Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 14:36:14 (4035)

2001-01-22 14:36:14# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[14:36]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Varðandi orð hv. þm. um viðurkenningardóm, að þetta sé viðurkenningardómur og taki því ekki á rétti hvers einstaks öryrkja þá er er þetta vissulega viðurkenning fyrir hóp. Þetta er viðurkenning fyrir ákveðinn hóp öryrkja. Sá hópur átti að fá greitt eftir dómnum, 51 þús. kr. á mánuði. Þarna stangast á tvenns konar skilningur á þessu máli. En aðstæður fólks eru mismunandi og hafa breyst í gegnum tíðina, fólk hefur gifst, skilið og látist. Þessi dómur getur ekki tekið á mismunandi aðstæðum fólks en sá afmarkaði hópur sem býr við þessi skilyrði í dag ætti að hafa fengið greitt. Það á ekki að þurfa að fara í mál fyrir þennan afmarkaða hóp til að fá þetta viðurkennt. Hvernig átti að bregðast við? Það átti að bregðast við, eins og margoft hefur komið hér fram, með því að setja reglugerð. Það var búið að fella skerðingarákvæðin í þessari margumræddu 5. mgr. úr gildi. Það átti að setja reglugerð, greiða þessum hópi og leggja vinnu í að klára dæmið. Það átti ekki að fara þá leið sem frv. ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir heldur fylgja dómsúrskurðinum.

Talandi um sjálfsvirðingu þá munar þennan hóp og alla öryrkja um þessa upphæð sem er á milli 43 og 51 þús. kr. Þetta er jafnsmánarleg upphæð til þess að lifa af eftir sem áður, þannig má kannski segja að það skipti ekki máli, en að svipta fólk henni er lítilsvirðing við það og það skiptir máli.