Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 12:14:40 (4025)

2001-01-22 12:14:40# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[12:14]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Frá því að viðbrögð hæstv. ríkisstjórnar komu fram við dómi Hæstaréttar í máli öryrkja og eftir að frv. var kynnt hafa viðbrögð við því verið mjög á einn veg. þ.e. meiri hluta þeirra sem hafa tjáð sig bæði í máli og eins í ritmáli telur að með frv. sé verið að ganga gegn dómi Hæstaréttar. Svo er einnig samhljóma álit allra launþegasamtakanna sem hafa ályktað gegn því frv. sem við tökumst nú á um í annað sinn og í því frv. sem er um breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum, sem er svar hæstv. ríkisstjórnar við dómi Hæstaréttar í því umdeilda máli um málefni öryrkja, nr. 125/2000.

[12:15]

Ég vil halda því fram að svör stjórnarandstöðunnar séu mjög skýr og samhljóma. Þau voru skýr við 1. umr. þessa máls og ég vil halda því fram að nál. það sem nú hefur verið mælt fyrir sé einnig mjög skýrt og vil ég þakka hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur fyrir að hafa farið hér mjög vel yfir nál.

Vissulega hefur stjórnarandstaðan komist að sömu niðurstöðu og túlkað dóm Hæstaréttar á sama hátt og Öryrkjabandalagið og fjölmargir aðrir. Við erum þó ekki hér að túlka sjónarmið Öryrkjabandalagsins. Við erum að túlka okkar eigin sjónarmið á niðurstöðu dómsins. Það hafa launþegasamtökin einnig gert. Þegar þau komu saman fyrir nefndina og gerðu grein fyrir sínum ályktunum og skoðunum í þessu máli þá ítrekuðu þau mjög að þau væru ekki að koma sem sérstakir stuðningsmenn Öryrkjabandalagsins, þau væru að koma á sínum eigin forsendum vegna þeirrar niðurstöðu sem þau sjálf hefðu komist að með því að fara yfir dóminn, þetta væri þeirra skoðun sem vissulega styrkti sjónarmið Öryrkjabandalagsins.

Með leyfi hæstv. forseta, vil ég fá að lesa upp eina ályktun sem getur verið samhljóma fyrir aðrar ályktanir sem hafi komið frá launþegasamtökunum. Hún er frá Alþýðusambandi Íslands:

,,Miðstjórn Alþýðusambands Íslands skorar á ríkisstjórnina að virða undanbragðalaust niðurstöðu æðsta dómstóls landsins í máli Öryrkjabandalags Íslands gegn Tryggingastofnun ríkisins. Miðstjórn ASÍ styður öryrkja í baráttu þeirra fyrir að fá greiddar óskertar bætur í samræmi við dómsniðurstöðuna strax frá 1. janúar sl.

Miðstjórn ASÍ telur óumflýjanlegt að ráðast í endurskoðun tekjuskatts- og bótakerfisins og að í þeirri vinnu verði m.a. tekið mið af efnisatriðum dóms Hæstaréttar. Alþýðusamband Íslands hefur áður lagt áherslu á að tekjujöfnunaráhrif skattkerfisins verði aukin. Í tengslum við kjarasamningana sl. vetur gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um að farið yrði í ítarlega könnun á kostum og göllum fjölþrepatekjuskatts. Þrátt fyrir eftirrekstur bólar ekkert á því starfi. Þá hefur ASÍ farið fram á þátttöku í yfirstandandi vinnu við endurskoðun almannatrygginga og samspil þeirra við skattkerfið og lífeyrissjóðina en án árangurs hingað til.

Sú staða sem upp er komin vegna dóms Hæstaréttar og það uppnám sem hann virðist hafa valdið hjá stjórnvöldum staðfestir enn og aftur nauðsyn þess að vinna við endurskoðun tekjuskatts- og bótakerfisins verði hafin þegar í stað í samræmi við loforð ríkisstjórnarinnar. Alþýðusamband Íslands lýsir sig, eins og jafnan fyrr, reiðubúið til samstarfs við stjórnvöld um þessi mál.``

Þetta er nokkuð ítarlegri ályktun, herra forseti, heldur en hefur komið frá öðrum launþegasamtökum þar sem eingöngu hefur verið fjallað um dóminn sem slíkan. En í þá vinnu sem hér hefur verið vitnað til um endurskoðun á samspili lífeyrissjóðsgreiðslna og skatta á víst að fara og vonandi verður það efnt að þessu sinni.

Samstaða verkalýðshreyfingarinnar virðist mér vera alveg einstök, hún er þétt, því þó að dómurinn eigi við um afmarkaðan hóp þá er hann fordæmi fyrir alla Íslendinga. Hann er fordæmisgefandi vegna þess að hann fjallar um mannréttindi. Hann tekur fyllilega tillit til jafnréttissjónarmiða Öryrkjabandalagsins og launþegasamtökin sem og aðrir líta það mjög alvarlegum augum ef ekki verður farið að dómnum því að það er atlaga við lýðræði í landinu.

Dómur Hæstaréttar er tímamótadómur því í þessum dómi er farið út fyrir þrengstu lagatúlkun í íslenskri löggjöf og dæmt er út frá anda stjórnarskrárinnar og alþjóðlegum samningum sem við eigum aðild að. Sömuleiðis er litið til þeirrar þróunar sem er hjá alþjóðlegum dómstólum. Dómurinn er framsækinn, þ.e. hann er um félagsleg mannréttindi.

Dómurinn fjallar um lítinn minnihlutahóp. Það er óréttlát mismunun hjá þessum hópi eftir hjúskaparstöðu og það er óheimilt að mismuna með þeim hætti sem gert er samkvæmt núgildandi lögum að mati hæstaréttardóms. Dómsniðurstöðurnar eru skýrar. Það er óheimilt að skerða tekjutryggingu vegna tekna maka. Um þetta atriði fjallar dómurinn. Það ber að greiða öryrkjum í sambúð það sama og þeim sem eru einhleypir að því er þetta varðar, þ.e. þetta er persónubundinn, stjórnarskrárbundinn réttur.

Dómsorðiðer hið sama og dómskröfur og í málflutningi var alltaf ljóst að málið væri annaðhvort af eða á, þ.e. annaðhvort yrði fallist á kröfurnar eða ekki. Og það var fallist á kröfurnar, herra forseti. Því þurfti dómsorðið ekki að vera skýrari en það er. Það sagði allt sem segja þurfti miðað við kröfur Öryrkjabandalagsins. Því voru viðbrögð forstöðumanns Tryggingastofnunar ríkisins eðlileg þegar hann lýsti því yfir strax eftir dómsúrskurðinn að ekkert væri því til fyrirstöðu að greiða þeim hópi öryrkja sem dómurinn fjallaði um óskertar bætur strax núna 1. janúar, þ.e. sama grunnlífeyri og tekjutryggingu og þeim sem ekki eru í sambúð. Þetta eru nú um 51 þús. kr. Af skiljanlegum ástæðum þyrfti lengri tíma og að settum reglum að greiða til baka vangoldnar bætur.

Um þetta tjáði forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins sig strax eftir að dómur Hæstaréttar féll og hann staðfesti þetta, eins og fram kom í máli hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur, á fundi nefndarinnar, að undir þetta hefðu þau verið búin. Það hefði þurft mjög skamman tíma til að ganga frá reglugerð sem tæki út tekjuskerðinguna og greiða þeim sem eru á örorkubótum í dag og eru í hjúskap óskerta tekjutryggingu. Þetta væri lítið verk með nútímatækni þrátt fyrir mjög lélegan tölvukost stofnunarinnar, eins og einnig kom fram hjá nefndinni að gerði starfsemi stofnunarinnar erfitt fyrir. En þrátt fyrir það hefðu þeir getað gert þetta. Hitt hefði svo verið annað mál að það hefði tekið lengri tíma að gera upp málið til enda og fara yfir bætur til þeirra sem ekki voru þegar á skrá. En til þessa afmarkaða hóps sem dómurinn fjallaði um hefði þetta ekki verið erfitt.

En það voru fleiri sem túlkuðu dóm Hæstaréttar á sama veg, hæstv. forseti, því að í Kastljósi þann 10. jan. sl. var viðtal við Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmann, sem telst talsmaður starfshóps ríkisstjórnarinnar. Í upphafi viðtalsins eða í sjónvarpsþættinum þar sem hann er spurður að því hvort ríkisstjórnin ætli ekki að fylgja dómi Hæstaréttar, svarar Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður, með leyfi hæstv. forseta:

,,Kannski áður en ég geri það þá vildi ég nú byrja á því að óska starfsbróður mínum til hamingju með þennan dóm því að óneitanlega var þetta mikill sigur fyrir hann og sjónarmið sem að hann hefur fært fram. Ég er að vísu alveg ósammála dómsniðurstöðunni lögfræðilega en óska honum til hamingju. Þetta var mikill sigur.``

Svo heldur hann áfram:

,,Ég vil segja það að verkefni okkar í þessari nefnd var auðvitað bara það að greina það á lögfræðilegum forsendum hvað fólst í þessum dómi og það leitumst við við að gera með okkar skýrslu þar sem lögfræðilegar röksemdir eru færðar auðvitað fyrir öllum niðurstöðunum. Það var ekkert fyrir fram ákveðið.``

Ég get ekki skilið orð Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns öðruvísi en svo að hann hafi verið sammála niðurstöðu dómsins. Það vantaði eingöngu hin lögfræðilegu rök og útskýringar hvernig ætti svo að túlka hann. Um það höfum við nú tekist á og um það er ágreiningurinn.

Það er vissulega mikill ágreiningur meðal lögmanna og það kom fram hjá þeim lögmönnum sem komu í heimsókn til heilbr.- og trn. En ágreiningur þeirra var mismunandi og ekki alltaf á sömu forsendum þannig að við skulum varast að segja að það sé einróma álit lögfræðinga að túlka beri dóminn á einhvern annan hátt en Öryrkjabandalagið gerir.

Það kom líka mjög skýrt fram hjá þeim lögfræðingum sem komu á fund heilbr.- og trn. að það er pólitísk ákvörðun hvernig dómurinn er túlkaður og það fer eftir því hvaða pólitísku gleraugu maður setur á nefið á sér. Það er málið. Það kemur mjög skýrt fram í skipan starfshóps ríkisstjórnarinnar og eins í ummælum hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar í Kastljósi 28. des.

Með leyfi forseta vil ég vitna í innlendar fréttir þar sem kemur fram:

,,Davíð Oddsson forsætisráðherra telur að sá hluti dóms Hæstaréttar, þar sem segir að skerðingarákvæði tekjutengingar við maka öryrkja samræmist ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, sé frekar tilvísun í pólitískar hugmyndir en lögfræðileg rök. Sú niðurstaða hljóti að vekja undrun lögfræðinga. Davíð segir dóminn í heild afar athyglisverðan.``

[12:30]

Síðar segir, með leyfi forseta:

,,Forsætisráðherra segir það sömuleiðis athyglisvert að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar skuli vera notuð til að mæla borgurum önnur réttindi en löggjafinn hafði gert. Við það vakni sú spurning hvort virkilega hafi verið verið ætlun stjórnarskrárgjafans að færa lagasetningar- og fjárstjórnarvald frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum á Alþingi til dómstóla.

,,Hafi það verið ætlunin hafa þarna átt sér stað grundvallarbreytingar á valdahlutföllum milli Alþingis og dómstóla þar sem dómarar, sem ekki eru lýðræðislega kjörnir, eru komnir með ígildi lagasetningar og fjárstjórnarvalds á ákveðnu sviði og þar með sokknir á bólakaf í hinar hefðbundnu skylmingar stjórnmálanna. Það er einmitt það sem mér finnst hafa gerst í þessu máli,`` segir Davíð. Hann segir ríkisstjórnina þurfa að skoða málið en heilbrigðisráðherra hefur farið fram á ríkisstjórnarfund í dag.``

Mér finnst þessi ummæli lýsa því sem speglast í átökum hér í þingsalnum, pólitísk gleraugu eru sett upp og því er eðlilegt að tekist sé á um málið.

Í þeim ummælum sem hafa fallið hefur verið bent á að Hæstiréttur hafi ekki verið fullskipaður við þennan dóm og klifað á því að þrír lögmenn komust að þeirri niðurstöðu, þrír lögmenn gerðu þetta, og síðan vitnað til þeirra tveggja sem skiluðu séráliti. Mér finnst, herra forseti, gert lítið úr dómi Hæstaréttar. Dómur er dómur og eftir honum ber okkur að fara.

Mikið hefur verið vísað til aðfaraorða dómsins. Nú er ég ekki lögfræðingur, það þarf varla að taka það fram, en að hlusta á mál þeirra lögfræðinga sem komu inn á fund heilbr.- og trn. og það tungumál sem lögfræðingar nota sín á milli getur orðið venjulegri manneskju allt að óskiljanlegt og virkar trúlega á mig eins og þá sem koma inn á sjúkrahús og hlusta á mál sem sérfræðinganna sem þar tala, óskiljanlegt oft og tíðum. En það var þetta orðalag í aðfaraorðunum ,,á þann hátt sem gert er`` sem kemur fyrir aftur og aftur, sem greinilegt er að hangið er á til að finna leiðir til að túlka dóminn eins og við gerum og Öryrkjabandalagið og fleiri gera. En með dómnum, sem er skýr og þarf ekki neinna útskýringa við af því hann vísar beint í kröfugerðina, þá er Hæstiréttur að vísa til þess enn og aftur að óheimilt sé að skerða tekjutryggingu öryrkja með því að miða hana við tekjur maka. ,,Á þann hátt sem gert er`` á við aðferðina, þ.e. að skerða og miða við tekjur maka, en ekki er verið að vísa til upphæðarinnar, það er löggjafans að gera. En með þessari aðferð hafa þessi orð verið dregin út úr aðfaraorðum dómsins, tekin úr samhengi og notuð til þess að gera dómsorðin óljós, þ.e. notaðar eru lögfræðilegar röksemdafærslur til að styðja túlkun ríkisstjórnarinnar. Að mínu áliti er ljóst að megintilgangur túlkunarinnar er að finna leiðir til að komast hjá því að yfirfæra dóminn yfir á aðra lífeyrisþega.

En eins og ég sagði er ákvörðun um upphæð lífeyris hjá löggjafanum og vísar dómurinn til þess að löggjafinn verði að ákveða lágmarksframfærslugrunn. Það hefur hann gert með því að ákveða lágmarkslífeyri til einhleypra öryrkja, þ.e. 51 þús. kr. Það er sú viðmiðun sem á að fara eftir samkvæmt dómnum. Því er alveg ljóst að samkvæmt frv. er verið að lækka grunnlífeyri öryrkja í sambúð um 8 þús. kr. á mánuði.

En ég vil rökstyðja það að mér finnst dómurinn einnig vísa til ellilífeyrisþega, þar sem reglugerðin sem felld var úr gildi náði einnig til þeirra. Þar segir aftur á móti ekkert um þá upphæð sem tekjutrygging ellilífeyrisþega ætti að vera. Samkvæmt dómnum á að mínu mati að vera sama tekjutrygging hjá þeim sem er einhleypur og þeim sem er í sambúð, þ.e. að tekjutryggingin eigi ekki að skerðast vegna tekna maka en það segir ekki um upphæðina, ekki hvað varðar þann hóp.

Því segi ég að í mínum huga er það alveg skýrt að hér er um mannréttindabrot að ræða. Réttindabrot sem búið var að benda á og reynt að fá leiðrétt í sjö ár eða frá því skerðingin var sett án lagastoðar. Því gilda hvorki þær fyrningarreglur sem settar eru í tryggingalöggjöfinni, né heldur í lögum nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, þar sem er að finna það ákvæði um kröfur um að gjaldkræfur lífeyrir fyrnist á fjórum árum. Hér gilda því tíu ára fyrningarreglur vegna réttindabrota. Eftir væri þá að ákveða vexti þau sjö ár sem skerðingin hefur viðgengist.

Hér hefur verið farið mjög ítarlega yfir heimild Tryggingastofnunar til að greiða tvö ár aftur í tímann og nefnd dæmi. Það á þá við ef bótaþeginn sem af einhverjum ástæðum er að óska eftir leiðréttingu aftur í tímann vegna eigin sjúkdóms, en Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðirnir greiða lengra aftur í tímann ef brotið liggur hjá þeim, ef um vanrækslu í starfi hefur verið að ræða eða eitthvað komið upp þar sem hægt er að benda á að sökin sé hjá stofnuninni, þá er greitt lengra aftur í tímann. Yfir þetta hefur verið rækilega farið.

Í upphafi mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna frá 1948 segir:

,,Það ber að viðurkenna, að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin, og er þetta undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.``

Dómur Hæstaréttar frá 19. desember fjallaði einmitt um þessi atriði, þ.e. virðingu, frelsi og jafnrétti.

Herra forseti. Ekki á að þurfa að taka það fram að dómur Hæstaréttar var eingöngu um rétt öryrkja til óskertrar tekjutryggingar, hvort heldur þeir væru í hjúskap eða ekki. Heimilisuppbót og sérstök heimilisuppbót er viðurkenning á því að á margan hátt sé kostnaðarsamara að búa einn en í sambúð. Með þeim greiðslum er því verið að jafna kjör öryrkja eftir hjúskaparstétt. Um þennan mismun hefur aldrei verið deilt. Og það hefur heldur aldrei verið tekist á um annað en að tekjur maka geti skert tekjutrygginguna.

Það fyrirkomulag sem í gildi hefur verið varðandi tekjutryggingu bóta og tengingu við tekjur maka er fjölskyldu\-fjandsamlegt. Og það hafa margir orðið varir við áhrif þessa ákvæðis, t.d. sveitarfélög vegna félagsþjónustu sveitarfélaganna, prestar, sálfræðingar, félagsráðgjafar og mjög margir sem horfa upp á afleiðingar þessa fyrirkomulags.

Það eitt að viðhalda þessari skerðingu hefur orðið til þess að öryrkjar hafa síður stofnað til hjúskapar eða sambúðar. Maður getur vel skilið það þegar þeir horfa fram á þá skerðingu sem fjölskyldan mundi þá verða fyrir. Þeir hafa einnig skilið til að halda fullri reisn eða fá hærri tekjur og það á ekki eingöngu við um örorkulífeyrisþega, það á við um fleiri sem hafa gripið til þess óyndisúrræðis að skilja til að halda fullri reisn.

En ákvæðið dregur úr sjálfsvirðingu öryrkja, þ.e. að geta ekki framfleytt sér óháð öðrum. Og það dæmi sem vísað var til hér og sem er óháð dómnum í sjálfu sér en ber að líta á varðandi heildarendurskoðun almannatryggingalaganna, er sú skerðing sem fólk verður fyrir fjárhagslega ef það fer inn á stofnun eða þarf að vera á stofnun í fjóra mánuði af tveimur árum.

Það er ömurlegt til þess að vita, herra forseti, að geta ekki einu sinni veitt sér það að kaupa afmælisgjafir handa börnum sínum, hvað þá að sjá sér fyrir því sem við köllum í dag frumþörfum, að vera sómasamlega til fara og geta keypt sér föt án þess að biðja um fatnað frá öðrum.

Það á að vera réttur okkar að ganga í hjúskap ef ósk okkar er í þá veru fremur en að vera í sambúð. Í Morgunblaðinu þriðjudaginn 16. janúar sl. birtist grein eftir Láru Helgu Sveinsdóttur lögfræðing um réttinn til að ganga í hjónaband. Það eru lögvarin mannréttindi. Mig langar, með leyfi forseta, að grípa hér aðeins niður í grein hennar, sem hljóðar svo:

,,Í 12. gr. mannréttindasáttmála Evrópu segir að karlar og konur á hjúskaparaldri hafi rétt til að ganga í hjónaband og stofna fjölskyldu í samræmi við landslög um þessi réttindi. Enn ítarlegra ákvæði um réttinn til að ganga í hjónaband er í 23. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

Í VII. kafla hjúskaparlaga, nr. 31/1993, kemur fram að hjón séu framfærsluskyld gagnvart hvort öðru. Framfærsluskyldan virkar ekki aðeins í aðra áttina, heldur í báðar áttir, sem þýðir að hinn makinn (ófatlaði) á líka framfærslurétt á hendur hinum fatlaða. Í hjúskaparlögunum kemur ekkert fram um það að heimilt sé að skerða lífeyristekjur né aðrar tekjur einstaklings vegna tekna maka hans. Annað mál er svo hvernig yfirvöld skattleggi tekjur hjóna, sem ekki má rugla saman við skerðingu almannatryggingabóta. Tekjur annarra einstaklinga eru ekki tengdar launum maka. Með öðrum orðum getur vinnuveitandi ekki miðað laun einstaklings sem er í vinnu hjá honum við þau laun er maki hans hefur. Lífeyristekjur/bætur frá Tryggingastofnun ríkisins eru skattlagðar á sama hátt og aðrar tekjur, um sama frítekjumark er að ræða og ættu lífeyristekjur því að lúta sömu lögmálum og tekjur almennt. Eðlilegt og rökrétt er að öryrkinn (launþeginn) haldi tekjum sínum þótt hann gangi í hjónaband. Ekki er vitað til þess að neinn annar hópur í þjóðfélaginu missi fjárhagslegt sjálfstæði sitt við það eitt að ganga í hjónaband nema að vera kynni námsmenn, en það er efni í aðra grein. Fyrir utan þá staðreynd að öryrkjum er af þessum ástæðum fyrirmunað að framfæra sjálfa sig og leggja sitt af mörkum til framfærslu fjölskyldu sinnar, er þeim hættar við en öðrum að sæta kúgun í hjónabandi, þar sem þeir eru gjörsamlega háðir maka sínum fjárhagslega.``

[12:45]

Þetta er mjög mikilvægt atriði, herra forseti. Þetta á við enn í dag og hefur verið svo í gegnum aldirnar að þeim sem minna mega sín er hættara við að sæta kúgun en hinum sem meira mega sín.

,,Aðalatriðið er að hjón eru lögum samkvæmt framfærsluskyld gagnvart mökum sínum, þ.e. framfærsluskyldan er gagnkvæm. Þeir einstaklingar sem eru fatlaðir og njóta örorkubóta njóta ekki jafnréttis á við aðra þegna landsins varðandi það að ganga í hjónaband.``

Að lokum segir, herra forseti:

,,Af framansögðu verður sú ályktun dregin að framkvæmd sú sem tíðkast varðandi skerðingu tekjutryggingar vegna tekna maka lífeyrisþega brjóti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og samræmist ekki ákvæðum mannréttindasáttmála þeirra sem Ísland hefur fullgilt eða lögfest.``

Ljóst er að kostnaður vegna daglegs lífs er meiri hjá fötluðum en ófötluðum og auk þess er vinnuframlag þeirra takmarkað, bæði inni á heimili og á vinnumarkaði.

Ákvæðið er kvenfjandsamlegt. Það bitnar miklu oftar á konum en körlum og það er einnig umhugsunarefni. Það er niðurlægjandi og brýtur fólk niður. Það brýtur fólk niður að vera byrði á öðrum og því þarf að styrkja stöðu sambúðarfólks þar sem annar aðilinn eða báðir eru fatlaðir og koma til móts við þann aukna kostnað sem fötlunin veldur. Það þarf að styrkja fjölskylduna, herra forseti, og þá sérstaklega ef annar aðilinn eða báðir eru fatlaðir.

Herra forseti. Hæstiréttur hefur lokaorð í þessu máli. Hann hefur kveðið upp dóm sinn og eftir honum ber okkur að fara. Við eigum ekki að hafa hann til hliðsjónar og fara svolítið eftir honum eins og fram kemur í frv. því sem nú er fjallað um. Dómur er dómur og það ber að fara eftir honum. Þetta var hæstaréttardómur og hv. Alþingi á að fara eftir dómi Hæstaréttar eins og hver annar.

Herra forseti. Hér beita menn lögfræðilegum rökum til að komast að mismunandi niðurstöðu. Ég kann ekki öll þessi lögfræðilegu rök. Þegar ég var að hlusta á orðaskipti lögfræðinganna fannst mér þetta frekar vera mjög langsótt leið til þess að komast fram hjá því sem dómstóllinn kvað upp úr um. Þannig virka þessi orðaskipti lögfræðinganna á mig að það hafi verið farin mjög langsótt leið til að komast að þeirri niðurstöðu sem ríkisstjórnin hefur komist að. Ég vil ekki segja útúrsnúningar en það eru farnar mjög einkennilegar krókaleiðir að mínu mati.

Þetta snýst um meira en lögfræði. Þetta snýst um mannréttindi. Þetta snýst líka um siðferði. Þetta snýst um að viðurkenna að mannréttindi og lýðræði kosta peninga. Ef við viljum halda uppi nafni mannréttinda og lýðræðis í landinu ber okkur að fara að dómnum og dómsorðinu eins og það stendur en leita ekki að einhverjum bakdyraleiðum og krókum til þess að túlka dóminn einhvern veginn öðruvísi. Yfir þetta hefur margsinnis verið farið.

Herra forseti. Ég held að ég láti þetta verða lokaorð mín að sinni.