Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 15:45:13 (4045)

2001-01-22 15:45:13# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, Frsm. meiri hluta JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[15:45]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að vekja athygli á því sem fram kemur í áliti minni hluta hv. heilbr.- og trn. þar sem vísað er til þess að dæmi séu um að tryggingaráð hafi afgreitt og úrskurðað mál lengra aftur í tímann en gert er ráð fyrir í 48. gr. laganna um almannatryggingar. Þar er nefndur, ég ætla að fá að vísa orðrétt í álit minni hlutans, úrskurður í máli nr. 44/1994 þar sem úrskurðað var um bætur rúmlega 12 ár aftur í tímann. Síðan segir, með leyfi forseta: ,,Hefur þeirri stefnu verið fylgt af hálfu stofnunarinnar að þegar um mistök eða sök hennar er að ræða sé vikið frá ákvæði 2. mgr. 48. gr. laganna.``

Þarna er gefið til kynna að þetta sé einn úrskurður af fleirum. Vegna þessa og fyrirspurnar frá heilbrn. sem send var Tryggingastofnun á föstudaginn og ekki fékkst svar við, þá langar mig að vísa í bréf sem barst okkur frá Tryggingastofnun í morgun. Þar kemur fram að þetta sé eini úrskurðurinn sem nokkurn tímann hafi verið kveðinn upp af Tryggingastofnun þar sem greitt hafi verið lengra aftur í tímann en 48. gr. gerir ráð fyrir.