Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 17:27:20 (4061)

2001-01-22 17:27:20# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[17:27]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst nú alveg sjálfsagt að taka til máls í þessari umræðu, sérstaklega eftir að formaður Samfylkingarinnar auglýsti eftir því í sjónvarpsþætti um helgina að ég flytti ræðu. Þess vegna finnst mér afar sérkennilegt að formaðurinn skuli svo ekki geta verið viðstaddur og hlustað á ræðuna þegar hún loksins er flutt og hann er búinn að bíða lengi. Ég verð því að lýsa yfir undrun minni á því að formaður Samfylkingarinnar skuli láta önnur störf ganga fyrir því að taka þátt í þessari umræðu.

Það sem ég var sérstaklega að draga fram varðandi formann Samfylkingarinnar er að hann virðist hafa eina skoðun þegar hann er í stjórn, eins og varðandi EES-samninginn, og formaður heilbrn. eins og hann var 1998, og svo allt í einu einhverja aðra skoðun núna á sambærilegum málum. (Gripið fram í: Ha!) Ég minni á að hv. þm. Össur Skarphéðinsson lýsti því yfir í desember 1998 að frv. sem þá var samþykkt væri mannréttindabrot. Hann lýsti því yfir. (Gripið fram í.) Og hvað gerði hv. þm.? (Gripið fram í.) Hann sat hjá. (Gripið fram í: Já hann sat hjá.) (Gripið fram í.)

Hvað gerir hann svo núna þegar þetta mál kemur inn sem hann segir líka að sé mannréttindabrot? Hann segir: ,,Það er stjórnarskrárbrot að taka það til umræðu á Alþingi.`` Það sagði maðurinn sem tók hitt málið til umræðu sem formaður nefndar og annaðist hina þinglegu meðferð málsins. Það er þetta sem ég vil fá skýringar á, hvers vegna menn venda svona úr einni skoðun yfir í aðra. Það er eins og menn snúist bara eftir vindinum, eftir því hvað þeir halda að gefi þeim best hverju sinni.