjan apríl til þess að bæta kjör þeirra. Fyrir þinginu liggja margvíslegar tillögur, meira að segja frá stjórnarandstöðunni, sem hægt væri að vinda sér strax í að skoða, sem m.a. lúta að því að bæta lífeyrisþegum upp þann mismun sem orðið hefur á kjörum þeirra og annarra hópa í þjóðfélaginu vegna þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur gripið til vegna þess að hún hefur ávallt þegar hún hefur verið að bæta kjör öryrkja miðað við það lægsta viðmið sem hún hefur fundið og miðar þar við neysluvísitölu þó hún eigi að miða kjör þeirra við launavísitölu samkvæmt lögum sem samþykkt voru 1998. Þar er enn eina ferðina verið að brjóta á lífeyrisþegum.

Þess vegna er afar sérstætt að það skuli þurfa að bíða í tvo til þrjá mánuði enn með að bæta kjör þessara hópa.