Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 17:33:43 (4065)

2001-01-22 17:33:43# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[17:33]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er þannig samkvæmt reglunum sem giltu fyrir dóminn að hjón með sameiginlegar tekjur undir 1.611 þús. kr. á ári og annað hjónanna var örorkulífeyrisþegi, að þá fékk hann grunnlífeyri og fulla tekjutryggingu, samtals um 2 millj. og 300 þús. á ári. Þá fer að draga úr tekjutryggingunni þegar tekjurnar eru komnar yfir þetta mark. Tekjutryggingin fellur ekki alveg niður fyrr en samanlagðar heimilistekjur og bætur eru orðnar um 3,3 milljónir á ári.

Varðandi þá leið sem valin hefur verið í frv., að setja lágmark á það hvað full tekjutrygging getur skerst, þá þýðir hún að sameiginlegar tekjur hjóna að viðbættum bótum fara aldrei niður fyrir 195 þús. á mánuði. (ÖJ: Sameiginlegar tekjur.) Og þó að makinn hafi hærri tekjur þá skerðir það ekki þennan grunn sem örorkulífeyrisþeginn hefur.

Ég vil því segja, herra forseti, þó að ég ætli ekkert að halda því fram að menn séu ofhaldnir af því sem þeir hafa, fjarri því, þá finnst mér að fólk sem hefur 85 þús. að meðaltali á mánuði hafi það verra en þessi hópur sem frv. fjallar um.