Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 14:24:33 (4027)

2001-01-22 14:24:33# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[14:24]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Við höfum hér eina ferðina enn heyrt lagalegar skýringar á því að ríkisstjórninni sé heimilt að skerða tekjutryggingu öryrkja vegna tekna maka þeirra um rúmar 7.500 kr. á mánuði hverjum, að lækka tekjutrygginguna úr 32.566 kr. niður í 25 þús. kr. Ríkisstjórnin telur sig geta sloppið þannig fyrir horn. Hv. þm. virðist þó ekki alveg viss og telur rétt á að láta reyna á þetta fyrir dómstólum. Þetta er undarlegur málflutningur.

En látum þetta vera, leggjum hin lagalegu rök til hliðar og víkjum að hinum pólitísku og siðferðilegu. Ríkisstjórnin hefur bent á það og talsmenn hennar á Alþingi að það sé viðfangsefni stjórnmálanna og Alþingis að ákveða þær upphæðir sem renna til öryrkja. Hver eru hin pólitísku rök og hinn siðferðilegi rökstuðningur ríkisstjórnarinnar og talsmanna hennar fyrir því að lækka tekjutryggingu öryrkja vegna tekna maka um rúmlega 7 þús. kr. á mánuði? Ég auglýsi eftir pólitískri afstöðu Sjálfstfl. til þessa máls. Við heyrðum það í málflutningi frsm. meiri hluta nefndarinnar, fulltrúa Framsfl. við umræðuna að sú hlið máls hefði hreint ekki verið rædd, hin pólitísku, siðferðilegu rök að færa niður tekjutryggingu öryrkja og lækka hana um 7.500 kr. á mánuði. Hver er skýring Sjálfstfl.?