Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 17:38:08 (4068)

2001-01-22 17:38:08# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[17:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta hefur nú verið allmikil umræða nú þegar. Hún hófst í morgun með því að mælt var fyrir nál. meiri hluta og minni hluta. Ég vil segja fyrir mitt leyti að ég get vísað í nál. minni hlutans hvað varðar þann ítarlega lögfræðilega rökstuðning sem þar er fram settur með mjög greinargóðum hætti. Ég leyfi mér enn að bera aðeins saman þessi tvö nál., annað frá meiri hlutanum þar sem farið er afar fljótt yfir sögu og ekki svo mikið sem haft fyrir því að reyna að rökstyðja sum kjarnaatriði málsins eins og það hvernig upphæðin upp á 43 þús. kr. rúmar er fundin út, og hins vegar þetta mjög svo ítarlega nál. minni hlutans sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir mælti fyrir í morgun þar sem á mjög sannfærandi hátt er farið yfir þær lagalegu röksemdir sem við færum fyrir því í minni hlutanum að frv. feli ekki í sér fullnægjandi viðbrögð við dómi Hæstaréttar.

Herra forseti. Ég ætla þó tímans vegna ekki að rökræða mikið um þessi lögfræðilegu álitamál frekar enda er þetta mál að sjálfsögðu ekki síður spurning um siðferði og pólitík en einungis lögfræði. Ég mun þó aðeins í lokin koma aftur að einu atriði sem í raun er kjarnaatriði í allri framgöngu hæstv. ríkisstjórnar, þ.e. túlkun á einni einustu setningu, þremur orðum einnar setningar í reifun Hæstaréttar, ekki í sjálfu dómsorðinu þó ranglega sé látið að því liggja í sérfræðingaskýrslunni að þau orð, lykilorðin ,,með þeim hætti`` séu í dómsorðinu sem er ekki. En ég mun koma að því í lokin og það tengist almennri óvissu í tengslum við afgreiðslu þessa máls.

Það sem mér finnst ekki hafa fengið nægjanlega athygli er sú lagaóvissa og réttaróvissa sem augljóslega er fyrir hendi hvað sem hver segir og hvað sem mönnum sýnist um það. Hún er til staðar og þá koma upp þær spurningar sem tengjast því hvernig beri að fara með slíkan vafa. Ef menn yrðu sammála um þó ekki væri nema það eitt að það væri þó í öllu falli líklegt að þarna væri verulegur vafi, hvernig vilja menn þá meðhöndla hann og hver á að njóta hans í þessu tilviki? Það er atriði sem lítið hefur verið rætt hér en ætti kannski að gera, hvort það sé stjórnarskráin eða skilningur hæstv. forsrh. á dómnum sem eigi að njóta vafans.

Herra forseti. Í öðru lagi eru það viðbörgð hæstv. ríkisstjórnar. Ég hef mikið hugsað um það þessa sólarhringa hvernig víðsýn, sanngjörn og réttlát ríkisstjórn eða stjórn undir slíkri forustu í þróuðu réttarríki hefði (Gripið fram í.) brugðist við þegar mál af þessu tagi kemur upp. Hvernig hefði hún brugðist við? Hvernig væru fyrirmyndarviðbrögð af hálfu einnar ríkisstjórnar þegar þau ósköp gerast að stjórnin er dæmd í æðsta dómstóli landsins fyrir að hafa brotið mannréttindi á tilteknum hópi þegna sinna?

Eiga menn þá ekki að taka slíkt alvarlega? Jú. Á mönnum ekki að vera nokkuð brugðið? Jú. Hvað er eðlilegt að gera fyrir það fyrsta? Á hverju hefði ríkisstjórnin átti að byrja? (Gripið fram í: Borga út.) Hún átti að byrja á því að mínu mati að hafa tafarlaust samband við hinn málsaðilann, fara fram á fund og viðræður við Öryrkjabandalagið og lögmann þess um þá stöðu sem upp var komin. ,,Hér hafa orðið mikil tíðindi og ill. Mönnum hefur orðið heldur betur á í messunni, hafa beitt hér mjög íþyngjandi ákvæðum í lögum sem standast ekki stjórnarskrána. Og nú er það sameiginleg skylda okkar að reyna að gera eins gott úr þessu og hægt er og við erum allir af vilja gerðir``, hefðu hæstv. ráðherrar átt að segja, ,,að reyna að bæta fyrir þetta eins og nokkur kostur er.``

En það var ekki það sem þeir gerðu. Það var ekki fyrsta hugsun ríkisstjórnarinnar að reyna að fá í gang samtöl og viðræður um það hvernig menn ynnu úr hlutunum. Nei. Þeir töluðu ekki einu orði við samtök öryrkja eða lögmann þeirra sem hefði þó verið eðlilegt við þessar aðstæður.

Í öðru lagi átti ríkisstjórnin að sjálfsögðu að tryggja það með því að hafa samband við Tryggingastofnun ríkisins að hún greiddi þeim hópi sem dómurinn tók til út óskerta tekjutryggingu frá og með dómnum.

En hvað gerði ríkisstjórnin? Hún gerði ekki það. Nei, hún gerði það gagnstæða eins og í fyrra tilvikinu. Hún hafði samband við Tryggingastofnun til þess að taka af henni völdin og tryggja að hún greiddi ekki út. Það liggur fyrir. Aftur gerði því þessi ríkisstjórn algjörlega það öfuga í stöðunni borið saman við það sem maður hefði ætlast til að víðsýn og réttlát stjórnvöld sem tækju skyldur sínar alvarlega og vildu reyna að bæta fyrir brot sitt hefðu átt að gera.

Í þriðja lagi átti ríkisstjórnin að segja: ,,Við biðjum svo um biðlund á meðan þær ráðstafanir aðrar sem við teljum nauðsynlegt að gera eru undirbúnar. Og við biðjum um samstarf um þær ráðstafanir. Við viljum fá samtök öryrkja og eftir atvikum fleiri aðila með okkur í að skoða hvernig svo sé eðlilegt að fara í gegnum almannatryggingalöggjöfina og fara yfir það hvaða afleiddi réttur af þessum dómi geti skapast til handa öðrum.`` Eðilegast og best hefði auðvitað verið að kalla heilbrn. Alþingis til og fá henni líka hlutverk í þessum efnum þannig að í stjórnsýslunni hefðu menn farið sameiginlega yfir það verkefni og reynt að hafa um það eins gott samstarf og kostur var að vinna úr stöðunni. Ég er alveg viss um að ef ríkisstjórnin hefði gert þetta hefði hún komist í mun skárra ljós í málinu strax þá þegar.

[17:45]

En það var ekki þetta sem hún gerði. Hún talaði ekki við Öryrkjabandalagið. Hún tók völdin af Tryggingastofnun ríkisins og tryggingaráði þannig að færa má fyrir því sterk rök --- og auðvitað heilbrrh. sem var afmunstraður og hæstv. háyfirráðherra, forsrh., tók í raun og veru við heilbrrn. þessa daga frammi fyrir alþjóð --- að þar hafi ríkisstjórninni orðið enn eitt atriðið á vegna þess að í raun og veru er ákvæðum laga um Tryggingastofnun ríkisins og hlutverk stofnunarinnar og tryggingaráðs ýtt til hliðar og komið er í veg fyrir að þeir aðilar sinni lögbundnum stjórnskipulegum skyldum sínum sem eru að greiða út bætur samkvæmt lögum og rétti eins og hann er túlkaður á hverjum tíma.

Í þriðja lagi skipaði svo ríkisstjórnin hina frægu flokkspólitísku sérfræðinganefnd og hafnaði þar með öllu samstarfi við alla um að vinna úr málinu. Ég verð því að segja það, herra forseti, að viðbrögð ríkisstjórnarinnar eru að mínu mati, burt séð frá innihaldi mála og ágreiningi um það síðan hvernig til er að takast í þessu frv., skólabókardæmi þar sem allt er gert vitlaust, þar sem allt er gert öðruvísi en menn sem tækju hlutina alvarlega og vildu reyna að vanda sig og vinna vel úr málunum hefðu átt að gera. Þetta blasir við öllum, það sjá það allir. Ég er sannfærður um að það er þetta sem hefur farið verst í þjóðina og valdið því að almenningsálitið er jafnyfirgnæfandi mótsnúið ríkisstjórninni í þessu máli og raun ber vitni. Það er ekki af því að þjóðin hafi misskilið eitt eða neitt í þessum málum svona upp til hópa. Það er af því að öll framganga ríkisstjórnarinnar er eins fautaleg í þessu máli og nokkur kostur er. Auðvelt er að sýna fram á það með því að fara svona yfir það eins og ég tel mig hafa verið að gera hér.

Hver urðu svo viðbrögðin? Hvernig er svo það frv. sem við ræðum hér? Jú, herra forseti, það er eins níðingslegt í öllum tilvikum gagnvart þessum hópi og er hægt að láta sér til hugar koma. Það er eins fantalega haldið á hlut ríkisins í þessum samskiptum og a.m.k. ég hafði hugkvæmni til að hvarflað gæti að nokkrum manni. Einnig er hægt að fara yfir það lið fyrir lið að ríkisstjórnin velur ýtrasta fantaskap í öllum tilvikum. Í fjórum meginefnisatriðum þessa máls tekur ríkisstjórnin alls staðar þann kostinn sem er óhagstæðastur öryrkjanum og túlkaður andstætt honum.

Fyrir það fyrsta velur ríkisstjórnin eða sérfræðingahópur hennar að túlka dóminn þannig að áframhaldandi tekjutenging tekjutryggingarinnar sé heimil. Það er túlkun öryrkjunum og hagsmunum þeirra í óhag sem voru þó búnir að vinna málið gegn ríkisstjórninni og fengu stefnu sína tekna til greina.

Í öðru lagi ber ríkisstjórnin við fyrningu og ætlar ekki að bæta nema fjögur ár af þessu sjö ára tímabili. Það er sömuleiðis pólitísk ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að bera henni við og nokkuð borðleggjandi að mun tapast fyrir dómstólum ef einstakir öryrkjar sækja það mál.

Í þriðja lagi eru lögin höfð afturvirk ef af verður. Það er sömuleiðis og að sjálfsögðu einnig í óhag þeim sem hefur þarna verið ranglega haft af undanfarin ár. Með afturvirkninni er af þvílíkri smámunasemi, þvílíkum naglaskap reynt að hafa þessar 8 þús. kr. mánaðarlega af hópnum tvö ár aftur í tímann af þeim fjórum sem á að rausnast til að bæta. Þarna er þriðja atriðið þar sem ríkisstjórnin velur að túlka þetta eins fantalega og hægt er til að klípa aðeins af. Þeir þora ekki í skerðingu á árunum tveimur þar fyrir aftan, þ.e. árunum 1997 og 1998, þau á að bæta miðað við óskerta tekjutryggingu, en nýja formúlan um 8 þús. kr. skerðinguna er notuð til að gera upp bæturnar afturvirkt tvö síðustu ár. Þriðja atriðið sem ríkisstjórnin velur að hafa eins fantalegt gagnvart hópnum og hún væntanlega hefur treyst sér til.

Fjórða atriðið eru vextirnir. Þar velur ríkisstjórnin að því er best verður séð af geðþótta sínum einum að hafa vextina eins lága og stætt var á, 5,5% en ekki meðaltalsávöxtun eins og alsiða er þegar slíkir hlutir eru gerðir upp. Í öllum þessum tilvikum velur ríkisstjórnin eins mikinn fantaskap og mögulegt er. Þetta er svona.

Látum vera ef við værum að takast á við eins og eitt af þessum atriðum, að deila væri um það eitt hvort þessi takmarkaða tekjutenging væri heimil áfram. En að ríkisstjórnin hefði séð sóma sinn í því að gera upp fortíðina með mannsæmandi hætti þannig að að því væri einhver lágmarksmanndómsbragur. Nei, það er ekki. Allt er túlkað þeim aðilanum í óhag sem þó er búinn að vinna málið gegn ríkisstjórninni og fá hana dæmda og fyrir hvorki meira né minna en stjórnarskrárbrot. Út í gegn er þetta á þessa hliðina.

Þessi kröfuharka ríkisins, herra forseti, hefur líka verið mér mikið umhugsunarefni. Hvers vegna gengur ríkið eða stofnanir ríkisins, Tryggingastofnun, og ríkislögmaður væntanlega þar á bak við, fram með slíkri hörku gegn þessum hópi? Ég minni þar á að þetta mál er búið að vera lengi uppi af hálfu einstakra öryrkja eða samtaka þeirra og það er rangt sem menn hafa látið liggja að að algjört samkomulag hafi verið um þessa tekjutengingu fram á síðustu ár. Það er ekki svo.

Strax 1988 kærði fyrsti öryrkinn þetta mál til umboðsmanns Alþingis. Sami maður, Bragi Halldórsson á Akureyri, hélt því síðan aftur áfram 1996 og sá úrskurður féll 1998. Það er í framhaldi af því og hinni dæmalausu lagasetningu ríkisstjórnarinnar í desember 1998 og meiri hluta hennar á þingi sem Öryrkjabandalagið fer svo með málið fyrir dómstólana.

Eigum við að rekja okkur í gegnum þetta aftur, herra forseti, hvernig þetta er? Í öllum tilvikum beitir ríkið ýtrustu hörku í þessum samskiptum, fellst aldrei á neinar kröfur, hversu réttmætar og sanngjarnar sem þær eru og hversu augljóst sem það er að ríkið er með koltapað mál. Það liggur þegar fyrir 1998 að lagastoð skortir fyrir þessari skerðingu. Strax 1996 þegar fyrstu öryrkjarnir snúa sér til Tryggingastofnunar eða 1995 má öllum mönnum vera það ljóst enda hefur enginn lögfræðingur komið fram á sjónarsviðið á Íslandi frá því að þetta mál hóf göngu sína eftir lagasetninguna 1994 sem hefur haldið neinu öðru fram en því nema varnaraðilar ríkisstjórnar og Tryggingastofnunar að málið væri koltapað.

En allan þennan tíma frá því að fyrstu öryrkjarnir fara með kröfur sínar til Tryggingastofnunar, gegnum kærur til umboðsmanns, gegnum ítrekaðar tilraunir til að fá málið tekið upp í viðræðum, gegnum héraðsdóm og í gegnum Hæstarétt, þvælist ríkið fyrir í málinu og beitir ýtrustu hörku til að varna því að öryrkjarnir nái kröfum sínum fram, er svo loksins dæmt í Hæstarétti, og ber þá við fyrningum.

Þessi ótrúlega kröfuharka, þó mér sé að vísu vel kunnur sá plagsiður ríkisins að áfrýja yfirleitt endalaust málum jafnvel þó þau séu koltöpuð og gera sjaldan dómsátt, er mér nokkurt umhugsunarefni í þessum samskiptum. Eru menn stoltir af framgöngu lögmanna sinna, t.d. ríkislögmanns í þessum efnum þegar menn svo bera fyrir sig fyrninguna að lokum? Hefði ekki verið meiri manndómur að því að fallast á kröfuna þegar ljóst var strax fyrir mörgum árum að hún var augljóslega gild og ríkið mundi, ef ekki vildi betur til, verða dæmt til að greiða þetta til baka að gera það þá strax?

Það er nú ekki, herra forseti, eins og ríkisvaldið sé að eiga við einhvern ósvífinn aðila sem með frekju eða yfirgangi eða í krafti þess að ætla að hafa sitt fram með hótunum eða af því að hann hafi kverkatak á einhverjum lífæðum samfélagsins, sé að þvinga fram óréttmætar kröfur. Nei, þetta eru samskipti við tiltekinn hluta af öryrkjum landsins sem ríkið velur að koma fram við af slíkri hörku sem raun ber vitni. Mér finnst mikið umhugsunarefni að ríkið skuli neyta þess gríðarlega aflsmunar sem er þarna á ferðinni í gegnum sterkar stofnanir sínar með fulla vasa fjár til að standa í málarekstri við þennan hóp og þvæla þeim áfram fyrir dómstigunum þannig að sem allra mest af því sem var ranglega tekið af mönnum verði þá fyrnt þegar ríkið verður loksins dæmt. Svona kemur málið út og það er svona sem það blasir við þessu fólki. Svo eru menn hissa á því að þeir séu ekki vinsælir þessa dagana á götum borgarinnar eða annars staðar í landinu, alveg rjúkandi hissa og sérstaklega framsóknarmenn að þjóðin skuli ekki alveg flaðra upp um þá af gleði yfir því að eiga svona snillinga við stjórnvölinn eins og hafa komið þannig fram undanfarin ár við þennan hóp landsmanna, þennan hóp þegna sinna. Svona hafa menn farið með valdið gagnvart hluta af öryrkjum í landinu.

Herra forseti. Þetta veldur að mínu mati yfirgnæfandi óánægju og hneykslun þjóðarinnar með viðbrögð ríkisstjórnarinnar í málinu. Ég hef farið allvíða undanfarna daga og vikur og verið á mörgum fundum eins og hæstv. utanrrh., sem telur það til tíðinda að hafa farið á nokkra fundi á landinu á síðustu dögum, og orðið sem ég heyri oftast er hroki. Það er hroki, það er tilfinning þjóðarinnar fyrir því að yfirvöldin hafi komið fram af óvenjulegum hroka í þessu máli. Það er því miður rétt. Það er ekkert annað betra orð til á íslensku yfir þessa framgöngu ríkisstjórnarinnar en orðið hroki.

Það er hrokafullt að tala ekki einu sinni við Öryrkjabandalagið þegar ríkið er búið að tapa málinu. Það er hrokafullt að taka völdin af Tryggingastofnun og tryggingaráði og banna þeim að gera það sem þeir ætluðu að fara að undirbúa að gera, að bregðast við dómnum og greiða út óskerta tekjutryggingu. Allur framgangsmáti ríkisstjórnarinnar síðan lýsir af þessu sama.

Það er í öðru lagi það einfalda atriði sem ég held að þjóðin hafi alveg skilið að ríkisstjórnin er að leita leiða til að komast á svig við þennan dóm, a.m.k. að einhverjum hluta til. Þetta held ég að almenningur hafi alveg skilið, hæstv. iðnrh. Ég held að það sé ákaflega hættulegt í stjórnmálum að vera kominn í þvílíka kastþröng en láta það þá eftir sér að henda út þeim spilum að þjóðin misskilji hlutina og gráta undan því að menn séu svo óskaplega misskildir. Það er slíkur óskaplegur allsherjarmisskilningur í gangi úti um allt núna þegar ráðamenn komast í fjölmiðlana að engu tali tekur. Þetta er allt saman meira og minna einn allsherjarmisskilningur. Framsfl. er víst góður og göfugur flokkur, allt hitt er bara misskilningur. (Gripið fram í: Og hefur sterk bein.) Og hefur sterk bein. Og forsrh. er lítillátt ljúfmenni. Allt annað er bara misskilningur. Ekki vottar fyrir stærilæti eða valdboðshugsun í framgöngu hans, það er bara misskilningur. Hæstiréttur hefur líka misskilið þetta allt saman, það er alveg fráleitt að vera að dæma þessum hátekjuhópi kjarabætur eins og kunnugt er o.s.frv.

Herra forseti. Ég held að menn krafli sig ekki svona upp úr feninu. Ég held að ríkisstjórninni væri miklu hollara að draga ákveðna lærdóma af því sem hefur gerst og líta í eigin barm og segja: Okkur urðu á mistök og við viljum reyna að bæta fyrir þau. Við höfum greinilega keyrt hér út af veginum, þjóðin er ósátt við okkur og reið. Getur það ekki verið vegna þess að við höfum gert eitthvað sem þjóðinni líkar ekki en ekki bara það að þjóðin misskilji okkur, að þetta sé allt saman misskilningur?

Herra forseti. Ég held að tilraunir ríkisstjórnarinnar og talsmanna stjórnarliðsins til þess að sveigja umræðuna um þetta mál frá því sem er kjarnaatriði þess hafi mistekist og það gleður mig. Ég hef enga trú á því að ríkisstjórninni takist að fela það sem er kjarnaatriði málsins, það er dómur Hæstaréttar og undanbrögð ríkisstjórnarinnar sem falin eru í þessu frv. til að verða við honum með eðlilegum hætti.

[18:00]

Það sem mig undrar kannski meira er það af hversu miklum vilja, að því er best verður séð, ýmsir óbreyttir stjórnarliðar ganga hér í að verja hinn vonda málstað ríkisstjórnarinnar. Sérstaklega finnst mér það merkilegt að þeir hinir sömu þingmenn og lentu í þeim ósköpum að hlíta ráðum og leiðsögn foringja sinna í desember 1998 og greiddu þeim lögum atkvæði sitt sem síðan hafa verið dæmd stangast á við stjórnarskrána, að þeir skuli ekki vera meira hugsi a.m.k. yfir þeim möguleika, svo við kveðum ekki fastar að orði fyrir þeirra hönd. Það hlýtur að hvarfla að einum og einum manni að þeir gætu lent í því að vera að endurtaka sama leikinn. Er það virkilega ekki þannig að einum og einum þingmanni stjórnarliðsins sem rétti upp hönd með þessu 1998 sé órótt núna? Langar menn í þetta aftur? Eða er þetta orðið þannig í þingflokkum stjórnarliðsins að það er bara ekkert val? (ÁRJ: Er nokkur þeirra viðstaddur hér?) (Gripið fram í: Drífa.) Það er nú einn og einn maður, ein og ein hetja er hérna enn þá úr stjórnarliðinu.

Ég tók eftir því, herra forseti, að þingflokkar stjórnarliðsins voru ekki hátt skrifaðir í þessu ferli. Það var ekki vandasamt og flókið atriði að fá stimplun þingflokkanna á þessari framgöngu ríkisstjórnarinnar. Einhver sagði mér að það hefði tekið hálftíma að afgreiða þetta smámál í a.m.k. öðrum þingflokknum. Og búið var að boða blaðamannafund klukkan tvö fyrripart sama dags og þingflokkunum var hóað saman í hádeginu til þess að leggja að forminu til blessun sína yfir þetta.

Þetta er nokkurt umhugsunarefni því það á að heita svo að lagasetningin hér sé á ábyrgð Alþingis. En það virðist ekki hvarfla að neinum manni að þetta fái hér sjálfstæða skoðun og að einhverjir af þeim ólánssömu þingmönnum sem lentu í þeim ósköpum að samþykkja lögin 1998 og vöruðu sig ekki á því skulum við segja að varnaðarorðin þá voru réttmæt vildu nú hugsa sig vel um áður en þeir lentu mögulega í að gera það sama aftur. En það virðist ekki vera. Satt best að segja man ég ekki eftir því nú í seinni tíð að það hafi nokkurn tíma gerst og komið af því fréttir að þingflokkar stjórnarliðsins hafi neinn sjálfstæðan vilja. Ég man ekki eftir því að hafa heyrt það núna svo mánuðum skiptir að eitt einasta stjfrv. hafi stoppað andartak í þingflokkum stjórnarliðsins. (Gripið fram í.) Ja, þetta er nú bara svona, ég er að vísa til umfjöllunar fjölmiðla um þessa hluti. Þeir fylgjast nokkuð vel með gangi mála. (Gripið fram í.)

Ef hv. þm. vill koma hér upp og nefna dæmin um frv. sem hafi strandað í þingflokkum stjórnarliðsins þá verð ég ákaflega glaður því það væri þá til marks um að þingræðið lægi ekki jafnflatt fyrir fótum valdhöfðingjanna og ég óttast að það sé farið að gera. Ef ég ber þetta saman við ýmis dæmi frá fyrri tíð þá finnst mér að öllu hafi heldur hrakað hvað það varðar að ofríki framkvæmdarvaldsins í þessum efnum sé alltaf að verða meira og meira. Við höfum séð hvernig það birtist gagnvart aðilum í þjóðfélaginu og þó ekki, að maður skyldi ætla, aðilum sem eiga minni samúð skilið en t.d. samtök öryrkja sem framkvæmdarvaldið velur að ganga fram af þvílíkri hörku og ég gerði hér grein fyrir.

Herra forseti. Að síðustu nokkur orð um vafann, um varúð og vafa í þessum efnum. Nú liggur þetta fyrir, en sem betur fer gerist það frekar sjaldan að menn standi frammi fyrir því að hafa að mati dómarans sem í þessum efnum ræður, þ.e. Hæstiréttur Íslands, orðið á þau hroðalegu mistök að setja hér lög sem standast ekki ákvæði stjórnarskrárinnar, nýtilkomin mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar sem sum hver vissulega voru áður í óskráðum rétti eða annars staðar í lögum, eins og fram hefur komið hér, en engu að síður eru í hinum nýja mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Ég skýt því hér inn að ég fagna auðvitað þeim úrskurði því ég tel að það séu tímamót, og hef áður sagt það, að félagsleg réttindi séu dæmd mönnum til handa með þeim hætti sem þarna er gert á grundvelli mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar. Þetta er hlutdeild í félagslegu tryggingakerfi landsmanna sem þarna er verið að dæma mönnum. Þess vegna er það misskilningur að mínu mati að lesa eingöngu út úr þessu spurningu um einstaklinginn og einstaklingsbundinn rétt. Þetta er það vissulega en er líka um leið geysilega mikilvægur dómur sem í rauninni undirstrikar gildi hinna félagslegu mannréttinda sem við erum búin að byggja upp í landinu. Það er ekki síður í því tilliti sem ástæða er til að fagna honum. En auðvitað fer þetta tvennt saman.

Ég held, herra forseti, að málatilbúnaður hæstv. ríkisstjórnar falli um sjálfan sig á einu einasta atriði, þ.e. ég tel að Hæstiréttur hafi verið að segja að óheimilt væri að skerða tekjutryggingu öryrkja vegna tekna maka. Mér er algjörlega ómögulegt að lesa þennan dóm öðruvísi en að fá þá niðurstöðu. Ég hef enn gert áhlaup að því að lesa þetta nákvæmlega og ég minni á að sérfræðinganefndin eins og fram kemur í nál. minni hlutans gerir þau afdrifaríku mistök í rökstuðningi sínum að láta að því liggja að orðin margumtöluðu og frægu ,,á þann hátt`` séu í dómsorðinu sjálfu en svo er ekki eins og kunnugt er. Þau eru í reifun í V. kafla umfjöllunar Hæstaréttar um dóminn.

Og hvað er nú líklegt að Hæstiréttur hafi verið að reyna að segja þarna? Eigum við að reyna að gera eina tilraun til þess að fara yfir það? Þetta er svo samkvæmt orðanna hljóðan, með leyfi forseta:

,,Í samræmi við það, sem að ofan greinir, er fallist á þá kröfu gagnáfrýjanda,`` --- það var Öryrkjabandalagið í þessu tilviki --- ,,að viðurkennt verði`` --- stefnan viðurkennd --- ,,að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap frá 1. janúar 1999 á þann hátt sem gert er í 5. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 149/1998.``

Á þann hátt. Stjórnarliðið heldur því fram, sérfræðinganefndin heldur því fram og á því byggir öll nálgun ríkisstjórnarinnar að þetta vísi til upphæðar, þetta hljóti að vísa til þess að ekki megi skerða alveg svona mikið.

Þetta er rangt. Þetta er andstætt málvenju og þetta er augljóslega þannig þegar betur er að gáð að þarna hlýtur að vera vísað til aðferðarinnar. Ef svo er ekki þá er Hæstiréttur að orða þetta einhvern veginn öðruvísi en hægt er að taka gilt af svo virðulegum og háum aðila. Hæstarétti hlýtur að vera ljós merking þessara orða. Það er ekki nema menn lesi annað út úr þeim en stendur samkvæmt orðanna hljóðan og eðlilegt er að túlka þetta miðað við orðabækur að hægt er að fá það út að þetta vísi til einhvers annars en aðferðarinnar.

Ég fletti hér upp í orðabók, herra forseti, stundum er gripið til þess ef maður ætlar að reyna að glöggva sig á því hvað nákvæmlega felst í tiltekinni setningu eða orðum. Og ætli það gæti ekki farið svo að menn gripu til orðabóka ef þeir þyrftu að fara að skýra það hvað tiltekið orðalag merkir? Á því byggir þetta allt saman.

Orðið háttur getur þýtt ýmislegt í mismunandi samsetningum eins og kunnugt er. Þar er gefin fyrsta merking og önnur merking og síðan þriðja merking sem er sú sem hér á við þegar þetta snýr að því hvernig eitthvað er gert. Í Orðabók Menningarsjóðs segir: ,,það hvernig eitthvað er eða er gert.``

Orðið háttur merkir í þessu tilviki með þeim hætti, á einhvern til tekinn hátt. Það merkir: ,,það hvernig eitthvað er eða er gert, aðferð, máti.`` Aðferð eða máti.

Þegar orðið háttur er sett í þetta samhengi að eitthvað sé gert á þann hátt, með tilteknum hætti, þá merkir það aðferð eða máti. Og mér er algjörlega ómögulegt að skilja það, herra forseti, hvernig menn geta --- af því það er ekkert annars staðar í dómnum sem menn í raun og veru hafa til að undirbyggja það að þetta orðalag vísi til upphæðar, vísi til þess að það sé ekki aðferðin í 2. málsl. 5. mgr. 17. gr. sem þarna er verið að vísa til gegn því að stefnan gekk út á það að dæma aðferðina ólöglega. Samt komast snillingarnir að þeirri niðurstöðu að það sé einmitt þetta sem Hæstiréttur vísi til. Það sé ekki orðanna hljóðan sem þarna eigi að nota, það sé ekki eðlileg málvenja eða útskýringar í orðabókum sem eigi að nota, sem vísar til aðferðar, og það sé ekki krafa gagnáfrýjandans sem vann málið og fékk sína kröfu viðurkennda sem gekk út á að dæma aðferðina ólögmæta. Nei, heldur sé Hæstiréttur að segja þarna --- án þess að segja það --- að það megi áfram tekjutengja, bara ekki svona mikið.

Þá hefði Hæstiréttur orðað þetta öðruvísi. Það er orðin algjörlega bjargföst sannfæring mín. Þá hefði þarna staðið ,,eins mikið og gert er`` eða ,,skerða svo mikið`` eða ,,fara svo langt niður með þennan persónulega framfærslugrunn eins og raun ber vitni``. Hæstiréttur hafði ótal möguleika til að orða þá hugsun ef hún hefði vakað fyrir honum.

En hann gerir það ekki, orðar þetta þvert á móti þannig að það er ómögulegt að fá annað út úr því ef það er athugað eftir venjulegum leiðum en að þetta vísi til aðferðarinnar, þess máta, þeirrar aðferðar sem þarna er viðhöfð.

Einustu rökin sem ég hef heyrt og hægt er að sækja á annan stað í reifun sjálfs dómsins er sú setning að fyrir því geti verið málefnaleg rök að taka nokkurt tillit til hjúskaparstöðu við greiðslur úr opinberum sjóðum.

,,Getur það því átt við málefnaleg rök að styðjast að gera nokkurn mun á greiðslum til einstaklinga úr opinberum sjóðum eftir því hvort viðkomandi er í sambúð eða ekki.``

Þarna er hvergi minnst á tekjutrygginguna. Það er heldur ekki hægt að sækja í þessa setningu rök fyrir því að túlka síðan orðin á þann hátt með þeim furðulega hætti og undarlega sem stjórnarliðið hefur gert.

Flóknara er málið ekki, herra forseti, en það að á þeirri túlkun þessara þriggja orða byggir öll sú nálgun ríkisstjórnarinnar að heimilt sé að halda tekjutengingunni áfram og allt heila móverkið hrynur til grunna ef lagður er annar skilningur í þessi orð, sá skilningur sem augljóslega er eðlilegast að gera, að þarna sé vísað til aðferðarinnar sem stefnt var út af eða gagnáfrýjað var út af. Þá er nú ekki að verða mikið eftir, herra forseti, í þessum merkilega málatilbúnaði.

Þá þetta með varúðina og vafann. Er það þá ekki þannig, herra forseti, að í öllu falli hljóti menn að viðurkenna að þetta er svo umdeilanlegt og svo mikill vafi --- þó að ég sé ekki í neinum vafa og sannfærður um að frv. stenst ekki --- þá ættu a.m.k. allir að geta viðurkennt tilvist hans. Það margir lögfræðingar hafa komið og lýst vandamálunum og mismunandi mögulegum valkostum í lögskýringum að menn tækju af þennan vafa, hefðu vaðið fyrir neðan sig og gengju þannig frá þessu að ekki þyrfti um það að deila og ekki gæti komið upp nein óvissa um það að stjórnarskráin væri virt þarna að fullu og öllu leyti. En það er eins og það sé algjört aukaatriði að við séum hérna að umgangast sjálfa stjórnarskrána og grundvallarmannréttindi í henni og ekkert sé að því að taka aftur sénsinn og láta bara vaða. Það er þá hægt að fara í mál, segja menn, eins og þar í sé réttlætingin fólgin fyrir því að stytta sér leið í vinnubrögðum og taka það ekki alvarlega að uppi eru mjög rökstudd sjónarmið í þeim efnum að ríkisstjórnin sé aftur að lenda í sama feninu með meiri hluta sínum að standa hér fyrir lagasetningu sem ekki samrýmist þessum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Það er ekki gæfulegt ef menn lenda aftur og aftur í þeim ósköpum, herra forseti. Maður hefði ætlast til þess eða haldið að menn sem látast í orði kveðnu vera vandir að virðingu sinni og annt um sinn sess á spjöldum sögunnar, sumir hverjir eru jafnvel svo uppteknir af framlagi sínu til stjórnmálanna að þeir eru komnir með hálfar og heilar óbirtar ævisögur í kollinn, eins og hæstv. landbrh., að þeir vönduðu sig við afgreiðslu svona máls.