Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 17:25:14 (4060)

2001-01-22 17:25:14# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[17:25]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta var athyglisverð ræða og ég verð að segja að hún virkaði á mig þannig að hún endurspeglaði mikla vanlíðan hjá þingmanninum og ég skil það vel. Hann var að bera saman mjög ólíka hluti. Það eina sem tengdi það saman sem hann var að ræða var að það hefði verið sett fram álit um að viðkomandi mál bryti í bága við stjórnarskrá. Hann nefndi lagasetninguna frá 1998 og það tengist auðvitað þessum hæstaréttardómi í dag vegna þess að 1998 kom hér fram frv. daginn áður en þingi átti að ljúka. Það fór til nefndar og fékk þessa snöggu, hraðsoðnu yfirferð í nefnd sem gerist við slíkar aðstæður. Ef ég man þetta rétt komu fram alvarlegar ábendingar um að það bryti í bága við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar einmitt eftir yfirferð í nefndinni. En þetta getum við þurft að skoða.

Það er afskaplega alvarlegt að menn skuli samt hafa sett lögin með hraði þrátt fyrir þær ábendingar. Síðan fellur hæstaréttardómur og málið kemur aftur til baka og enn berja menn hausnum við steininn. Það er það sem er að gerast.

Hins vegar langar mig líka, virðulegi forseti, að nefna það af því að hér var sómamaður, Ragnar Arnalds, kallaður til sögu, að hin síðari ár hafði hann einmitt þann hátt á að greiða atkvæði um það hvort mál færu til nefndar og 2. umr. eftir því hvort hann var sammála málinu eða ekki, þannig að ef við hefðum átt að nota þá aðferð þá hefðum við í stjórnarandstöðunni e.t.v. átt að greiða atkvæði gegn því að þetta mál færi til 2. umr. en ekki bara sitja hjá.

Svo vil ég sérstaklega taka það fram að formaður Samfylkingarinnar hefur verið mjög þaulsetinn í þessari umræðu og verið í þingsal eiginlega næstum því hverja mínútu. Hann þurfti að bregða sér frá núna og mér finnst ástæða til að það komi fram út af orðum þingmannsins.