Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 15:56:15 (4055)

2001-01-22 15:56:15# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, GAK
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[15:56]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Mál þetta snýr að réttindum öryrkja og fjallar um tekjutryggingu einstaklinga sem nú er viðurkennt að skuli vera óskertur réttur hvers öryrkja óháð tekjum makans.

Í nál. minni hlutans segir, með leyfi forseta:

,,Minni hlutinn lýsir yfir furðu sinni á því hversu mikla þverúð ríkisstjórnin hefur sýnt í málinu og fullyrðir að slík meðferð á hópi sem sannanlega hafa verið brotin mannréttindi á sé einsdæmi. Virðist það víðs fjarri að nokkur vilji sé til þess af hálfu ríkisstjórnarinnar að binda enda á þessa áralöngu þrætu við öryrkja. Rétt er að rifja það upp að fyrst þegar deilan kemur fyrir dómstól var það einhuga niðurstaða þriggja dómara þar að Tryggingastofnun (ríkisvaldinu) hefði verið óheimilt að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega á grundvelli tengingar við tekjur maka á tímabilinu 1994--1998.``

Stjórnarandstaðan fordæmir meðferð ríkisstjórnarinnar á málinu og er í grundvallaratriðum ósammála fráleitri túlkun hennar á skýrum dómi Hæstaréttar. Er það mat minni hluta nefndarinnar að í frv. því sem nú liggur fyrir Alþingi brjóti ríkisstjórnin gegn skýrum fyrirmælum Hæstaréttar um að tenging tekjutryggingar örorkulífeyrisþega við tekjur maka sé óheimil, sbr. 5. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga, og að frv. feli í sér brot á stjórnarskrá og alþjóðasáttmálum. Í ljósi þessa leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað frá.

Hv. þm. Jónína Bjartmars sagði, og byggir m.a. á því að málflutningur stjórnarliða sé réttur, að á niðurstöðu Hæstaréttar og rökstuðningi dómara megi hafa uppi fleiri en eiga lögskýringu og að jafnvel stjórnarandstaðan víki að því að lögskýring og skilningur geti verið með tvennum hætti. Ég hlýt að spyrja: Eru þetta haldbær rök fyrir ríkisstjórnina til að flytja málið á Alþingi eins og gert hefur verið? Að mínu viti er svo ekki.

Í nánast öllum málum sem flutt eru fyrir Hæstarétti og héraðsdómi er teflt fram tveimur andstæðum sjónarmiðum lögmanna sem skilja væntanlega lögin á tvo mismunandi vegu. Það er jú atvinna lögmanna að skýra og rökstyðja málflutning sinn, oftast verður annar undir og unir því. Töpuð mál fara almennt ekki í frumvarpsform svo að koma megi í veg fyrir að framkvæma og fylgja eftir hæstaréttardómum. Það gerist hins vegar þegar núverandi ríkisstjórn á hlut að máli.

[16:00]

Ég velti því enn þá fyrir mér hvers vegna forustumenn núverandi ríkisstjórnar óskuðu ekki eftir samstarfi við Öryrkjabandalag Íslands og settu á fót starfshóp með öryrkjum og fólki frá Tryggingastofnun til að finna sáttaleið um uppgjörsmál aftur í tímann. Mér er alveg óskiljanlegt hvernig málið gat tekið þá stefnu sem það tók.

Getur verið að þau orð sem féllu strax, þ.e. að hæstaréttardómurinn væri mistök, hafi markað þá óheppilegu og klaufalegu málsmeðferð sem stjórnarliðar völdu? Varla gat niðurstaða Hæstaréttar komið mönnum á óvart um að skerðing væri óheimil á tímabilinu frá því 1. jan. 1994 til 1. jan. 1999 þar sem fyrri lá samdóma álit héraðsdóms. Í minnihlutaáliti stjórnarandstöðunnar segir svo, með leyfi forseta:

,,Þeir þrír dómarar sem dæmdu málið í héraðsdómi komust allir að þeirri niðurstöðu að umrætt skerðingarákvæði í reglugerðinni hefði skort lagastoð og skerðing á grundvelli þess væri því óheimil. Sama var uppi á teningnum í Hæstarétti þar sem það var samdóma niðurstaða þeirra fimm dómara sem málið dæmdu að reglugerðarheimild hefði skort og skerðing á grundvelli hennar því óheimil.

Með lögum nr. 149/1998 var umdeilt skerðingarákvæði lögfest og varð að 5. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga, nr. 117/1993. Stjórnarandstaðan í heilbrigðis- og trygginganefnd skilaði séráliti þegar frumvarp til laganna var afgreitt úr nefndinni þar sem sérstaklega var gagnrýnd sú málsmeðferð sem frumvarpið fékk í þinginu, en frumvarpið var lagt fram degi áður en þingi var frestað í desember 1998 og því var hvorki unnt að senda málið til umsagnar né gafst tóm til ítarlegrar umræðu í þinginu. Í áliti minni hlutans segir enn fremur:

,,Fyrir liggur að hér kann að vera um brot á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar [að ræða]. Fyrir því liggja eftirfarandi rök:

1. Í 76. gr. stjórnarskrárinnar segir: ,,Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.``

2. Í 65. gr. stjórnarskrárinnar segir: ,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.``

Í þessum greinum er því skýlaust lýst yfir að allir skuli jafnir fyrir lögum og að allir skuli njóta mannréttinda án nokkurrar mismununar. Undir orðalag 65. gr., þar sem rætt er um ,,stöðu að öðru leyti``, fellur ljóslega hjúskaparstaða. Þegnum ríkisins verður því ekki mismunað vegna hjúskaparstöðu.

Í ljósi þessa getur stjórnarandstaðan ekki greitt atkvæði með málinu. Hún hefur jafnframt bent á leiðir sem gætu tryggt að ívilnun gagnvart bótaþegum hefði náð fram að ganga án þess að lögfest yrðu ákvæði sem mögulega fælu í sér mannréttindabrot. Við því vildi meiri hlutinn ekki verða. Stjórnarliðið verður því að bera ábyrgð á samþykkt framangreindra laga.``

Undir þetta álit [þ.e. frá 1998] skrifuðu Össur Skarphéðinsson, þáverandi formaður heilbrigðis- og trygginganefndar, Bryndís Hlöðversdóttir og Ásta R. Jóhannesdóttir. Ögmundur Jónasson, áheyrnarfulltrúi þingflokks óháðra, og Guðný Guðbjörnsdóttir, áheyrnarfulltrúi Kvennalistans, tóku þátt í afgreiðslu málsins og voru samþykk álitinu.

Í framhaldi af þessu hefur stjórnarandstaðan tvívegis lagt fram frumvarp sem mælt hefur fyrir um afnám tengingar tekjutryggingar við tekjur maka, það fyrra á 125. þingi og nú liggur fyrir þinginu frumvarp þessa efnis sem þegar hefur verið vísað til heilbrigðis- og trygginganefndar og bíður þar afgreiðslu.``

Af þessum tilvitnunum, bæði í forsendur og í dóm héraðsdóms og eins í þetta nál. frá árinu 1998, má sjá að varla gat ríkisstjórnin verið í vafa um að miklar líkur væru til þess að þessi niðurstaða kæmi út úr Hæstarétti.

Ég ætla að vitna aftur í nál., með leyfi forseta: ,,Dómur Hæstaréttar Íslands frá 19. desember 2000 í málinu nr. 125/2000: Tryggingastofnun ríkisins gegn Öryrkjabandalagi Íslands og gagnsök, staðfestir að skilningur stjórnarandstöðunnar í málinu hefur verið réttur frá upphafi.``

Er þá komið að lögum sem tóku gildi í jan. 1999, en um það segir í nál. minni hlutans, með leyfi forseta:

,,Viðbrögð Öryrkjabandalags Íslands við lögum nr. 149/1998 voru snögg. Einungis nítján dögum eftir að lögin tóku gildi stefndi bandalagið Tryggingastofnun ríkisins. Kröfur Öryrkjabandalags Íslands voru í fyrsta lagi að skerðing skv. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 485/1995 væri óheimil (fyrra tímabilið) og var fallist á það eins og rakið var hér að framan og jafnframt að skerðing tekjutryggingar örorkulífeyrisþega á grundvelli tekna maka skv. 5. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga, nr. 117/1993, sbr. lög nr. 149/1998, væri óheimil (síðara tímabilið).

Öryrkjabandalagið byggði kröfu sína fyrir síðara tímabilið á því að skerðing tekjutryggingar örorkulífeyrisþega á grundvelli tengingar við tekjur maka væri andstæð 76. gr. stjórnarskrárinnar sem mælir fyrir um rétt til aðstoðar vegna örorku, sbr. 14. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, og vísaði í þessu sambandi til 12. og 13. gr. félagsmálasáttmála Evrópu og 9. og 11. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Jafnframt taldi Öryrkjabandalagið að skerðingin væri andstæð jafnréttisákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar.``

Skemmst er frá því að segja að meiri hluti Hæstaréttar féllst að fullu á seinni kröfu Öryrkjabandalags Íslands. Þetta má glöggt sjá þegar kröfugerð Öryrkjabandalagsins fyrir Hæstarétti og dómsorð réttarins eru lesin saman. Kröfugerð Öryrkjabandalagsins var svohljóðandi, með leyfi forseta: ,,... að einnig verði viðurkennt með dómi Hæstaréttar, að aðaláfrýjanda hafi frá 1. janúar 1999 verið óheimilt að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap samkvæmt 5. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 149/1998.`` Dómsorð Hæstaréttar hljóðaði svo:

,,Einnig er viðurkennt, að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap frá 1. janúar 1999 samkvæmt 5. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 149/1998.``

Þá komum við að því hvort um mannréttindabrot sé að ræða. Ég vil halda áfram að vitna í nál. minni hlutans þar sem greint er frá viðræðum við þá lögmenn sem m.a. voru kallaðir fyrir nefndina og er hér vitnað í afstöðu og skýringar Eiríks Tómassonar. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Aðspurður hvort með leið ríkisstjórnarinnar væri hún að taka áhættu vegna ásakana um mannréttindabrot svaraði Eiríkur Tómasson því til fyrir nefndinni að svo væri vegna þess að ekki væri hægt að fullyrða með óyggjandi hætti hver yrði niðurstaða dómstóla ef málið yrði borið undir þá að nýju, en það væri hins vegar pólitískt mat hvort slík áhætta yrði tekin.``

Það væri sem sagt pólitískt mat hvort slík áhætta yrði tekin.

Furðu vekur að stjórnarliðar skuli enn á ný taka áhættu af að verða á ný dæmdir fyrir að hafa farið á svig við stjórnarskrána og að brotið sé á rétti einstaklingsins með því verklagi að tekjutengja við tekjur maka þegar um tekjutryggingu er að ræða.

Í greinargerðinni er komið að umfjöllun Hæstaréttar og segir svo, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt framanrituðu verður 76. gr. stjórnarskrárinnar skýrð á þann veg að skylt sé að tryggja að lögum rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarksframfærslu eftir fyrir fram gefnu skipulagi, sem ákveðið sé á málefnalegan hátt.``

Áfram segir í áliti minni hlutans, með leyfi forseta:

,,Í því tilviki sem hér er til umfjöllunar má einnig segja að löggjafinn hafi metið það málefnalegt með lögfestingu laga nr. 149/ 1998 að skerða þann lágmarksframfærslueyri sem felst í tekjutryggingu örorkulífeyrisþega á grundvelli tekna maka en það er hins vegar það málefnalega mat löggjafans sem Hæstiréttur telur að stangist á við stjórnarskrána og alþjóðlega sáttmála sem íslenska ríkið er bundið af og skerðing á þessum grundvelli því talin óheimil.``

Og áfram segir í áliti minni hlutans, með leyfi forseta:

,,Öryrkjabandalagið hélt því fram að þetta væri óheimilt og gerði kröfu um slíkt en Tryggingastofnun gerði kröfu um að því yrði hafnað og stofnunin sýknuð. Öryrkjabandalagið krafðist þess aðeins að sú aðferð að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega á grundvelli tekna maka yrði dæmd óheimil, m.a. á grundvelli þess að hún væri andstæð stjórnarskrá. Í málinu var ekki deilt um fjárhæðir heldur aðferð og þá aðferð dæmdi Hæstiréttur ólögmæta.``

Það var ríkisstjórnin sem fann það út með starfshópi sínum að það væri þeim algjört sáluhálparatriði að því er virðist, þ.e. ríkisstjórninni og stjórnarþingmönnum, að lækka þessar 51 þús. kr. um hina frægu tölu 7.500 kr. sem hér hefur margborið á góma. Lækka 51 þús. kr. niður í 43 þús. kr.

Ég hef orðað það svo fyrr í þessum þingsal við 1. umr. um málið að sennilega gætu þessar 7.500 kr. sem slegist hefur verið um orðið einhverjar frægustu 7.500 kr. sem yrðu ræddar á þessu ári ef ekki þessum áratug. (ÁRJ: Og ákaflega dýrar ríkisstjórninni.) Já, mjög dýrar. Ekki í peningum, heldur í áliti og heiðarleika.

Það er ákaflega dapurlegt að við skulum þurfa að sitja undir því að vera að ræða þessi mál út frá því sjónarmiði að ekki skuli vera hægt að fara eftir niðurstöðu Hæstaréttar. Eðlilega leggur ríkisstjórnin þetta til vegna þess að hún telur sig hafa til þess lagarök. Stjórnarandstöðuþingmenn eru hins vegar algjörlega ósammála því að hæstv. ríkisstjórn hafi slík lagarök sín megin og hafa í málflutningi sínum vísað í dóm Hæstaréttar, í dóm undirréttar og þau málsrök og skýringar sem fylgt hafa. Þess vegna erum við stjórnarandstöðuþingmenn með málflutningi okkar að segja að stjórnarliðar séu enn á ný að taka áhættu af því að brjóta stjórnarskrána. Enn á ný að taka áhættu af því að verða dæmdir fyrir að hafa tekið þátt í að fara á svig við stjórnarskrána. Við erum með málflutningi okkar að vara þá við að fara þessa leið.

[16:15]

Eins og ég gat um er það svo að þegar deilt er um niðurstöður máls, hvort sem er fyrir dómstólum eða annars staðar, þá skilja menn rökin fyrir niðurstöðunni á tvo vegu. Vafalaust teljum við öll í þessum sal að við tölum fyrir því sem við skiljum sannast og réttast. En mikið óskaplega finnst mér samt málflutningur ríkisstjórnarflokkanna í þessu máli slakur.

Segja má að sú niðurstaða sem hér er sett fram, að skerða greiðslur til framtíðar, hafi verið dregin upp úr hatti. Fyrir þessari 7.500 kr. lækkun hafa ekki verið færð nein skynsamleg rök.

Frv. ríkisstjórnarinnar sem við ræðum kemur óbreytt frá stjórnarliðum frá heilbr.- og trn. til 2. umr. og gerir ráð fyrir að áfram verði heimilt að skerða tekjutryggingu vegna tekna maka. Frv. er því enn í andstöðu við dóm Hæstaréttar og fer því gegn ákvæðum 65. og 76. gr. stjórnarskrár að okkar mati.

Ég endurtek þá afstöðu mína að 1. janúar árið 2001 átti að greiða út miðað við dóm Hæstaréttar. Það tel ég að hefði verið hin rétta meðferð málsins. Auðvitað átti að hafa samstarf við Öryrkjabandalagið, ræða um meðferð málsins, hvernig ætti að gera upp aftur í tímann og hve langt ætti að fara. Það hefði verið eðlilegur framgangur þessa máls og málið hefði þannig verið sett í eðlilegt samhengi.

Málflutningur um að sá hópur öryrkja sem dómur Hæstaréttar snýr að hafi þokkalega afkomu og sé jafnvel vel settur er ekki mjög málefnalegur að mínu viti. Það hefur líka verið sagt --- reyndar talsvert verið gert úr því --- að öryrkjar eigi góðan lífeyrisrétt. Ef ég man rétt frá umfjöllun í heilbr.- og trn. þá var upplýst þar að um helmingur öryrkja ætti ekki rétt í lífeyrissjóði. Ég held að það eigi við um 43% þeirra. (Gripið fram í: Jú, um 43%.) Það er vafalaust vegna þess að fjöldi öryrkja hefur ekki aflað tekna og hefur ekki haft tækifæri til þess vegna þess að þeir hafa ekki getað unnið, jafnvel ekki frá æsku.

Í annan stað er í þessum hópi heimavinnandi fólk sem hefur ekki öðlast rétt í lífeyrissjóði og hefur orðið öryrkjar einhvern tímann á lífsleiðinni áður en því tókst að afla tekna. Viðkomandi kann að hafa starfað það stutt á vinnumarkaði að hann hafi ekki öðlast rétt til framreiknings lífeyrisréttinda. Margar ástæður geta verið fyrir því að öryrkjar eignist lítinn eða engan lífeyrisrétt. Vafalaust væri hægt að tína til mörg dæmi um slíkt. Það mun samt sem áður vera staðreynd málsins að nánast helmingur öryrkja hefur nánast engin lífeyrisréttindi.

Það hefur verið nefnt í þessari umræðu að aðrir í hópi öryrkja og jafnvel ellilífeyrisþega væru verr settir en sá hópur sem þessi dómur tekur til. Stjórnarliðar hafa bent á að þeir vildu setja kraft í nefndarstarf og leggja fram tillögur um að bæta stöðu þeirra hópa sem eru jafnvel enn verr settir. Slíkum yfirlýsingum ber auðvitað að fagna. Hins vegar verður ekki of oft minnt á að stjórnarandstaðan, hver einasti flokkur sem nú er í stjórnarandstöðu, hefur flutt tillögur um að bæta stöðu þessara hópa, þeirra sem verst eru settir, bæði örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega og einnig stöðu yngra fólks sem ekki á neins staðar rétt en lendir í sjúkdómum eða slysum og fær þar af leiðandi strípaðar dagpeningagreiðslur.

Tillögur stjórnarandstöðunnar hafa ævinlega verið felldar hér í þingi. Og hverjir hafa fellt þær? Stjórnarflokkarnir. Kolfellt þær allar. Þær hafa ekki einu sinni þótt tilefni til almennilegrar rökræðu þegar þær eru lagðar fram, tillögur um breytingar á fjárlögum um að lagfæra eitthvað í þessari stöðu. Þeim hefur bara verið húrrað út af borðunum með einni samhljóða ákvörðun allra þingmanna stjórnarflokkanna. Þannig hefur nú afgreiðslan verið á því.

Vissulega ber því að fagna þeim sinnaskiptum stjórnarliðanna ef þeir vilja nú taka á þessum málum. Stjórnarandstaðan mun ábyggilega ekki þvælast fyrir í því að lagfæra þau réttindi eða koma að því verki með stjórnarliðum.

Að lokum langar mig til að vitna, með leyfi forseta, í niðurstöðu nál. minni hlutans. Þar segir:

,,Niðurstaða Hæstaréttar í því máli sem hér hefur verið reifað og frumvarp ríkisstjórnarinnar byggist á var sú að óheimilt væri að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap á grundvelli tekna maka. Hæstiréttur byggir þessa niðurstöðu á 65. og 76. gr. stjórnarskrárinnar auk annarra lagaraka. Frumvarp það sem hér er til umfjöllunar mælir, þrátt fyrir áðurgreinda niðurstöðu Hæstaréttar, fyrir um áframhaldandi skerðingu tekjutryggingar á grundvelli tekna maka. ... Minni hlutinn telur að með framlagningu frumvarpsins geri ríkisstjórnin tilraun til að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar og að frumvarpið feli í sér beint brot á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar.``

Í samræmi við þessa afstöðu allrar stjórnarandstöðunnar er lögð fram tillaga um rökstudda dagskrá sem hér var kynnt í morgun. Hún felur það í sér að málið verði tekið af dagskrá og jafnframt verði það skoðað á nýjan leik í heilbr.- og trn. til að finna flöt á því hvernig eigi að leiðrétta þessi mál aftur í tímann. Vonandi mundi nefndin jafnframt taka frumkvæði í því að lagfæra það sem stjórnarliðar hafa minnst á að þyrfti nú að gera í sérstakri nefnd sem ætti að ljúka störfum fyrir 15. apríl. Við höfum lagt til að þannig verði tekið á málunum, þessu máli verði vísað frá, en tekið til við að ná samstöðu í þjóðfélaginu, samstöðu með öryrkjum, samstöðu með launþegahreyfingunni og samstöðu milli stjórnarandstöðu og stjórnarþingmanna um að lagfæra það sem aflaga hefur farið í réttindamálum öryrkja og ellilífeyrisþega.

Það væri vissulega ánægjuefni ef mönnum tækist að taka þannig á málum og vinna í sameiningu í stað þess að hrökkva alltaf í bakkgír um leið og eitthvað gengur á móti ríkisstjórninni. Hér koma þeir inn með sérstakt frv. til að breyta niðurstöðu Hæstaréttar. Það er vægast sagt lítt málefnaleg málsmeðferð.