Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 14:40:56 (4038)

2001-01-22 14:40:56# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[14:40]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við 1. umr. um þetta mál hélt ég því fram að bæði frv. ríkisstjórnarinnar og niðurstaða lögfræðihóps ríkisstjórnarinnar væru útúrsnúningur á niðurstöðu Hæstaréttar. Við umfjöllun í heilbr.- og trn. hefur sú skoðun mín styrkst. Málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar og stjórnarliða hér er útúrsnúningur á niðurstöðu Hæstaréttar.

Í öllum fréttaflutningi af dómi Hæstaréttar eftir að hann var kveðinn upp var yfirfyrirsögnin á hverju einasta blaði og í hverjum einasta fjölmiðli: Ekki er heimilt að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega vegna tekna maka. Það brýtur mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Enda var það alveg ljóst að hvorugum málsaðila, þ.e. hvorki Öryrkjabandalaginu né Tryggingastofnun, datt annað í hug en að þetta væri niðurstaða Hæstaréttar. Hvorugum málsaðila datt annað í hug en farið yrði að dómsorðinu. Þetta kom fram í heilbr.- og trn. Þetta hefur komið fram í fjölmiðlum. Engan óraði fyrir þessum viðbrögðum ríkisstjórnarinnar í kjölfarið á svo skýrum dómi Hæstaréttar.

Í áliti minni hluta heilbr.- og trn., sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir hefur farið hér mjög rækilega yfir, koma fram ítarlegar skýringar á afstöðu okkar til alls þessa málatilbúnaðar. Ég ætla ekki að nota tíma minn hér til að endurtaka það enda gerði hún góða grein fyrir þeim þáttum í morgun. Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir rakti aðdraganda málsins og þá málsmeðferð sem við, Samfylkingin og stjórnarandstaðan öll á þinginu, leggjum til vegna þessa máls. Við teljum að málið standist ekki stjórnarskrá og leggjum því til að því verði vísað frá.

Í niðurstöðu Hæstaréttar sem er tvíþætt kemur fram að reglugerð sú sem skerðingarákvæðið á tekjutryggingu lífeyrisþega byggðist á hafði ekki lagastoð. Allir dómarar Hæstaréttar voru sammála um að svo væri. Það mátti ekki skerða tekjutryggingu lífeyrisþega vegna tekna maka frá 1994--1998 þegar ákvæðin voru sett í lög. Samkvæmt því gildir þetta einnig um aldraða. Það er ljóst þegar litið er til þess að reglugerðin hafði ekki lagastoð, þar sem reglugerðin tók til bæði skerðingar tekjutryggingar öryrkja og tekjutryggingar aldraðra.

[14:45]

Þess vegna eiga allir lífeyrisþegar, sem urðu fyrir tekjuskerðingu vegna tekna maka á tímabilinu frá 1994--1998 þegar lagasetningin var gerð, rétt á endurgreiðslum vegna þessarar skerðingar því hún hafði ekki lagastoð og var óheimil og var brot á stjórnarskránni því það var ekki heimilt samkvæmt lögum að skerða á þann hátt.

Í nál. minni hlutans er bent á að þegar lagasetningin, þ.e. frv. ríkisstjórnarinnar um skerðingarákvæði vegna tekna maka voru tekin til umfjöllunar á Alþingi 1998, þá varaði stjórnarandstaðan við því að hér væri á ferðinni að öllum líkindum brot á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og vísaði til tveggja greina í stjórnarskránni, annars vegar 76. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.``

Sömuleiðis vísaði minni hlutinn, þ.e. hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem þá var formaður nefndarinnar, og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir ásamt þeirri sem hér stendur, einnig á 65. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.``

Þarna var verið að fjalla um ákveðinn afmarkaðan rétt einstaklings til grunnframfærslu óháð hjúskaparstöðu, þ.e. tekjutrygginguna, og við bentum á að þarna gæti verið og væri að mati ýmissa færra lögfræðinga verið að brjóta mannréttindi og þar með mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, en þar sem málið kom inn í þingið aðeins tveim dögum fyrir jólahlé gafst ekki tími til að senda það út til umsagnar né heldur að láta rannsaka þennan þátt frekar. Þess vegna töldum við okkur ekki geta greitt atkvæði með málinu en í lagasetningunni voru ívilnandi ákvæði gagnvart bótaþegum sem við bentum reyndar á á þeim tíma að hægt væri að koma fram, þ.e. láta fram ganga, án þess að lögfest yrðu ákvæði sem mögulega fælu í sér mannréttindabrot. Þess vegna vísuðum við allri ábyrgð á þeirri lagasetningu til ríkisstjórnarinnar, ríkisstjórnin yrði að bera ábyrgð á því að samþykkja slík lög.

Undir þessa afstöðu okkar fulltrúa í heilbr.- og trn. á þeim tíma tóku hv. þingmenn Ögmundur Jónasson og hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir sem þá var áheyrnarfulltrúi Kvennalistans í nefndinni.

Þetta kemur ítarlega fram í nál. minni hlutans en ég vil ítreka að stjórnarandstaðan var búin að vara við að þarna væri á ferðinni ákvæði sem að öllum líkindum og að mati færustu sérfræðinga stangaðist á við stjórnarskrána. Og það hefur nú komið í ljós við þennan dóm Hæstaréttar frá 19. des. sl. að stjórnarandstaðan hafði á réttu að standa, afstaða hennar var rétt. Dómur Hæstaréttar staðfesti það.

Bent hefur verið á að þessi skerðing er í andstöðu bæði við stjórnarskrána og alþjóðasáttmála og fjölda laga sem vísað er til svo sem laga um málefni fatlaðra og sömuleiðis jafnréttislaga. En það ber að leggja áherslu á að stærsti hluti þeirra öryrkja sem verða fyrir þessari skerðingu vegna tekna maka eru konur, mjög stór hluti þeirra. Það eru konur sem eru öryrkjar, konur sem eru búnar að missa starfsgetuna og í mörgum tilfellum eru þetta konur sem eru fátækar og hafa ekki eða mjög lítinn rétt í lífeyrissjóðum.

Í umræðunni um þetta mál er reynt að telja fólki trú um að hér sé hátekjufólk á ferðinni. Það er alrangt. Við vitum vel að öryrkjar eru yfirleitt ekki vel staddir fjárhagslega. Einnig höfum við bent á að það að missa heilsuna eða starfsorkuna og verða öryrki sé, eins og málum er nú komið, ávísun á fátækt. Því höfum við barist gegn. Við höfum sömuleiðis bent á að nauðsynlegt sé að auka og rétta kjör lífeyrisþega, sérstaklega öryrkjanna því að þær greiðslur sem til þeirra koma úr opinberum sjóðum eru smánarlega lágar. Það staðfesti umfjöllun Morgunblaðsins í gær, þ.e. sunnudagsblað Morgunblaðsins. Þar voru viðtöl við öryrkja þar sem þeir sýndu fram á að það væri nánast ekki hægt að draga fram lífið á þessum greiðslum, hvað þá að þeir gætu gengið í hjónaband á þeim kjörum sem lífeyrisþegum eru skömmtuð úr opinberum sjóðum og sömuleiðis að búa við þá skerðingarreglu sem tekjutengingin við tekjur maka er og heldur áfram að verða miðað við það frv. sem hér liggur fyrir.

En vegna þess að menn hafa haldið því fram að hér væri á ferðinni hátekjufólk vil ég vísa í skýrslu hæstv. forsrh. sem kom fram á 123. löggjafarþingi. Hún kom fram í framhaldi af beiðni þingmanna jafnaðarmanna sem óskuðu eftir upplýsingum um kjör öryrkja. Skýrslan var lögð fram á 123. löggjafarþingið árið 1998--1999.

Samkvæmt þeirri skýrslu kemur fram að meðalgreiðsla til öryrkja árið 1997 var 37.317 kr. á mánuði. Menn hafa verið að halda því hér fram, sérstaklega hefur hv. þm. Pétur Blöndal réttlætt það að fólk fái ekki hærri greiðslur vegna þess að það fái svo góðar greiðslur úr lífeyrissjóðum eða þá af atvinnuþátttöku. En miðað við upplýsingar í skýrslu forsrh. frá 123. þingi fengu öryrkjar að meðaltali 18.254 kr. á mánuði úr lífeyrissjóðum. Það eru nú greiðslurnar úr lífeyrissjóðunum, 18.254 kr., sem eru náttúrlega meðaltalsupphæðir og 43% öryrkja fengu ekki neitt úr lífeyrissjóði, áttu engan rétt þar.

Í skýrslunni í umfjöllun um atvinnutekjur kemur í ljós að atvinnutekjur öryrkja eru að meðaltali, miðað við þá skýrslu, rúmar 14 þús. kr. á mánuði og 62% allra öryrkja hafa engar atvinnutekjur. Hin dæmigerða samsetning væri þá að Tryggingastofnun borgar innan við 40 þús. kr., þ.e. rúmar 37 þús. kr., úr lífeyrissjóðum fá öryrkjar að meðaltali um 18 þús. kr., vinnutekjur eru um 14 þús. kr. og samtals eru þeir þá með innan við 70 þús. kr. í framfærslu. Þetta er nánast sama upphæð og einstaklingur með óskertar hámarksbætur fær að teknu tilliti til eingreiðslna. Þetta er auðvitað talandi dæmi um ástandið í þessum málum.

Einnig hefur verið bent á að makar lífeyrisþega séu með, samkvæmt Morgunblaðinu í vikunni, ég man nú ekki nákvæmlega hvaða dag það var, um 220 þús. kr. á mánuði nú. Við vitum alveg hver staða maka lífeyrisþega er þegar annað hjóna eða annað fullorðinna í sambúð lendir í því að missa starfsgetuna þá verður hinn aðilinn að fara að vinna meira. Fólk er með skuldbindingar, fólk er með ákveðnar fjárskuldbindingar varðandi heimilið þegar það missir heilsuna á miðjum aldri. Ég bendi á að Ísland sker sig úr að því leyti að öryrkjar á Íslandi verða öryrkjar yngri en annars staðar á Norðurlöndunum og í Evrópu, þeir eru færri að jafnaði á Íslandi en annars staðar en þeir verða öryrkjar yngri og þess vegna eiga þeir minni rétt í lífeyrissjóðum vegna þess að þeir hafa verið stuttan tíma eða jafnvel ekki á vinnumarkaði, sem er náttúrlega m.a. skýringin á því ástandi sem kemur fram í skýrslu hæstv. forsrh.

Það er alveg ljóst að þær stífu tekjutengingar sem hafa viðgengist og viðgangast í almannatryggingakerfinu halda þessum þjóðfélagshópi niðri, honum er haldið niðri vegna þess að tekjutengingar eru mjög stífar. Tekjutengingar eru miklar gagnvart öryrkjanum sjálfum. Tekjutrygging hans er skert gagnvart lífeyrisgreiðslum, gagnvart fjármagnstekjum, gagnvart t.d. atvinnutekjum og svo til viðbótar er verið að skerða vegna tekna maka. Margoft hefur verið bent á í þessari umræðu vegna þeirra útúrsnúninga stjórnarliða að heimilt sé að skerða tekjutrygginguna, bara ekki eins mikið og gert er, og þá er bent á að heimilt sé að taka tillit til þess að ódýrara sé að framfleyta tveimur en einum, en þá ber auðvitað að benda á að sú skerðing er fyrir hendi í kerfinu. Sá sem býr með öðrum fær rúmum 22 þús. kr. minna en sá sem býr einn. Og það þarf ekki að vera hjónafólk eða sambýlisfólk í þeirri mynd sem menn hugsa oftast um sem sambýlisfólk, þ.e. karl og kona í sambúð, það getur verið lífeyrisþegi sem býr með systur sinni eða frænda sínum eða dóttur sinni eða móður. Hann lendir í því að hann fær ekki heimilisuppbót, hann er kominn niður í 51 þús. kr. sem síðan skerðast út frá hans eigin tekjum í því tilfelli.

Ég vil ítreka vegna þeirrar umræðu sem hefur farið og fór hér fram áður en ég hóf ræðu mína að heimildarbætur eins og heimilisuppbót hefur ekki verið talin ein af grundvallarstjórnarskrárvörðum mannréttindum í velferðarkerfinu. Það eru aftur á móti almannatryggingarnar sem eru grunnlífeyririnn og tekjutryggingin. Það eru stjórnarskrárvarin réttindi lífeyrisþegans sem samkvæmt dómi Hæstaréttar má ekki skerða vegna tekna annarra, sem má ekki skerða vegna tekna maka. Það er alveg ljóst af öllum málflutningi bæði meiri og minni hluta Hæstaréttar þegar menn fjölluðu um þetta mál og skiluðu dómsorði sínu, það var álit meiri hlutans að þarna mætti ekki skerða og vísa ég til bæði málflutnings okkar í fyrri umræðu og sömuleiðis rökfærslna í minnihlutaáliti og ræðu hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur.

[15:00]

Herra forseti. Mig langar til að gera aðeins að umtalsefni hér áður en lengra er haldið hvernig hæstv. ríkisstjórn og stjórnarliðar ætla að bregðast við þessum hæstaréttardómi, ekki framfylgja honum eins og við höfum margoft bent á, heldur bregðast við honum. Hér kemur makalaust frv. fram þar sem skerðingarákvæðin standa áfram í 17. gr. en sett er ákveðin regla fyrir lífeyrisþegana. Ég vil nota tækifærið og benda á og spyrja þá sem hlusta á mig, herra forseti, hvort miklar líkur séu á því að hvetjandi sé fyrir lífeyrisþega, ungan karl eða unga konu, sem lent hefur í þeim hremmingum að missa starfsgetuna og býr einn, að ganga í hjónaband þegar þessi regla kemur til sögunnar?

Dæmið sem ég óskaði eftir að yrði reiknað út fyrir okkur í heilbr.- og trn. og fulltrúar nefndarinnar hafa í fórum sínum er af lífeyrisþega sem sjálfur hefur 30 þús. kr. á mánuði, annaðhvort úr lífeyrissjóði, þ.e. hann hafi verið á vinnumarkaði og þaðan hafi hann 30 þús. kr. eða þá fjármagnstekjur, þ.e. hafi átt eitthvað í bréfum og fái fjármagnstekjur, eða þá að hann getur unnið svolítið þrátt fyrir skerta starfsorku og hafi 30 þús. kr. í tekjur. Hann kynnist manneskju sem hann vill gjarnan eiga samleið með í lífinu, búa með eða giftast en sá einstaklingur er með 250 þús. kr. í tekjur. Við skulum segja það. Ég nefni þetta vegna þess að ég horfði á umfjöllun á Stöð 2 þar sem ungt fólk var spurt hvort það mundi gifta sig ef það lenti í þessari stöðu. Það hváði þegar það heyrði tölurnar. En ég ætla að nefna þessi dæmi.

Þessi öryrki hafði fyrir giftingu grunnlífeyri, fulla tekjutryggingu og heimilisuppbót. Hann hafði ekki sérstaka heimilisuppbót vegna þess að hún skerðist krónu á móti krónu. Hann fær því ekkert í sérstaka heimilisuppbót og hefur rúmar 66 þús. kr. til framfærslu frá TR. Samkvæmt gömlu reglunni sem Hæstiréttur er búinn að dæma ógilda, að ekki megi skerða vegna tekna maka þ.e. meðan skert var vegna tekna maka, þá fengi hann bara grunnlífeyrinn, bara 18 þús. kr. og ekkert annað úr Tryggingastofnun. Samkvæmt frv. ríkisstjórnarinnar sem hér liggur fyrir fær hann aðeins 5 þús. kr. til viðbótar við það sem hann hafði áður. Hann fær aðeins 5 þús. kr. ofan á 18 þús. kr. Hann fær því 23 þús. út úr Tryggingastofnun. Lífeyrisþeginn hafði hátt í 70 þús. kr., 66 þús. rúmar, sá sem ekki treysti sér til að gifta sig og vegna þess að hann var nánast upp á maka sinn kominn með því að fá aðeins grunnlífeyrinn frá Tryggingastofnun. Samkvæmt frv. ríkisstjórnarinnar fær hann 23 þús. kr. Hver er nú munurinn á því, 18 þús. kr. eða 23 þús. kr.? Hann fær sem sagt 5 þús. kr. meira. Ég get ekki séð að þarna sé kominn hvatinn til hjónabandsins. Væri aftur á móti farið að dómi Hæstaréttar og ekki skert vegna tekna maka þá fengi þessi lífeyrisþegi tæpar 51 þús. kr. Um það munar auðvitað strax.

Þessum samanburði er nú ekki lokið hjá mér vegna þess að ég á eftir að taka nokkra aðra þætti en ég vil í sambandi við hann nefna atriði sem kannski væri full ástæða til að minna á, þ.e. ályktarnir Sjálfstfl. á síðasta landsfundi. Landsfundurinn ályktaði nefnilega í þá veru að vernda ætti fjölskylduna. Landsfundur Sjálfstfl. ályktaði í þá veru að afnema ætti allar tekjutengingar, sérstaklega hvað varðar aldraða. Það átti að afnema allar tekjutengingar, ekki bara tekjutengingar við tekjur maka. Nei, það átti að afnema allar tekjutengingar, líka við tekjur einstaklingsins sjálfs. Það er ályktun Sjálfstfl. á landsfundi.

Ég velti fyrir mér hvernig það sé með hv. þm. Sjálfstfl. Ber þeim ekki að fara eftir ályktun landsfundar?

Landsfundur Sjálfstfl. ályktaði einnig um heilbrigðismál. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Sjálfstæðisflokkurinn hvetur til frumkvæðis um málefni fatlaðra með það fyrir augum að þeim sé tryggður fullur réttur til þátttöku í samfélaginu. Þjónustu við fatlaða ber að skipuleggja út frá þörfum hvers og eins því að á þann hátt eru gæði hennar og hagkvæmni best tryggð.``

Þetta sagði nú Sjálfstfl. á síðasta landsfundi. Hvernig er svo þessu framfylgt í þingmáli ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl., herra forseti? Öryrkinn sem tapar greiðslum sínum frá Tryggingastofnun, þ.e. tekjutryggingunni sinni í dag, á að fá 5 þús. kr. Það er nú meiri styrkurinn við fjölskylduna frá hæstv. ráðherrum Sjálfstfl. og Framsfl. og hv. þm. Sjálfstfl. sem hafa sjálfsagt tekið þátt í að álykta á landsfundi í þessa veru.

Við skulum gera ráð fyrir að öryrkinn sem ég var að tala um áðan hafi ekki búið einn. Kannski bjó hann í foreldrahúsum þegar hann fer að íhuga hvort hann eigi að hefja sambúð með sinni heittelskuðu eða sínum heittelskaða. Meðan hann var í heimahúsum, þ.e. bjó ekki einn, fékk hann úr Tryggingastofnun tæpar 51 þús. kr. af því hann hafði 30 þús. kr. í tekjur. Hann fékk náttúrlega enga tekjutryggingu eða aðrar bætur miðað við reglurnar eins og þær voru. En hann fær bara þessar 5 þús. kr. Hann fær bara þessar 5 þús. kr. vegna þessa frv. ríkisstjórnarinnar. En hann fengi 51 þús. krónurnar ef farið væri að dómi Hæstaréttar sem segir að ekki sé heimilt að skerða vegna tekna maka. Ég minni á að krafa Öryrkjabandalagsins var sú að þessi regla, þessi tekjutrygging, yrði dæmd óheimil eða ekki. Og hún var dæmt óheimil. Það var fjallað um ákveðna skerðingarreglu sem þeir töldu óheimila vegna ákvæða í stjórnarskránni og alþjóðasáttmálum.

Nú skulum við segja að öryrkinn sem við erum að tala um hafi kynnst öðrum lífeyrisþega, öðrum öryrkja og vilji gjarnan hefja sambúð með honum. Þá er hann enn verr staddur, þ.e. ef makinn er einnig lífeyrisþegi. Hann fær bara 5 þús. kr. og í heild, vegna þess að grunnlífeyririnn lækkar um 10%, lækkar hann niður í 90%. Ef tveir lífeyrisþegar búa saman þá lækkar grunnlífeyririnn líka. Hann fær um 16.500 í grunnlífeyri þegar hann fer að búa með öðrum lífeyrisþega og lífeyrisþeginn sem hann fer að búa með lendir líka í skerðingunni. Þau lenda bæði í skerðingu á grunnlífeyri og hann fær aðeins 5 þús. kr. í tekjutryggingu Hann fær úr Tryggingastofnun rúmar 21 þús. kr. Ef bannað væri að tengja vegna tekna maka þá hefði hann fengið um 50 þús. kr.

Þetta er samkvæmt frv. sem ríkisstjórnin leggur hér fyrir og ætlar lífeyrisþegum og á m.a. að koma í veg fyrir skilnaði hjá þeim sem lenda í þeim hremmingum að missa starfsorkuna. Fólk hefur neyðst til þess að skilja eins og bent er á m.a. í umræðu á prestastefnu. Þetta hefur margoft verið rætt hjá prestum. Þeir hafa tekið þetta upp í predikunum í kirkjum sínum og sömuleiðis bendir prestur á þetta í Morgunblaðinu. Séra Jakob Ágúst Hjálmarsson bendir á þetta sérstaklega í viðtali í Morgunblaðinu í gær. Sagt er í fyrirsögn: ,,Mannréttindi --- ekki hagsmunamál``. Þetta eru mannréttindi. Til umfjöllunar er ályktun prestastefnu þar sem hann vísar til þess að þjóðmálanefnd kirkjunnar hafi fengið þetta mál til umfjöllunar, þetta vandamál gagnvart fjölskyldunni, þar sem þessi skerðingarregla vinnur gegn hjónabandinu. Hér segir hann:

,,Hann segir ástæðu þess að ekki var tekið sterkar til orða að nefndinni hafi verið skammtaður of naumur tími til að hún gæti sökkt sér í málið. Eins gafst ekki ráðrúm til að leita sérfræðiaðstoðar, sem hefði verið æskilegt.``

En prestastefna 1997 beindi því til Alþingis að leiðrétta það ranglæti sem öryrkjar búa við. Telja hv. þm., stjórnarliðar, það leiðrétt með þessu frv.? Ég held að upphæðirnar sem ég hef nefnt hér séu talandi dæmi um að svo sé ekki. Ég get tekið fleiri dæmi ef menn sannfærast ekki um að hér sé farið með rétt mál.

Við höfum margbent á þetta. Það er hægt að taka fleiri dæmi um mismunandi tekjur og það sýnir sig að þessi regla, eins og hún er í frv., er vinnuletjandi og hvetur fólk ekki til að bindast fjölskylduböndum. Það er alveg ljóst. Ég tel fulla ástæðu til þess að meiri hluti heilbr.- og trn. og stjórnarliðar taki á þessum þætti sérstaklega eftir alla þá umræðu sem hefur verið um þetta mál.

Ég vil líka benda á að við í stjórnarandstöðunni höfum margbent á þetta og komið með tillögur í þá veru að afnema beri þessa tengingu. Við eigum frv. núna í heilbr.- og trn. um að þessi tekjutenging verði bönnuð. Við höfum í fjárlagaumræðunni lagt til fjárveitingar til þess að afnema hana og til þess að bæta kjör öryrkja. En það hefur meiri hlutinn alltaf fellt. Allar slíkar tillögur hefur meiri hlutinn, sem nú hefur verulegar áhyggjur af slæmum kjörum lífeyrisþega, fellt og síðast núna í desember. Síðast núna í desember felldi meiri hlutinn tillögur í þá veru að bæta kjör öryrkja og aldraðra sem búa við verstu kjörin í samfélaginu. Það hefur allt saman verið fellt, allar slíkar tillögur.

[15:15]

Mig langar til að nefna annað dæmi um stöðu öryrkja. Þegar öryrki reynir að taka þátt í atvinnulífinu og vinna sér inn einhverja peninga og er í þeirri stöðu að eiga maka með meðaltekjur, svona 200--250 þús. kr. stendur hann uppi með nánast ekki neitt. Þegar skatturinn hefur tekið það litla sem eftir er þá er hann betur kominn með að hafa setið heima. Það tel ég vera alvarlegt. Auðvitað á kerfið að vera hvetjandi fyrir öryrkja þannig að þeir reyni að fara út á vinnumarkaðinn, komist út á meðal fólks og auki starfsgetu sína en sé ekki ýtt út af vinnumarkaðnum vegna þess hvernig skerðingarnar bitna mun harðar á honum vegna þeirrar reglu sem komin er inn í það frv. sem ríkisstjórnin er með og ætlar sér að koma í gegn þessa dagana.

Í heilbr.- og trn. fengum við ýmsa gesti eins og kemur fram í álitum bæði minni og meiri hluta nefndarinnar. Ég verð að segja að það er sérkennilegur málflutningur þegar hv. stjórnarþingmenn koma hér og telja upp hversu margir lögfræðingar hafi komið á fund nefndarinnar og segja síðan: Níu voru með og þetta margir voru á móti og þetta margir studdu ríkisstjórnina og þetta margir studdu eitthvað annað. Talað er um þetta eins og þeir lögfræðingar sem komu á fund nefndarinnar séu einhver dómstóll. Þetta er hlægilegur málflutningur.

Það er alveg ljóst að þeir mannréttindalögfræðingar sem komu á fund nefndarinnar voru sammála um að þarna væri verið að brjóta mannréttindi og farið væri á svig við stjórnarskrána með þessu frv. Það kom alveg skýrt fram í nefndinni. Ekki er boðlegt þegar menn hafa kallað fyrir nefndina lögfræðingahópinn sem samdi frv., það hefði verið sérkennilegt ef þeir hefðu verið á annarri skoðun en að frv. væri í takt við skoðun þeirra á hæstaréttardómnum. Nei, svona málflutningur er náttúrlega ekki boðlegur í þessari umfjöllun.

Þeir mannréttindalögfræðingar sem komu á fund nefndarinnar sögðu að þessi skerðing stæðist ekki stjórnarskrá og það væri klárlega niðurstaða Hæstaréttar að ekki væri heimilt að skerða vegna tekna maka.

Einnig hefur komið fram að dómurinn um að ekki sé heimilt að skerða vegna tekna maka gerir öryrkja kleift að ganga með reisn í hjónaband, í hjúskap. Hann verður ekki upp á maka sinn kominn með framfærslu. En það er ekki þannig þegar litið er til frv. ríkisstjórnarinnar. Ekki er hægt að segja að lífeyrisþeginn geti gengið með reisn í hjúskap þegar sú skerðingarregla er farin að bíta.

Við höfum einnig bent á að auðvitað átti að greiða út 1. janúar, það var ekkert því til fyrirstöðu. Það var staðfest í nefndinni að það hefði verið heimilt og það hefði verið mögulegt. Fulltrúar Tryggingastofnunar bentu á það eins og hefur komið fram í máli okkar í minni hlutanum að það var möguleiki, ekki þurfti nema breytingu á reglugerð til að hægt væri að greiða þeim sem málið varðaði fulla tekjutryggingu, þ.e. að hún skertist ekki vegna tekna maka.

Ég hef sagt það fyrr í máli mínu að ég tel persónulega að ellilífeyrisþegar eigi þennan sama rétt. Reglugerðin sem hafði ekki stoð varðaði tekjutryggingu þeirra alveg jafnt og öryrkja og hún hafði ekki stoð í lögum þannig að ekki var heimilt að skerða tekjutryggingu þeirra vegna tekna maka. Sömuleiðis er í mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, sem ég hef vitnað til fyrr, ekki aðeins talað um að maður eigi þennan rétt vegna örorku heldur einnig vegna elli. Þegar einstaklingur er kominn á ákveðinn aldur, þ.e. orðinn 67 ára samkvæmt íslenskum lögum, á hann þennan grundvallarrétt samkvæmt stjórnarskránni, hann á persónuvarinn, lögbundinn rétt til þess að fá þessar greiðslur úr opinberum sjóðum, þó háð eigin tekjum, eins og við höfum öll verið sammála um að sé skilningurinn og sé réttlátt samkvæmt almannatryggingunum þó að menn greini á um hvort sú skerðingarregla gagnvart eigin tekjum sé of mikil eða ekki. Það hefur komið fram hjá ýmsum að sú skerðing sé of mikil eins og hún er í dag en það er ekki til umræðu hér.

Vegna þeirra dæma sem ég tók áðan langar mig líka að nefna enn eitt dæmi um öryrkja sem á maka sem er með tekjur og nýtir frítekjumarkið að fullu. Ef hann er með 37.500 kr. á mánuði --- hann þarf að borga fullan skatt af því makinn er með þær tekjur að það fullnýtir persónuafsláttinn hjá báðum --- þá þarf hann að greiða um 14.500 kr. af því og þegar allar skerðingar eru komnar inn í myndina þá situr hann eftir með nokkur þús. kr., 2--3 þús. kr., sem mundu síðan skerðast vegna vaxtabóta og barnabóta ef slíkt er til staðar. Staða þessa lífeyrisþega er því ákaflega slæm.

Vegna þeirrar þrætu um norræna réttinn sem við höfum verið í hér þá kom það fram hjá íslenskum fulltrúum NOSOSKO-nefndarinnar að ákaflega erfitt væri að bera saman almannatryggingakerfin á Norðurlöndunum og nánast ómögulegt enda hefur það komið í ljós að þegar þeir bera saman kjör lífeyrisþega á Norðurlöndunum og taka Ísland fyrir sérstaklega eru þeir ekkert endilega að tala alltaf um almannatryggingar. Þeir eru að tala um aðrar bætur en almannatryggingabætur í þeim samanburði og setja það saman í einum pakka. Hv. þm. Ásta Möller talaði um að verið væri að bera saman epli og appelsínur og þannig er það yfirleitt þegar verið er að bera saman réttinn á Norðurlöndunum. Ég hef bent á það í þessum ræðustól að það sé mjög varhugaverður málflutningur sem hefur verið á ferðinni frá stjórnarliðinu að segja að öryrkjar séu einna best settir á Íslandi.

Ég verð að segja það, herra forseti, að þegar NOSOSKO-nefndin kom á fund nefndarinnar var ekkert af því sem ég hef sagt hér hrakið. Aftur á móti var lagt fram skjal um réttinn á Norðurlöndum sem er athyglisvert. En í fylgigögnum með því skjali --- af því að Danmörk hefur nú allmikið borið á góma --- þá kemur nefndin með fylgiskjöl úr upplýsingariti um almannatryggingar og félagslega aðstoð í Evrópusambandsríkjunum og EES-ríkjunum sem kallað er MISSOC en treystir sér greinilega ekki til þess að láta gögnin um örorkuna koma með fylgiskjölunum sem var auðvitað það sem var til umræðu, heldur lætur hún ellilífeyrisreglurnar koma með, sem eru náttúrlega aðrar reglur en örorkan sem við erum akkúrat að tala um. Þess vegna töldum við í minni hlutanum fulla ástæðu til að láta dönsku reglurnar um örorkulífeyrinn fylgja með sem fylgiskjal í gögnum okkar þannig að menn sæju að þar er verið að tala um örorkuréttinn í Danmörku en ekki ellilífeyri sem við erum öll sammála um að er annað mál.

Það er alveg ljóst að kerfið er öðruvísi byggt upp. Hér á landi eru aðeins tveir flokkar af örorku, það er örorkulífeyrir og örorkustyrkur. Örorkulífeyririnn fyrir lífeyrisþega í sambúð er um 51 þús. kr. með tekjutryggingunni en örorkustyrkurinn á Íslandi fyrir þá sem eru með lægri örorku er 13.800 kr. Aftur á móti eru fjórir flokkar á Norðurlöndunum og þar fær 100% öryrki sem býr einn um 95 þús. kr. íslenskar án þess að það skerðist vegna tekna maka. Það er grunnréttur hans. En ef hann er í sambúð lækkar það niður í um 85 þús. kr. Það er réttur hans ef hann er í sambúð. Síðan á hann rétt á viðbót sem er tengd tekjum maka, það er alveg rétt. Viðbæturnar eru tengdar tekjum maka. En þennan rétt á 100% öryrkinn í Danmörku.

Náttúrlega sér hver maður að þetta er alls ekki sambærilegt. Það þarf ekkert meira en að nefna þessar tölur, 85 þús. í Danmörku og 18 þús. á Íslandi, og benda á reglurnar í fylgiskjali með áliti minni hlutans til að sýna fram á þetta. Ég ætla ekki að eyða meiri tíma í þá umræðu, við getum talað endalaust um þennan samanburð. Flestir sérfræðingar í tryggingamálum á Norðurlöndunum eru sammála um að erfitt sé að bera þetta saman og nánast ómögulegt og þess vegna eru menn að vísa og taka inn í alls konar aðra aðstoð úr samfélaginu til þess að reyna að bera þessi kjör saman. En það er sem sagt ólíku saman að jafna, þetta er skýringin.

Á fund heilbr.- og trn. komu einnig fulltrúar verkalýðsfélaganna og þeir voru allir búnir að skoða dóm Hæstaréttar ásamt lögmönnum sínum og búnir að komast að þeirri niðurstöðu að það sem dómurinn var að að segja var að tekjutenging við tekjur maka stenst ekki stjórnarskrána. Óheimilt er að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap með því að telja helming samanlagðra tekna beggja hjóna til tekna lífeyrisþegans, þ.e. þegar maki er ekki lífeyrisþegi.

Dómurinn tekur kæru Öryrkjabandalagsins orðrétt upp í niðurstöðu sinni, í dómsorðinu. Það er mjög skýrt orðalag. Það er ekkert verið að fjalla um hvort megi skerða minna eða meira, það er verið að tala um hvort heimilt sé að skerða eða ekki. Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að það sé ekki heimilt og get ég vísað m.a. til minnisblaðs sem kom fram í nefndinni frá ASÍ þar sem þessi niðurstaða er rakin og mun ég ekki fara nánar út í það nema nauðsyn krefji og þá muni ég gera það, herra forseti, í seinni ræðu. Enda tel ég, herra forseti, að rækilega hafi verið farið yfir lögfræðilegan málflutning okkar í minni hlutanum í minnihlutaáliti okkar og ekki þörf á því að ég fari að endurtaka það hér.

Mig langar líka til að benda á öryrkjana sem verða ellilífeyrisþegar við það að verða 67 ára. Mig langar til að spyrja hv. þm. hvort þeir telji það réttlátt og eðlilegt að þegar öryrkinn, sjúklingurinn sem hefur ekki getað unnið fyrir sér og hefur verið með örorkubætur fram til 67 ára aldurs, verður 67 ára, þegar hann er orðinn gamall, að þá megi allt í einu fara að skerða svona harkalega vegna tekna maka. Á þá ellilífeyrisskerðingin að fara að bitna á lífeyrisgreiðslum hins aldraða öryrkja?

[15:30]

Hann er ekki lengur öryrki samkvæmt lögum þegar hann verður 67 ára. Þá gilda um hann aðrar reglur. Þá á að láta hann hafa minna. Ekki verður hann minni öryrki á því að verða gamall. Ég held að allir geti verið sammála um það að sá sem hefur verið heilsulaus eða fatlaður í gegnum lífið lagast ekki með aldrinum. Engu að síður á það að gilda, miðað við frv. ríkisstjórnarinnar, að þegar öryrkinn er orðinn gamall, orðinn 67 ára, þá eigi gamla reglan að gilda. Þá gilda ekki sérstöku ákvæðin í þessu frv. Nei, þá á að fara að láta hann hafa enn þá minna. Þetta er nú réttlætið hjá hæstv. ríkisstjórn. Þetta er réttlætið.

Ég spyr hv. þingmenn stjórnarliðsins: Er þetta eðlilegt? Finnst þeim þetta réttlátt og siðlegt?

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnst þetta ákaflega lítilmótlegt og sérstaklega hjá fólki sem allt í einu hefur uppgötvað að bæta þurfi kjör lífeyrisþega og fatlaðra. En það á nú aldeilis ekki að fara að bæta kjör fatlaðra á efri árum, það á ekki að gera.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa hér mjög langa ræðu en ég vil aðeins gera að umtalsefni greiðslurnar aftur í tímann. Ég verð að segja að mér blöskrar þegar ríkisvaldið ætlar að beita fyrningarákvæðum gagnvart þessum hópi, gagnvart öryrkjum sem sviptir hafa verið upphæðum árlega frá 1994 án þess að það hafi verið heimilt í lögum og ætlar ekki að greiða það til baka. Hvað á þetta að þýða? Fólk sem hefur lítið fyrir sig að leggja og hefur orðið fyrir þessari skerðingu, sem Hæstiréttur er búinn að lýsa yfir að sé óheimil samkvæmt stjórnarskránni. Samkvæmt mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar er ekki heimilt að skerða tekjutrygginguna. Það hefur verið gert frá 1994 og menn eru sammála um að þetta hafi ekki verið heimilt frá 1994--1998, allir dómarar Hæstaréttar eru sammála um það. En það á ekki að greiða til baka fyrir allan tímann.

Í umfjöllun í heilbr.- og trn., herra forseti, kom fram að það hefði verið reglan, t.d. hjá lífeyrissjóðunum þar sem er tveggja ára regla um greiðslur aftur í tímann, að þegar það hefur verið sök lífeyrissjóðsins sjálfs að viðkomandi hafi ekki fengið bætur lengra aftur í tímann þá hafi verið fallið frá þeirri reglu og menn hafi greitt allan þann tíma sem menn telja að réttur þeirra hafi verið brotinn. Það eru til dæmi um það. Ég er með fyrir framan mig úrskurð frá tryggingaráði sem úrskurðaði í kærumálum til Tryggingastofnunar þar til úrskurðarnefndin var sett á laggirnar. Þar hefur verið úrskurðað í svona máli þar sem handvömm var við afgreiðslu stofnunarinnar. Ung stúlka sem dæmd hafði verið öryrki hafði ekki fengið þær bætur sem hún átti rétt á samkvæmt lögum. Úrskurðurinn var þannig að henni voru greiddar bætur tólf ár aftur í tímann. Þessi stúlka fékk allt greitt.

Ég velti fyrir mér hvort ríkisstjórninni sé stætt á þessu bara vegna jafnræðisreglunnar. Dæmi eru um að Tryggingastofnun hafi greitt þegar um handvömm stofnunarinnar er að ræða. Ætti þá ekki samkvæmt jafnræðisreglunni að greiða öllum sem hafa verið hlunnfarnir vegna þess að ríkisvaldið eða Tryggingastofnun fór ekki að gildandi lögum, þar sem reglugerðin stóðst ekki lög? Ég leyfi mér, herra forseti, að halda því fram að svo sé og greiða beri þetta allan þann tíma. Öllu því sem tekið hefur verið frá lífeyrisþegum ber að skila.

Þetta á auðvitað við um aldraða líka, a.m.k. frá árunum 1994--1998 því að reglugerðin, sem er óheimil, gilti líka um þá. Auðvitað ber að greiða þeim. Ég get ekki séð annað, ef ríkisstjórnin ætlar að halda sig við þetta heygarðshornið, en menn neyðist til þess að fara dómstólaleiðina. Það er nú ansi hart þegar þeim hópum í samfélaginu sem þurfa að treysta á velferðarkerfið er sífellt vísað í dómsmál. Það kom einnig fram í nefndinni að lögmaður Öryrkjabandalagsins benti á það að hvorki hann né lífeyrisþegarnir hver um sig hefðu efni á að fara út í slíkan málarekstur, það er alveg ljóst.

Herra forseti. Ég gæti rakið ýmis fleiri dæmi og ýmsa þætti sem varða þetta mál því af mörgu er að taka. Ég hef hins vegar tök á því að koma hér aftur og ræða um þá þætti. Til dæmis væri full ástæða til að fara nánar í þessum umræðum ofan í skýrslu hæstv. forsrh. um kjör öryrkja og benda á hver staða þessa fólks er í raun og hver staða fólks í sambúð með lífeyrisþega er. Ég verð að gagnrýna það, herra forseti, að reynt sé að telja fólki trú um að um hátekjufólk sé að ræða. Það er ekki þannig. Ég held að menn ættu að hætta að reyna að telja fólki trú um að eitthvað slíkt sé á ferðinni.

Þetta snýst um mannréttindi, þetta snýst um grundvallarréttindi. Í þessum dómi er fjallað um þá aðferð að tengja við tekjur maka og sú tenging er ólögmæt. Frv. er útúrsnúningur á niðurstöðu Hæstaréttar og stenst ekki 65. og 76. gr. stjórnarskrárinnar. Ég ítreka það, herra forseti, að endurgreiða ber lífeyrisþegum alla þá upphæð, alla þá skuld sem ríkisstjórnin stendur uppi með.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mína lengri að sinni en ég mun taka aftur til máls síðar í umræðunni ef mér þykir ástæða til.