Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 15:46:36 (4046)

2001-01-22 15:46:36# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[15:46]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil mótmæla því að það sé fyrir neðan virðingu Alþingis að menn segi hér sannfæringu sína. Mér ber að segja sannfæringu mína. Það er sannfæring mín að það hafi verið niðurstaða Hæstaréttar að óheimilt hafi verið að beita þessari tekjutengingu við tekjur maka. Það er bjargföst sannfæring mín og margra annarra í samfélaginu að það hafi verið óheimilt. Mér ber að segja það. Það er alls ekki fyrir neðan virðingu Alþingis. Ég veit ekki hvaðan hv. þm. hefur það að það sé fyrir neðan virðingu alþingismanna að segja hér sannfæringu sína.

Varðandi tilvitnun í nál. minni hlutans þá höfðum við fengið vísbendingar um að þetta hafi verið gert oftar en í þessum eina úrskurði. Aftur á móti hefur verið farið svo hratt í þetta mál að það gafst ekki einu sinni tími til að athuga fleiri úrskurði tryggingaráðs. Þessi úrskurður fannst vegna þess að einn af hv. nefndarmönnum mundi eftir honum. Það þurfti að leita að honum í möppum. Það gafst ekki tími, eins og segir í svari frá Tryggingastofnun, og því var ekki möguleiki á að finna fleiri úrskurði vegna tímaskorts.