Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 14:34:10 (4033)

2001-01-22 14:34:10# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[14:34]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Virðing manna verður hvorki keypt, seld né metin út frá þessum 7.500 kr. Það er klárt og við getum verið sammála um það, ég og hv. þm. Kjarninn er hins vegar sá, eins og komið hefur fram, að virðing manna er skert þegar tekjur maka koma til frádráttar, það er nákvæmlega kjarni málsins. Hvað segir Hæstiréttur um þetta? Hann segir að það sé óheimilt að skerða samkvæmt 5. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga, samkvæmt. Þar er skýrt kveðið á um hvernig skuli skert. Það er skýrt. Það er óheimilt að gera það á þann hátt sem þar kemur fram. Við það á Hæstiréttur þegar hann talar um virðingu manna. Síðan birtist virðing ríkisstjórnarinnar fólki í því að hún leyfir sér að skerða þessar stórkostlegu bætur, 50 þús. kall eða svo, um 7.500. Þar birtist manngæska ríkisstjórnarinnar. Það er allt annað mál.