Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 17:20:42 (4057)

2001-01-22 17:20:42# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[17:20]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er stórkostlega gaman að heyra hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, þann hinn sama og steig ölduna sumarið og haustið 1998 og velti því fyrir sér hver af tveimur, jafnvel þremur flokkum sem til greina kæmu væri nú líklegastur til að skila honum inn á þing á Vestfjörðum, koma svo hér og eyða svo til öllum ræðutíma sínum í að reyna að sanna að aðrir stjórnmálamenn séu ekki sjálfum sér samkvæmir.

Um hæstaréttardóm þann sem hér á við og það frv. sem honum tengist er það að segja að hann er ósambærilegur þeim málum öðrum sem hv. þm. talaði hér um --- og þá hefði nú hæstv. utanrrh. haft ástæðu til að kalla fram í því hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fór um víðan völl og langt aftur í söguna --- því að í þessu tilviki liggur fyrir dómur Hæstaréttar um að tiltekin löggjöf hafi brotið ákvæði stjórnarskrárinnar. Það er ósambærilegt hinum málunum þar sem því var í hvorugu tilvikinu til að dreifa. Og það er í framhaldi af þeim dómi sem við tökumst hér á um hvort viðbrögðin séu fullnægjandi og hann liggur fyrir og hann er staðreynd þó að stjórnarliðar reyni að láta það hverfa út úr umræðunni. En hæstaréttardómurinn er staðreynd hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Hann féll á þá leið að þessi lagaákvæði frá því í desember 1998 brytu í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar. Og undan þessu komast menn ekki hvernig sem þeir reyna að þvæla um málin og tala um allt annað en kjarnaatriðið sem er auðvitað þetta. Með þennan dóm eru menn á bakinu.

En tilburðir stjórnarliða til þess að reyna að færa umræðuna yfir í að snúast um allt annað eru auðvitað alveg skiljanlegir og ljósir svo maður tali nú ekki um stöðu þess hæstv. ráðherra sem ber stjórnskipulega ábyrgð á því að þessi stjórnarskrárbrot hafa viðgengist.

Síðan var náttúrlega dálítið skemmtilegt að heyra hv. þm. barma sér undan því að hiti hefði verið í umræðunni og einhver frammíköll og það hefði sérstaklega bitnað á framsóknarmönnum, sem væntanlega er þá vegna þess að þeir kunna lítið við slíkt að eiga.